11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. fór dálítið inn á heildsalana og hlutverk þeirra og var sammála ýmsu af því, sem ég hélt hér fram í gær, þó að hann vildi hins vegar kenna Sósfl. um það sérstaklega, skildist mér, að heildsalarnir væru yfirleitt til og hefðu þessa sérstöðu, sem þeir hafa. til þess að græða á atvinnustarfsemi landsmanna. En hins vegar reyndi hann ekki að fara neitt frekar út í þessi mál, enda býst ég við, að það hafi verið honum fyrir beztu sjálfum, vegna þess að hann kom talsvert mikið við stjórn landsins á þeim tíma, þegar verið var að byggja undirstöðu undir þá háborg peningavalds hér í þessu landi, sem heildsalastéttin er orðin. — Hv. þm. V-Húnv. nefndi hér ýmsar tölur um það, hvernig ástatt væri orðið fyrir þjóðinni, og ég býst við, að þessar tölur, sem hann nefndi, gefi ljóta mynd, sem sagt þá mynd, að það sé komið í slæmt efni. Og það er rétt hjá honum, að það væri rétt að láta hagfræðinga gera athugun á þeim efnum. Og það mun vera rétt, sem hann hélt fram, að það er alvarlegt fyrir þjóðina, hvernig sjávarútvegi og framleiðslu útflutningsvara hefur hrakað í hlutfalli við þá þörf, sem þjóðinni er á gjaldeyri, og liggja til þess margar orsakir, sem ekki verður komizt hjá að fara nokkru nánar inn á. Hafa hv. þm. V-Húnv. og hæstv. núv. menntmrh. gefið mér sérstakt tilefni til þess að rekja nokkuð ástæðurnar fyrir því, að svo er komið í okkar verzlunarmálum og atvinnumálum sem komið er nú. — Það var í dálítið svipuðum dúr. sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. Hann lagði áherzlu á, að það væri Sósfl. að kenna, að ekki hefði verið staðið við þá lagasamþykkt að greiða 15% af árlegum gjaldeyri þjóðarinnar inn á nýbyggingarreikning, og sá hann þar enga seka aðra en Sósfl. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að það er ákaflega mikill greiði við þá menn, sem mest hafa hagnazt á þeirri óeðlilegu þróun, sem orðið hefur í atvinnulífinu, og þeim gífurlega vexti í verzluninni, sem hefur átt sér stað á undanförum 10–14 árum, þegar menn standa upp og reyna að kenna ýmsum öðrum um það, hve illa er komið atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar, heldur en því, sem er raunverulega ástæðan fyrir því.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fellur vel í geð heildsölum og þeim mönnum, sem græða á þessari óeðlilegu þróun. Og það er vissulega verulegur þáttur í varnarkerfi þeirra gegn því, að nokkuð sé raskað þeirra aðstöðu, að kenna öllum öðrum um það, sem aflaga fer, heldur en þeim, sem það er raunverulega að kenna. — Einmitt vegna þess, að það eru þessir tveir menn, hæstv. menntmrh. og hv. þm. V-Húnv., sem hafa borið á Sósfl. að hann hafi við haldið og skapað líka, að mér skilst, þennan óeðlilega heildsalagróða og sé verndari heildsalanna, eins og hv. þm. V-Húnv. sagði, það gefur mér sérstakt tilefni til þess að rekja feril þessara mála og þessara tveggja manna í sambandi við þau. Og það er ekki nein tilviljun, að það skuli vera einmitt þessir tveir menn, sem hrópa það upp nú, að það sé Sósfl., sem skapað hafi heildsölunum þá aðstöðu, sem þeir hafa haft til að græða eins og þeir hafa gert. Það er af því, að þessir menn vita, að þeir voru byggingarmeistararnir við að byggja upp þetta kerfi. sem er sýnilegt, að leiða muni íslenzku þjóðina í glötun, ef ekki er kippt í liðinn í tæka tíð, og þeir hafa haft þar forustu að verulegu leyti. þegar þetta kerfi var byggt upp, — ekki af því að ég haldi, að þeir hafi verið svo fávísir, að þeir hafi gert það af því, heldur hafa þeir gert það af eiginhagsmunasemi fyrir sinn flokk og þannig vegna smámunalegra sjónarmiða leitt þessa ógæfu yfir þjóðina og atvinnulífið í landinu. Svo kenna þeir öðrum um það, sem illa hefur farið, eins og oft fer í opinberum málum.

