09.01.1947
Neðri deild: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (3720)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. — Ég mun gera nokkra grein fyrir afstöðu minni hl. allshn., en n. klofnaði í afstöðunni til frv.

Þegar frv. var lagt fyrir n., stóð fyrir dyrum alþýðusambandsþing, og þótti rétt að senda því frv. til umsagnar, og í þeirri góðu trú, að það tæki því á þann hátt, sem því sæmdi, og þó ekki sízt vegna fyrri afstöðu forseta Alþýðusambandsins, sem ég hef látið koma fram á öðrum vettvangi, en hann spurði, hvort ég væri því samþykkur að taka aftur þessa till., ef hann beitti sér fyrir málinu innan verkalýðsfélaganna.

Nú er orðið langt síðan alþýðusambandsþingið afgreiddi þetta mál með ályktun, sem ég skal fara um nokkrum orðum, þar eð eðlilegt væri að óreyndu, að þm. tækju nokkurt tillit til ályktunar slíks þings. En hún sneiðir því miður algerlega fram hjá efnishlið málsins. Auk þess er ályktunin þrungin af sleggjudómum um tilgang þessa frv. Afgreiðsla alþýðusambandsþingsins á þessu máli er öll á þann veg, að fullkomlega er því ósamboðin. Frv. er um það, hvort taka skuli upp hlutfallskosningar um val í stjórn og trúnaðarstöður innan verklýðsfélaganna. Ályktunin víkur lítið að þessu, en talað er um, að þetta mundi verða til þess að löghelga pólitískar kosningar innan verkalýðsfélaganna. Þessi samkunda hefur sagt, að samþykkt þessa frv. væri að gera lýðræðið að skrípamynd, þótt það sé vitað, að hlutfallskosningar eru svo miklu lýðræðislegri heldur en sú kosningaaðferð, sem nú er viðhöfð. Svona er áframhaldið í ályktuninni á svipaðan hátt, og get ég fyrir mitt leyti ekki fest sjónir á því, hvernig hlutfallskosningar mundu koma af stað meiri stjórnmáladeilum innan alþýðusambandsins en nú eru. Þarf ekki annað en líta á seinasta alþýðusambandsþing, en þar deildu Sósfl. og Alþfl. hatramlega. Þetta er vitað, og er því þetta tal ekki annað en skinhelgi, sem er langt fyrir neðan virðingu þessarar stofnunar.

Þá er í ályktuninni fullyrt, að frv. sé lævísleg tilraun til að dreifa athygli verkalýðsins frá hagsmunabaráttunni og verið sé að gera tilraun til að sundra þeim með pólitískum hlutfallskosningum. Þetta er svo fjarri sanni sem vera má. Að þessu er vikið í nál, minni hl. og sýnt fram á, að þetta er algerlega fráleitt, heldur er það þvert á móti til þess fallið að skapa heilbrigð verkalýðssamtök. Að þessu máli hafa áður staðið sjálfstæðisverkamenn með hv. 11. landsk., og báðu þeir þm. Hafnf., sem þá var Bjarni Snæbjörnsson, að bera svipað frv. fram á Alþ.

Það er vitað, að hv. 11. landsk. var þá með málinu, og er furða að heyra hann tala nú þveröfugt við fyrri afstöðu og standa að annarri eins ályktun og alþýðusambandsþingsins.

Það má minna á það, að landsfundur Sjálfstfl. samþykkti ályktun varðandi þetta mál, og vitað er, að margir verkamenn innan Dagsbrúnar gerðu með sér samtök til þess að beita sér fyrir þessu máli. Það kom að vísu fram hjá hv. 8. þm. Reykv., að lítill byr hefði verið fyrir þessu máli innan félagsins og alþýðusambandsþingið hefði samþykkt ályktun sína mótatkvæðalaust. Sýnir þetta aðeins vel, undir hvílíkri ofurstjórn verkalýðssamtökin eru, og enn dæmi um það, hvernig er komið stjórnarfari, þar sem kommúnistar ráða, að menn skirrast við að láta í ljós afstöðu sína.

