09.01.1947
Neðri deild: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (3721)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. meiri hl. (Hermann Guðmundsson) :

Í ræðu þeirri, sem frsm. minni hl. flutti, var ein yfirlýsing, sem hafði talsvert gildi. Hann lýsti því yfir, að hann hefði verið því samþykkur, að þetta frv. var sent alþýðusambandsþinginu til umsagnar, og finnst mér ekki fyrir það þakkandi. Við vitum, að hér er um að ræða frv., sem snertir verkalýðinn í landinu. Hvað var eðlilegra en að senda það þangað? Ég geri ráð fyrir, að hann hafi vitað, að ekki væri stætt á öðru, þótt hann hefði viljað. Hann vill reyna að gera sem minnst úr ályktun alþýðusambandsþingsins og ber brigður á, að það sé rétt, sem ég hef sagt. Hann vill einnig telja, að sú kosningaaðferð, sem verkalýðsfélögin hafa, sé ekki rétt, en telur þá aðferð, sem hann vill beita, rétta og sjálfsagða.

Í sambandi við alþýðusambandsþingið gegnir furðu, að maður með hans kunnugleika skuli leyfa sér að segja, að hér komi ekki fram réttur vilji verkalýðsins. Samþykkt sú, sem hér liggur fyrir, var samþ. einróma, ekki einn var á móti. Nú skyldi maður ætla, að þetta væri fyrir það, að réttar upplýsingar hefðu ekki verið fyrir hendi. En hann sá við þeim leka og útskýrði fyrir fulltrúum, sem fylgjandi eru flokki hans, nauðsyn þess, að slík lagasetning væri gerð. Þrátt fyrir þetta sáu þessir fulltrúar sér ekki fært á alþýðusambandsþinginu að greiða atkv. með frv. Jóhanns Hafsteins, en greiddu atkv. með þeirri samþykkt, sem er í andstöðu við frv., ekki vegna þess, að þeim væri skipað það, eins og hann hefur viljað gefa til kynna, heldur vegna þess, að þeir voru sannfærðir um nauðsyn þess að vera á móti málinu.

Frsm. var að ræða um það, að þetta alþýðusambandsþing hafi verið pólitískt. Því er þá að svara, að hér er ekki um ópólitíska menn að ræða. Ég vil benda honum á það, að honum væri sæmra að kynna sér eðli samtakanna betur, áður en hann fer að ræða um þetta. Verkalýðssamtökin eiga að vera óbundin öllum stjórnmálaflokkum, en það hljóta að taka afstöðu til þjóðfélagsmálanna. Starfsmenn verkalýðssamtakanna líta svo á, að þeim beri ekki aðeins að berjast fyrir hækkuðu kaupi, og þess vegna mótmæla þeir dýrtíðarráðstöfunum og öðrum málum, sem eru í andstöðu við samtökin — og er það fullkomlega réttlætanlegt. Ég get því ekki séð annað en að það sé eðlilegt, að þing verkalýðsins taki fyrir mál, sem eru pólitísk. Verkalýðurinn er orðið það mikið afl, að ekki er mögulegt annað en að taka tillit til skoðana hans í þessu máli. Og ég vil benda hv. þd. á það, að í þessu máli er það staðreynd, að verkalýðssamtökin hafa lýst andúð sinni á því; svo að ekki verður um villzt. Þetta finnur flm., og í gremju sinni grípur hann í eina hálmstráið, sem hann hefur, en það er persónan Hermann Guðmundsson — og minnir á mína fyrri afstöðu.

Hann segist hafa átt tal við mig um þetta og ég hafi óskað eftir, að hann tæki frv. aftur, og mundi ég þá beita mér fyrir hlutfallskosningum í verkalýðsfélögunum. Ég veit ekki, hvað að honum kemur að segja slíkt, þar sem ég hef ekki fram að þessu reynt hann að ósannsögli. Það, sem ég sagði, var, að ég skyldi beita mér fyrir, að umræður yrðu teknar upp um hlutfallskosningar, en það er allt annað en að beita sér fyrir, að hlutfallskosningar verði lögfestar.

Hann segir, að ég hafi verið með hlutfallskosningum 1939, þegar Bjarni Snæbjörnsson lagði fram sitt frv. 1939 voru ýmsir erfiðleikar innan verkalýðsfélaganna, og mótaðist mín afstaða nokkuð af þeim, en það er rangt, að ég hafi þá verið með því, að Alþ. lögfesti hlutfallskosningar, og að ég hafi beitt mér fyrir þeirri lögfestingu. Því síður mundi ég vera með slíku nú, þegar verkalýðsfélögin eru sterkari en nokkru sinni áður.

Nú vil ég taka það fram, ef flm. (JóhH) er það ekki kunnugt, að þótt ég sé forseti Alþýðusambandsins, ræð ég þar ekki öllu einn, heldur ríkir þar fullkomið lýðræðisskipulag, og mun væntanlega verða svo í framtíðinni.

Hann segir, að ekkert hafi komið fram, sem bendi til þess, að þingið ætti ekki að samþykkja frv. Ég vil leyfa mér að segja það, að í ræðu hans hefur ekki komið fram neitt, sem sýni, að það eigi að samþykkja það. Ég leyfi mér að halda því fram, að ekki hafi neitt komið fram, sem réttlæti það, að gera þetta frv. að l. Og ég leyfi mér að halda því fram, að það sé ranglátt að ætla að skylda 4/5 af meðlimum félaganna til þess að viðhafa kosningafyrirkomulag, sem þeir vilja ekki.

Ég tel ekki ástæðu til að viðhafa fleiri orð um þetta. Ég býst við því, að hv. d. veiti þessu frv. þá afgreiðslu, sem því hæfir bezt, en hún er sú að fella það.