Fyrir kreppuna 1932 var þetta kerfi ekki til, að menn, sem ætluðu að reka innflutningsverzlun. gætu fengið gjaldeyri hjá einhverri ríkisstofnun, sem tæki allan gjaldeyrinn af útflutningnum, þannig að þeir, sem gjaldeyrinn fengu, þyrftu ekkert fram að leggja til þess að skapa þennan gjaldeyri. Fram að kreppunni voru þetta alltaf sameiginleg fyrirtæki, sem önnuðust innflutningsverzlunina og útflutningsverzlunina. Og þeir innflytjendur, sem stærstir voru hér á landi, ráku stórútgerð, þannig að verzlunarágóðinn, sem skapaðist, var notaður til rekstrar og aukningar sjávarútvegsins, vegna þess að atvinnurekandinn hafði hag af því að auka þann gjaldeyri, sem hann gat sjálfur ráðstafað til innflutningsverzlunarinnar. Á þessum árum var verzlunin miklu meira dreifð út um landið, en síðar varð, því að þá varð innflutningsverzlunin að miðast við þá staði, þar sem heppilegast var að reka útgerð. Það þýddi ekki að hrúga framleiðslutækjunum til Rvíkur, því að hér var ekki aðstaða fyrir stóran hóp manna til gjaldeyrissköpunar. Hins vegar voru stór fyrirtæki úti um landið, sem stóðu að því að skapa gjaldeyri ein sér, og gátu tryggt sér góða aðstöðu til þess að skapa sér gjaldeyrisframleiðslumöguleika. Og það er engin tilviljun, að framan af kreppunni voru allir kaupstaðirnir að vaxa, en eftir að þessi höft voru sett á, má heita, að ekkert byggðarlag vaxi nema Rvík. Þetta er ein af afleiðingum þeirrar ráðabreytni, sem tekið var til í kreppunni. Þegar kreppan skellur á 1932, fellur verð á íslenzkum afurðum stórkostlega og erfitt var að koma þeim frá sér. Þá rekur þjóðin sig á það, að hún hefur litinn gjaldeyri, og þá er farið að spara og bankarnir fara að setja upp gjaldeyrishömlur og taka upp skömmtun, þannig að þeir úthluta þessu til fyrirtækja, sem stunduðu innflutningsverzlun. Síðan komu til sögunnar þeir hv. menntmrh. (EystJ) og hv. þm. V-Húnv. (SkG) og taka að sér stjórn á þessum málum fyrir þjóðina, á árinu 1934. þegar stjórn hinna „vinnandi stétta“ var mynduð, eins og hún var svo fagurlega kölluð. Eftir að sú stj. var sett á laggirnar og þessir mjög svo vísu menn, sem nú ásaka Sósfl., tóku að sér þessi mál, byrjaði fyrir alvöru þessi ganga íslenzku þjóðarinnar á glötunarveginum. Þá var sköpuð innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, og minnir mig, að hv. þm. V-Húnv. (SkG) væri þar mjög ráðamikill maður, og mun ekki langt frá því, að menn hafi orðið að skríða á fjórum fótum, ef þeir ætluðu að finna náð fyrir augum hans. Það var ákveðið, að ekki skyldi flytja inn meira en þyrfti. og reynslan varð sú, að miklu minna var flutt inn, en þjóðin þurfti. Þessu var svo úthlutað til hinna ýmsu innflytjenda, sem komust inn í þetta og fengu kvóta, og þeir voru öruggir um það, sem fundu náð, að þeir gætu grætt á þeirri vöru, sem þeir fengu að flytja inn. Það varð sú breyting á við þetta skipulag Framsfl., að þarna var fundinn atvinnuvegur, sem var alveg viss með að skila gróða. Áður þurftu menn, ef þeir vildu græða, að fara í útgerð og taka á sig áhættu af aflaleysi og markaðsáhættu. Nú þurfti ekkert að gera nema hafa aðgang að hæstv. menntmrh. (EystJ) og hv. þm. V-Húnv. (SkG). Ef þeir þekktu einhvern mann, sem átti aðgang að þeim, áttu þeir víst að geta sett á stofn verzlunarfyrirtæki, sem gæti gefið mikinn arð, og hvað fyrirtækin voru stór, fór eingöngu eftir því, hve leyfin voru stór, sem tókst að kría út. Það var eins og verzlunarstéttin hefði verið snert með töfrasprota. Hún byrjaði að vaxa og blómgast, og þessi atvinnuvegur, sem fram að þessu hafði verið í samræmi við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, tók nú þvílíkt risaskref, að hann skyggði á allt annað, og á þeim verstu árum, sem yfir þjóðina hafa komið, var þessi stétt það vel sett, að hún gat mokað til sín milljóna gróða. En útgerðarmennirnir, sem höfðu lagt í hættu til þess að gera út skip, fundu það, þegar þeir komu í land, að þeir voru alls ekki eigendur að gjaldeyrinum. sem fyrir söluna kom. Gjaldeyririnn var eign þeirra, sem fundu náð fyrir augum þessara manna. Útgerðarmennirnir sáu enga möguleika aðra, en þá að geta framleitt vöru og selt hana á erlendum markaði. Þeir möguleikar voru þó mjög takmarkaðir. Eitt árið fór síldarverið niður í 3 krónur, og geta allir ímyndað sér, hvað það þýddi. Þetta varð til þess, að allir fjármálamenn og sérstaklega allir efnaðir menn hættu að fást við útgerð. Þeir hugsuðu ekki um annað en að fá sér vöruleyfi. Sumir urðu að beita brögðum til þess að fá sér vöruleyfi. Það var algengt, að framsóknarmenn voru fengnir til þess að ganga inn í hlutafélög. og eftir það var mikil vissa fyrir því, að gjaldeyrisleyfi fengist. Þá þurfti engar áhyggjur að hafa úr því.