Í ályktun alþýðusambandsþingsins segir enn fremur, að þetta mundi verða til þess, að allt starfið innan verkalýðsfélaganna færi í pólitískt þras og að verkamenn gættu minna að sínum fagmálum. Það er vert að athuga, hvernig þessu er farið nú, hvort verkalýðsfélögin skipta sér nú aðeins af sínum fagmálum. Eru þau ekki einmitt notuð nú sem leiksoppur til pólitísks framgangs ákveðins flokks? Á síðasta alþýðusambandsþingi var t. d. samþykkt ályktun um afstöðu þeirra til stefnu ríkisstj. í ýmsum málum, svo sem nýsköpunarmálunum o. fl. Eru þetta fagmálefni? Taka menn ekki afstöðu til þessa máls eftir stjórnmálaskoðunum? Þá eru samþ. ályktanir um opinbera stjórn byggingamála, um landsverzlun og fleira slíkt. Eru þetta aðeins fagmálefni?

Menn taka afstöðu til slíkra mála eftir stjórnmálaskoðunum, og þeir, sem ætlast til, að verkalýðsfélög taki afstöðu til slíkra mála, eru einmitt að gera þau pólitísk. Er það því eintóm skinhelgi slíkra manna, sem kemur fram í ályktun þingsins um það, að ekki megi gera verkalýðsfélögin pólitísk með hlutfallskosningarfyrirkomulagi!

Afstaðan er sú, að kommúnistar vilja hafa þar pólitíska aðstöðu, en pólitískt lýðræði má ekki koma til greina, þar sem þessir menn koma fótum fyrir sig. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um afgreiðslu málsins á alþýðusambandsþinginu. Ég skal taka það fram, að þar sem þetta málefni snerti allsherjarsamband verkalýðsins, fylgdi ég því að sjálfsögðu í allshn., að málið væri lagt fyrir þing þess, ekki sízt þar sem forseti þess er maður, sem mér var kunnugt um, að hafði áður gert vel í þessu máli. Því miður brugðust vonir mínar um þá afgreiðslu, sem málið kynni að fá á þessari samkomu.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að flokkunum. Fulltrúi Framsfl. í n. lagði á móti málinu og var þar með meiri hl. Það kom einnig hljóð úr horni annars staðar frá. Í aðalmálgagni Framsfl., Tímanum, þann 20. des., segir svo í leiðara, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsóknarmönnum er það ljóst, hverjir gallar og annmarkar fylgja hlutfallskosningum. Þeim finnst það vera frekja og ástæðulaus yfirgangur að skylda öll stéttarfélög til að hafa jafnan hlutfallskosningar. Þess vegna voru þeir á móti frv. allir sem einn.“

Nú er það að vísu svo, að flestir flokksmenn Framsfl. greiddu frv. atkv. til 2. umr. Veit ég því ekki, hvort þeim finnst það svo mikil „frekja og ástæðulaus yfirgangur“ að skylda félögin til þess að taka upp slíkar hlutfallskosningar.

Mig langar til að minnast á það að 1. þm. Árn. var flm. að breyt. á jarðræktarl. 1936, þar sem kom fram brrt. á búnaðarl. og kosningum til búnaðarþings. Ein af breyt. var sú í ?. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Rétt til að bera fram kjörlista hafa minnst félagsmenn með samtals 40 atkvæði, og skulu vera jafnmargir á hverjum lista og kjósa á og jafnmargir til vara. Komi fram fleiri en einn listi. skal hlutfallskosning viðhöfð.“

Síðan hefur jafnan verið viðhöfð hlutfallskosning innan búnaðarsambandanna, en þar er þetta kosningafyrirkomulag fyrst innleitt innan stéttarsamtaka, svo að það er ekki nema von, að okkur komi undarlega fyrir sjónir, að Framsfl. skuli vera á móti því kosningafyrirkomulagi annars staðar, sem hann hefur viljað lögleiða í samtökum bænda. Varðandi þessa lögskipun segir í grg. fyrir frv., ef ég má lesa, með leyfi forseta:

