17.12.1946
Efri deild: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (3701)

80. mál, sóknargjöld

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta, sem hér um ræðir, er „principiell“ breyting, sem sé að sóknargjöldum er breytt í nefskatt. Væri rétt, að Alþ. afnemi þetta, því þó að þetta gjald nemi ekki meiru en 10 kr. á einstakling, getur það orðið þungt fyrir fátækar og barnmargar fjölskyldur, en mun lægra á ríkum og barnlausum fjölskyldum. Ég tel ekki rétt að skattleggja fátæklinga þannig, og væri réttara, að nefskatturinn væri sem brothluti af heildarútsvarsgreiðslum þegnanna. Það er engum vandkvæðum bundið, að sóknarnefndir skili fjárhagsáætlun, áður en niðurjöfnun útsvara fer fram, og dregst þá sameiginleg upphæð sóknargjaldanna frá heildarútsvarsupphæðinni. Eitt var það, sem hæstv. kirkjumrh. vakti athygli á, að til eru tilfelli, þar sem ein og sama sókn tilheyrir tveim sveitarfélögum. Um þetta atriði er reyndar ekki ákvæði í till. minni, en þó liggur beint fyrir, að þessi sveitarfélög greiddu sóknargjöld í hlutfalli við safnaðarmeðlimi sína. Það, sem vinnst við þessa till., er, að afnumið er ranglæti það, sem ríkt hefur í þessu efni, og sérstakur innheimtukostnaður fellur niður, en felst þá í útsvarsinnheimtunni. Ekki er ástæða til að orðlengja um þetta frekar, en ég mundi gjarnan bera fram brtt. um það fyrirbæri, er ein sókn tilheyrir tveim sveitarfélögum.