Fyrstu áhrifin af þessu skrefi Framsfl., af þessu skrefi menntmrh. (EystJ) og þm. V-Húnv. (SkG). var það, að einkafjármagnið í landinu dróst inn í verzlunina frá sjávarútveginum. Hver maður, sem gat það, dró sig út úr útgerðinni, ef hann hafði möguleika til þess, og smeygði sér inn í verzlunarfyrirtæki með vörukvóta. Það er ekki nema eðlilegt, að menn í auðvaldsþjóðfélagi eins og við lifum í sæki þangað, sem hægt er að græða. Straumurinn liggur þangað, sem hægt er að græða, eins og vatn rennur undan brekku. Þegar búið var að skapa slíka möguleika. var vitað, að allt það einkafjármagn, sem gæti komizt í verzlunina, mundi fara þangað. Með þessu var tekin ríkisábyrgð á því, að allir, sem fengu kvóta, skyldu græða. Þjóðin skyldi sjá fyrir því, að þeir skyldu græða. Sem sagt, þeir voru ríkistryggðir, en það var ekki fyrr en á árinu 1946, sem útgerðin var ríkistryggð. (Forseti: Mér þykir leitt að þurfa að vekja athygli á því, að þegar 2. umr. fer fram, ber að ræða einstakar gr. frv. og brtt. við þær. Nú hafa umr. farið á við og dreif og ekki beinzt að neinu sérstöku, og vildi ég óska þess, að hv. þm. vildu hafa í heiðri þetta fyrirmæli þingskapanna). Ég skal reyna að verða við þessu, en ég get ekki hjá því komizt að gera grein fyrir þessu, vegna þeirra ummæla, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) beindi að Sósfl. Þessi ummæli viðhafði hann við þessa umr., 2. umr., svo að ég vænti þess, að hæstv. forseti vilji leyfa mér að bera hönd fyrir höfuð mér og flokks míns í þessu efni.

Eftir að einkafjármagnið hafði streymt inn í verzlunina, kom lánsfé bankanna á eftir, vegna þess að bankarnir eru með þeim ósköpum gerðir, að þeir vilja ekki lána öðrum en þeim, sem hafa peninga. Það var fyrst og fremst leitað að þeim atvinnuvegi, sem var öruggur og gat skilað arði, af því að bankarnir eru reknir með það fyrir augum að fá vaxtatekjur, en ekki með það fyrir augum, sem vera ætti eftir heilbrigðu skipulagi. Þess vegna lána bankarnir þeim, sem mest græða. Þegar bankastjórnirnar voru búnar að litast um í þjóðfélaginu eftir þeim, sem ættu efni, sáu þær, að það voru verzlunarmennirnir. Eftir að þessir tveir menn. menntmrh. og þm. V-Húnv., voru búnir að koma á þessu ágæta kerfi sínu, rann lánsfé bankanna fyrst og fremst inn í verzlunina. Það segir síg sjálft, að þegar einkafjármagnið streymdi í verzlunina og lánsfé bankanna streymdi í verzlunina, þá var ekki hægt að lá fólkinu, þó að það færi þangað. Þannig streymdi bæði vinnuaflið og fjármagnið í verzlunina, og það var fyrir stríð viðurkennt, að ef maður gæti fengið vinnu á skrifstofu hjá heildsala, eða jafnvel bara orðið pakkhúsmaður hjá heildsala, þá væri sá maður hólpinn. Allt var gert á kostnað útvegsins. Peningarnir, vinnuaflið og gjaldeyririnn var frá sjávarútveginum. Þess vegna orsakaði þetta kerfi öfugstreymi í atvinnumálum okkar. — Það voru ýmis önnur áhrif, sem komu í ljós fyrir atbeina þessa kerfis. Ein afleiðingin var sú, að öll innflutningsverzlun landsins beindist til Rvíkur. Það var vonlaust að reka þessa verzlun annars staðar, en í Rvík. Stórar verzlanir úti á landi vesluðust upp á sama tíma og verzlunarstétt Rvíkur blómgaðist. Gamlar verzlanir fóru á hausinn með stórtöpum fyrir bankana. en sumir eigendur þeirra fluttu til Rvíkur og fengu kvóta og þá voru þeir öruggir. Einnig af þessu fluttist vinnuaflið meira til Rvíkur, en áður hafði átt sér stað. Þetta þýddi líka það, að fólkið úti á landsbyggðinni þurfti að kaupa vörur sínar miklu hærra verði, en það þurfti áður, vegna þess að við innkaupsverð vörunnar bættist allur kostnaður við hafnargjöld, uppskipun. geymslu, útskipun o.fl. hér í Rvík og svo flutningskostnaður héðan. Þetta er það, sem fólkið úti á landinu þarf að borga vegna þessa kerfis, sem þessir tveir menn komu á, þegar mest reið á um fjármál og gjaldeyrismál íslenzku þjóðarinnar. Nú á stríðstímanum hefur verið gífurlegur vöruskortur úti á landi, og má segja, að alltaf vanti þar eitthvað tilfinnanlega, vegna þess að allar vörur koma fyrst til Rvíkur, og ofan á það bætist, að fólkið úti í byggðunum fær aldrei nema úrgangsvörur. Beztu vörurnar eru seldar upp hér í Rvík og sjást aldrei úti á landi. Það er algengt, að menn verða að láta kaupa fyrir sig með ærnum kostnaði hér hjá smásölum í Rvík, vegna þess að heildsölunum þykir léttara að afgreiða hér við sinn eigin disk. Svo eru þeir framkvæmdasömustu búnir að koma sér upp smásöluverzlunum. Endanleg afleiðing er svo hinn sífelldi straumur til Rvíkur. Það er napurt, að sá flokkur, sem mestar hefur vandlætingar út af hinum sífellda straum til Rvíkur, skuli einmitt hafa átt frumkvæðið að því, að fólk flyttist til Rvíkur. En þessi straumur til Rvíkur er vandamál bæði fyrir byggðirnar og Rvík. Það sér hver maður, að þegar atvinna minnkar hér í Rvík, þá er þetta stórkostlegt vandamál, og eitt af þeim verkefnum. sem fyrir liggur, er að gera ráðstafanir til þess að fólk geti unað sínum hag úti á landsbyggðinni. Það er annað, sem er sérstaklega hættulegt, og það er það, að meginið af þeirri atvinnu, sem fram fer úti á landsbyggðinni, er framleiðsla, framleiðsla, sem veitir gjaldeyri. en atvinnan hér byggist á því, að aðrir framleiði gjaldeyrinn. Eftir því, sem fólkið streymir meira utan af landsbyggðinni, því minni verður gjaldeyririnn, en þörfin eykst fyrir hann í Rvík. Þetta er afleiðingin af því kerfi, sem þessir tveir menn settu upp í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, þegar þeir höfðu með þau að gera. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst, til þess að skilja, að hverju stefndi með starfsemi þessara manna.