„Með þessu kosningafyrirkomulagi er bændunum gefinn kostur á að hafa áhrif á skipun búnaðarþingsins, eftir því sem þeir hafa vilja og aðstöðu til. Einmitt með þessari skipun búnaðarþings ætti það að vera tryggt. að það væri nokkurn veginn rétt mynd af því viðhorfi, er bændurnir hafa til helztu áhugamála sinnar stéttar, og reyndar þjóðmála yfirleitt.

Líklegt er, að öllum þyki vænt um þessi lagafyrirmæli. Þau svipta engan bónda réttindum, heldur þvert á móti. Þau veita bændunum mikils verð réttindi, sem þeim að sjálfsögðu ber og hefðu átt að vera búnir að fá fyrir löngu, en hefur þó dregizt til þessa. Nú mun þeim af öllum frjálshuga mönnum fagnað.“

Þetta segir í hinni almennu grg., en í grg. fyrir 7. gr. er vísað til almenna hlutans. Ég verð því, með tilvísun til þessa, að biðja menn að virða mér til vorkunnar, þó að ég hafi vonazt eftir öðru úr þessari átt. Ég verð líka að minnast á, að það var fyrir forgöngu þessa flokks, að teknar voru upp hlutfallskosningar í hreppsnefndar- og sýslunefndarkosningum.

Varðandi afstöðu Alþfl. vil ég segja það, að það er kunnugt, að verkamenn úr þeim flokki innan Dagsbrúnar voru því hlynntir, eins og hér hefur verið tekið fram, að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Flokkurinn eða formaður hans tók afstöðu gegn þessu máli við 1. umr. þess, og hef ég verið að reyna að gera mér grein fyrir því, hvað því geti valdið. Það hafa birzt um það nokkrar greinar í blaði flokksins, og að viðbættum samtölum við nokkra menn hef ég ekki getað skilið annað en að þetta væri bara „taktik“. Ég hef heyrt það frá þessum mönnum, að þeir telja rétt og lýðræðislegt að taka upp þetta form. En þeir segja, að það séu ekki nema 25% kommúnistar í verklýðsfélögunum og andstæðingar þeirra þurfi bara að sækja betur fundi til þess að fella þá og útiloka þannig áhrif þeirra í eitt skipti fyrir öll. Á þessa skoðun hef ég ekki getað fallizt, að rétt sé að vera á móti málinu, af því að hægt sé að þurrka út áhrif kommúnista, ef öðruvísi væri á málunum haldið. Ég hef viljað líta svo á, að ekki hafi komið fram þau rök, sem réttlæti það, að Alþ. sé á móti málinu.

Forseti alþýðusambandsins, 11. landsk., sagði, að sín fyrri afstaða í þessu máli skipti engu. En ég held, að fyrri afstaða manna og flokka hljóti alltaf að skipta miklu. Það hefur að vísu komið fram, bæði hjá einstökum persónum og jafnvel heilum flokkum, að þeir taka afstöðu til mála eftir því, hverjir pólitískir hagsmunir eru í húfi á hverjum tíma. En það er ekki á þeim grundvelli, sem Alþ. á að afgreiða mál, heldur eftir því, sem það álítur, að geti orðið til mestrar blessunar.

Ég hafði þau orð við 1. umr. þessa máls, að þó að það yrði nú stöðvað, mundi ekki verða um nema töf að ræða á því að fá fullnægt kröfunum um meira lýðræði og réttlæti innan verkalýðssamtakanna, því að það er það, sem koma skal, þó að því hafi verið veitt fyrirstaða.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þótt málinu hafi verið veitt fyrirstaða, hafi það gott fylgi innan þings og þess verði skammt að bíða, að það nái fram að ganga.