Mér hefur oft dottið í hug, hvort þessir menn, sem unnu að því að koma þessu á hér, hafi gert sér grein fyrir því, hvað var að gerast, — hvort það geti verið, að þeir hafi séð það fyrir, að þeir með þessu kerfi sínu væru að setja þjóðina í slík vandræði, að það mundi taka langan tíma að vinna bug á þeim, þau vandræði, að ekki sér enn þá fram úr, hvort úr rætist. Ég býst við, að þeir hafi haft eitthvert hugboð um, hvert stefndi. En það, sem hefur ráðið hjá þeim, er það, að þeir gátu tryggt Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, sem Framsfl. hefur talið sinn höfuðtilgang að styðja, — gátu tryggt því vörur. Sambandið fékk sínar vörur, en íslenzka þjóðin fékk að kenna á því. Enda voru tengsl hv. þm. V-Húnv. (SkG) við Sambandið þannig, að menn vissu ekki, hvort hann var heldur starfsmaður hjá því eða hjá gjaldeyrisnefnd. — [Fundarhlé.]

Ég var að ræða um það, hvað það hefði verið, sem sérstaklega kom framsóknarmönnum og þessum tveim þm., sem ég ræddi um, til þess að koma á þessu kerfi. Ég var búinn að benda á, að það mun hafa verið höfuðatriðið að tryggja S.Í.S. gjaldeyri og að þeir hefðu talið, að til þess að það væri fært, yrði að koma þessu kerfi á og þar með að byggja upp þessa nýju stétt, sem við búum nú við, heildsalastéttina, til þess að hægt væri að forsvara, að S.Í.S. fengi gjaldeyri. Þau rök hafa sérstaklega orðið til eftir að kerfið var komið í gegn og þessir tveir þm. voru búnir að sjá, hvað það kostaði fyrir þá, og þó býst ég við, að það hafi verið verulegt atriði fyrir þeim að halda þessu kerfi uppi og gera það sem öruggast í því skyni að afla sér fylgis. Þetta var að þeirra áliti sterk aðstaða, að geta skammtað gjaldeyrinn og láta menn sækja svo mjög á um það að fá gjaldeyri eins og raun varð á, enda talið, að þeir hafi aflað sér mikils fylgis í þessum hóp, þó að það fylgi hafi verið til skamms tíma og tapast eftir að þessi flokkur missti valdaaðstöðuna. En þegar búið er að ala upp hóp manna, sem hafa hagsmuni af því að ganga eftir ákveðnu ríkiskerfi, þá hlýtur sá hópur að hallast að þeim, sem stjórna kerfinu á hverjum tíma. Afleiðingarnar af þessu urðu þær, að Sjálfstfl. efldist meðal þessara verzlunarmanna og þeir tóku að sér forustu flokksins, í krafti þeirra peninga. sem þeir gátu fengið í gegnum þá gjaldeyriskvóta - sem og gróða —, sem honum fylgdi. — Í öðru lagi var þarna um að ræða tækifæri til þess að leysa ýmis fjárhagsvandamál Framsfl. og Alþfl. Í gegnum ýmsar gjaldeyrisráðstafanir var hægt að koma upp ýmsum fyrirtækjum, sem gátu borgað blöð o.s.frv., og var það óspart notað og margir nutu þeirra kvóta, sem þeir fengu, hjá ráðamönnum flokkanna. Þetta munu hafa verið aðalhvatirnar, sem lágu til þess, að komið var á þessu kerfi, og þær verða ekki taldar háreistar, en þetta hefur þó haft meiri áhrif á þróun atvinnu- og fjárhagsmála á Íslandi en kannske flest annað á síðustu öld.

En Framsfl. var ekki einn við völd, hann var við stjórnartaumana ásamt Alþfl. En hver var afstaða hans til þessa máls? Hann hafði það verkefni að annast framkvæmdir í sjávarátvegsmálum, og það lenti sérstaklega á hv. þm. Ísaf. að hafa forustu um það. En hann hefur aldrei verið stórhuga og honum hefur sézt yfir þær heildarlinur, sem út í var komið, en hafði hins vegar haft betur opin augun fyrir ýmsum smákostum fyrir sinn flokk og ýmsa af kunningjum sínum í Framsfl. en þeim skaðlegu áhrifum, sem þetta kerfi hafði fyrir atvinnulífið. En framkvæmd þessa kerfis og þau óeðlilegu áhrif, sem það hafði á atvinnulíf okkar, þau áhrif og þær smávægilegu tilraunir, sem þessi stj. gerði til þess að rétta við sjávarútveginn, þær köfnuðu undan þeim þunga, sem framkvæmd kerfisins lagði á sjávarútveginn. Og hv. þm. Ísaf., form. sjávarútvegsmála Íslendinga um 4–5 ára skeið, starfaði við það að skipa n. og komast í þær sjálfur og ýta þangað inn sínum flokksmönnum. Og það er sýnilegt á þessum frv., sem hér liggja nú fyrir, að nú á hann að fá að skipta sér af sjávarútvegsmálum á ný á sama hátt og hann gerði á þessum árum. Hann lagði ekkert til þróunarinnar í sjávarútvegsmálum, en útbýtti bitlingum og stöðum. Reynslan hefur sýnt, að Alþfl. er alltaf veikur fyrir, ef forustumönnum bjóðast góðar stöður og bitlingar. Þá hverfa principmálin. Af þessu kerfi leiddi alveg gífurlega siðspillingu í landinu á öllum sviðum þjóðlífsins. Mest bar þó á því, að gjaldeyris- og innflutningsleyfi urðu hrein og bein verðbréf og gengu kaupum og sölum, og handhafar þeirra voru alltaf öruggir um að græða. Vefnaðarvöruleyfi gengu fyrir nafnverð, þar sem svo mikill skortur var á vefnaðarvöru í landinu, en byggingarefnaleyfi gengu fyrir 10%. Hver maður, sem vildi fást við innflutningsverzlun, kynntist strax þessum töxtum og varð að sæta þeim kjörum. sem svipuð eru því, sem nú er á svörtum markaði. Þannig er heildsalastéttin sköpuð af Framsfl., þessu kerfi, sem hann skapaði með aðstoð Alþfl. Fram til þess voru að vísu til verzlunarmenn, en þeir þurftu sjálfir að afla sér gjaldeyris. En heildsalastéttin nú er frábrugðin þeirri verzlunarstétt, er áður var til, vegna þess að ríkið hefur leyst hana undan allri áhættu. Framsfl. skapaði þessa stétt fyrir tilstilli hæstv. menntmrh. og hv. þm. V-Húnv. Þeir vonuðu, að þessi stétt gæti orðið baráttulið Framsfl. hér í Rvík, en það fór á annan veg, því að auðugir menn treysta Sjálfstfl. og telja hann málsvara sinn. Og alveg sérstaklega brustu vonir þeirra eftir að heildsalarnir eignuðust hreint og beint Sjálfstfl. Þá fór þakklætiskenndin til Framsfl. að hverfa, og nú í síðustu kosningum munu framsóknarmenn hafa orðið varir við, að það fé, sem heildsalarnir græddu fyrir þeirra aðgerðir, var sent út í kjördæmin til þess að fella frambjóðendur Framsfl., og tókst sums staðar. En framsóknarmenn geta sjálfum sér þakkað þær skráveifur. Heildsalarnir eiga engum mönnum eins mikið að þakka og hæstv. menntmrh. og hv. þm. V-Húnv. En sjaldan launa kálfar ofeldi og það var fögnuður í liði heildsalanna, þegar hæstv. menntmrh. féll í kjördæmi sínu í síðustu kosningum. En það var sannarlega ómaklegt úr þeirri átt.

Á meðan hinni öfugu þróun fór fram í þjóðfélaginu, sat hæstv. núv. menntmrh. sem fjmrh. með skjalahrúguna á skrifborðinu og reiknaði og reiknaði og reiknaði sig í kaf. Hann hugsaði um það eitt að láta allt ballansera, þó að sá ballans, sem hann skapaði á þessu ári, væri rofinn á því næsta. — Það urðu ýmsir fyrir barðinu á þessu kerfi hans. Ég kynntist þessu nokkuð síðustu árin, sem hann stjórnaði fjármálum, en þá var ég bæjarstjóri á Siglufirði. Siglufjörður átti þá kost á að kaupa dýpkunarskip, sem mjög var nauðsynlegt vegna hafnarinnar. Þetta skip fékkst með mjög góðum kjörum og sótti bærinn um gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Og það stóð ekki á svarinu. Það var blátt nei með næsta pósti. Þá var bannað að flytja inn skip og menn voru sektaðir fyrir það, eftir að kerfi hæstv. menntmrh. hafði náð fótfestu. En það var eins og höfundum þessa kerfis dytti aldrei í hug, að til þess að svona kerfi gæti gengið, þá þyrfti einhverja hvöt hjá mönnum til þess að halda áfram að skapa gjaldeyri. En það var þeim alveg lokuð bók. Þó tókst þeim að halda við og sitja við vaxandi atvinnuleysi allt fram að síðustu heimsstyrjöld, þegar hún bjargaði þeim þætti þessa óheillakerfis. Kreppan náði hámarki sínu 1932, og nær alls staðar í auðvaldslöndunum í kringum okkur var hún afstaðin 1934, en hér tókst að halda henni við allt til ársins 1940. vegna þess að sjávarútvegurinn seig alltaf neðar og neðar og peningarnir leituðu í aðra og öruggari atvinnugrein, verzlunina, og ríkisstj. hafði ekki dug til að beina fjármagninu til útvegsins. Ég held, að aldrei hafi nokkur stjórn gefið eins fögur loforð og stjórnin, sem mynduð var 1934, og endað jafn smánarlega. Hún rotnaði blátt áfram í sundur. Framsfl. og Alþfl. tókst með aðstoð heildsalanna að viðhalda kreppunni hér í 4–5 ár eftir að hún var afstaðin í auðvaldslöndum í kring. Og þegar nú þessi öfl hafa aftur myndað stjórn, bendir allt til þess, að þeim muni takast að koma á kreppu hér 2–3 árum fyrr, en í öðrum löndum. En það er ekki nóg að sakast um, hverju þetta sé að kenna. Aðalatriðið nú er, hvernig vinna megi bug á þessu vitlausa kerfi, en það kom fram hjá hv. þm. V-Húnv., að hann sæi ekki minnsta ljós til þess, heldur taldi hann, að þessi óheillaöfl ættu að halda áfram sínum leik. Heildsalastéttin ræðir nú orðið svo miklu, að hún getur myndað stjórn, sem tryggi henni, að þjóðarbúið verði rekið þannig, að hún verði ekki fyrir neinum truflunum eins og 2 undanfarin ár. Og heildsalarnir hafa tryggt sér Sjálfstfl. og Landsbankavaldið, en í Landsbankanum er samstarfið milli Sjálfstfl. og Framsfl. svo náið, að sjálfstæðismenn kusu framsóknarmanninn Jón Árnason sem bankastjóra Landsbankans, þegar þeir voru í stjórnarsamvinnu við sósíalista, en framsóknarmenn í stjórnarandstöðu. Svona er samvinnan náin til að viðhalda því kerfi, sem allt er að riða á slig.

Fyrrv. ríkisstj. byggðist á samstarfi launþega og atvinnurekenda í sjávarútvegi. En þar sem flestir útvegsmenn eru í Sjálfstfl. og telja hann sin samtök, þá þýddi þetta hér á Alþingi samstarf við Sjálfstfl. Hins vegar ráða heildsalarnir mestu í þeim flokki, og varð því ekki hjá því komizt, að þeir héldu stöðu sinni að mestu. En einkum var þeim það mögulegt vegna þess, að utan ríkisstj. stóð 15 manna þingflokkur, sem var staðráðinn í að viðhalda þessu gróðakerfi heildsalanna, og enn fremur vegna þess, að fyrrv. hæstv. fjmrh. skoðaði sig hreint og beint sem fulltrúa heildsalanna í ríkisstj. og gerði aldrei svo viðskiptaráðstafanir, að hann boðaði ekki til sin 2–3 efnuðustu heildsalana og Vilhjálm Þór og Jón Árnason. Þrátt fyrir viðleitni síðustu ríkisstj. hafði heildsalastéttin trygga aðstöðu vegna afstöðu Framsfl. og fyrrv. hæstv. fjmrh., sem taldi sér skyldara að styðja heildsalana, en halda stjórnarsamningana, og svik hans við stjórnarsamninginn áttu sinn stóra þátt í, að samvinnan rofnaði. Framsfl. reyndi eftir megni að hindra fjárframlög til sjávarútvegsins og naut þar öflugs stuðnings fyrrv. hæstv. fjmrh., en þegar þeim tókst ekki að hindra, að málin kæmu fyrir Alþ., komu þeir því til leiðar við afgreiðslu málsins, að framkvæmdin yrði falin Landsbankavaldinu, sem barizt hafði gegn málinu. Heildsalarnir voru nú öruggir um afstöðu Framsfl., ef stj. félli, enda hafa nú heildsalarnir og afturhaldið í Landsbankanum og S.Í.S. komizt að samkomulagi um fyrri starfshætti og tekið upp þráðinn frá því fyrir stríð.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að það þyrfti að lækka framleiðslukostnað útflutningsvörunnar. Það er rétt, en til þess eru tvær leiðir. Önnur er sú að auka tæknina, hin að lækka kaupið, og Framsfl. hefur hingað til ekki séð aðra leið, en þá síðarnefndu. En ég leyfi mér að benda á, að það hefur komið á daginn, að það, sem framleitt er með fullkomnustum tækjum, það eru þær vörur, sem við höfum minnstar áhyggjur af að selja, en það eru síldarafurðir og hraðfrystur fiskur. Hins vegar er allt í óvissu með saltfiskinn, og ef íslenzkir fiskimenn eiga að snúa sér að saltfiskframleiðslu, þá má búast við, að þeir þurfi að búa við jafnléleg kjör og í nágrannalöndunum. En ef lækka á kaupið, verður að minnka atvinnuna, en það virðist nú markmið hinnar nýju stjórnar, enda virðist það nú vel á veg komið. Fjöldi byggingarfélaga er nú kominn í fjárþrot og er neitað um lán, svo að mörg hús standa nú hálfreist og við þau er ekki meira hægt að vinna. Þá hafa mörg iðnfyrirtæki stöðvazt, vegna þess að þau fá ekki rekstrarlán. Þetta er vel skipulagður undirbúningur að atvinnuleysi, og svo á að segja við fólkið: Nú eruð þið atvinnulausir, nú verður að lækka kaupið. — Og þá á verkalýðurinn að vera orðinn svo lítilþægur og hræddur, að hann láti sér það lynda. Og svo segja þeir, að allur vandi sé búinn, ef kaupið er lækkað, en ég vil minna á, að fyrir stríð var kaupið lágt, en nóg atvinnuleysi samt. Það sama yrði uppi á teningnum nú, því að atvinnan vex ekki, þó að kaupið verði skorið niður. Lága kaupið miðar aðeins að því að viðhalda úreltum vinnuaðferðum og atvinnutækjum. Eina leiðin til að leysa vandann er að koma upp stórfelldum atvinnutækjum. Það tryggir öllum atvinnu við arðbæran rekstur og skapar þjóðinni gjaldeyri. Gjaldeyrisskortur þjóðarinnar stafar af því, hvað litið er unnið úr vörunni. Ef t.d. síldarlýsið væri unnið í stað þess að flytja það út hrátt. þá fengist fyrir það 5-faldur gjaldeyrir.

Það er nauðsynlegt fyrir menn að gera sér ljósa grein fyrir ástandinu í þjóðfélaginu, þegar hv. þm. V-Húnv. heldur því fram, að sósíalistar hafi haldið hlífisskildi yfir heildsölunum. Ég játa, að það tókst ekki að vinna bug á heildsölunum í tíð fyrrv. ríkisstj., en það var vegna þess, að heildsalarnir eiga Sjálfstfl. og nægilega sterk tök í Framsfl. og Alþfl., ekki sízt eftir að formaður þess flokks er kominn í stétt heildsalanna. Fyrir atbeina sósíalista hefur það áunnizt, að ekki er látið skeika að sköpuðu með sjávarútveginn, heldur hefur ríkið tekið ábyrgð á honum. Útvegsmenn eru nú farnir að sjá, hvernig heildsalarnir féfletta þá, og ef útvegsmenn skilja sinn kraft og nauðsyn samtaka sinna, þá er það stórt skref fram á við og verður sennilega erfiðasta fótakefli núv. stj. Þessi ríkisstj. hefur mætt fjandskap útgerðarmanna, og það ekki að ástæðulausu, því að nú skilja þeir fyrir tilstilli sósíalista, hverjir vilja ofan af þeim skóinn, og sósíalistar hafa manna mest lagt áherzlu á, að allt atvinnulíf okkar byggist á sjávarútvegi.

Hv. þm. V-Húnv. talaði um það, að þessi ríkisstj. táknaði ekki, að farið væri inn á þær brautir, sem leystu vandamál þjóðarinnar. „Það þarf allt aðrar leiðir, eins og við framsóknarmenn höfum bent á,“ sagði hann eða meinti. Já, framsóknarmenn hafa talað mikið um leiðir, og þeir hafa átt kost á að fara nýjar leiðir, en þeir segja ekki skýrt, hvaða leið þeir vilja nú. Þeir vilja stórfellda kauplækkun, það er þeirra leið og töframeðal. Þetta vita allir í sambandi við núverandi stjórnarsamning. En framsóknarmenn eru það vel viti bornir, að þeir tala ekki mjög opinskátt um þetta, allra sízt rétt fyrir kosningar.

Það þarf að breyta stefnunni í fjármálunum, sagði hv. þm. V-Húnv., ekki að leggja eins mikið fé í atvinnutæki og fyrrv. ríkisstj. gerði, en láta heildsalana ráða yfir sem mestu fjármagni, eins og í tíð Framsóknar. Það er leiðin. Ég get fullvissað hann um, að núverandi stjórnarlið hefur oft viljað breyta til — og í þessa átt og er staðráðið í að gera það, ef það kemst upp með það.

Hv. þm. viðurkenndi. að heildsalarnir væru of margir og græddu of mikið. En ætli hann sætti sig ekki við þá lausn, að þeir væru færri, en græddu því meira? Það vill Landsbankinn, sem tekið hefur gjaldeyri frá Viðskiptaráði og úthlutað sínum gæðingum.

Ég hef nú rakið nokkur tildrög þess ófremdarástands, sem ríkir í atvinnulífi okkar vegna verzlunarfargansins, og sú vísa verður aldrei of oft kveðin, það verður hver einstaklingur að skilja. En nú er svo komið, að ekki verður lengur haldið áfram þannig, að sjávarútvegurinn tapi milljónum á meðan heildsalarnir græða milljónir. Og eina leiðin, sem menn sjá svo, er að lækka kaupið stórlega og koma öllu niður á sama stig og það var á kreppuárunum, verka t.d. fisk í salt eingöngu, eins og gert var um aldamót. Þetta hafa þessir herrar hugsað sér, en ég get sagt þeim, að verkamenn og aðrir launþegar, sem að undanförnu hafa sannfærzt um, að ekki þarf að vera hér neitt atvinnuleysi, þeir munu verða erfiðir viðfangs á þessari leið, ef á að keyra þá inn í þetta kerfi.

Að lokum nokkur orð um brtt. á þskj. 626, um að rýmka undanþáguna á ýmsum vörum, sem þessi stórfellda hækkun á að ná til. Þegar menn renna augum yfir undanþágulistann, sér maður, að þar er hvorki hugsað um hag útgerðarinnar né almennings, þegar verið er að skella þessari hækkun á. Það eina þrönga sjónarmið ræður þar að afla fjár einhvern veginn, aðeins ekki úr vasa þeirra ríkustu, og kosti það hvað það kosta vill. Þar eru margar útgerðarvörur og neyzluvörur almennings, sem ekki eru undanþegnar tollhækkuninni. Brtt. á þskj. 626 ganga út á það, að ekki séu skattlagðar nauðsynjar útgerðarinnar og almennings, svo að innflutningur þeirra aukist fremur, en minnki og allur gjaldeyririnn verði ekki eyðslueyrir heildsala, sem þeir nota fyrir sig.

Brtt. hv. þm. V-Húnv. finnst mér eðlileg, mér finnst óeðlilegt, að fjmrh. geti gefið undanþágur. Ákvæði um slíkar undanþágur hafa oft verið sett af þinginu, og það er líka bezt fyrir ráðh. sjálfan, því að ella yrði hann fyrir mikilli áleitni í þessu efni. En ég bendi hv. þm. á það, sem e.t.v. er þó ekki ástæða til, að þar sem hann flytur þessa brtt., þá væri í leiðinni að undanþiggja fleiri vörur og miða undanþágurnar við nauðsynjar almennings og útvegsins.

Brtt. frá meiri hl. fjhn. tel ég næsta tilgangslitla. Þessi grein er ekki til að fara eftir, heldur til að flagga með í þinginu. Við þekkjum það að útbúa þannig heilar gr. við samningu frv., sem aðeins eru gerðar til að blekkja fólk. Ég sé því ekki, að þessi brtt. sé skárri en það, sem fyrir er. Fjárhagsráð hefur eftir sem áður óbundnar hendur um hámarksálagningu vörutegunda, og það má næstum slá því föstu, að heildsalarnir fá tækifæri til að leggja á allt vöruverðið að tollunum viðbættum. Allt kemur þetta niður á almenningi, en með því að leggja á tollhækkunina, tekst heildsölunum að skaffa sér gróða og auka dýrtíðina.