13.01.1947
Neðri deild: 52. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (3725)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. meiri hl. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Í þeim umr. nm þetta mál, sem fóru hér fram á síðasta fundi, tók til máls hv. 1. þm. Árn. (JörB). Mér kom afstaða hans til málsins ekki ókunnuglega fyrir, en nokkur atriði úr ræðu hans vildi ég aðeins drepa á. Hann talaði um það, að við forsvarsmenn verkalýðsins rækjum upp óp í hvert sinn, sem hróflað væri við verkalýðsstéttinni, en kipptum okkur ekki að sama skapi upp við það, þó að aðrar stéttir yrðu fyrir aðkasti. Ég get ekki tekið þessi ummæli til mín og vísa þeim algerlega frá mér. Enn fremur ræddi hann um það, að það mætti ekki hafa áhrif á afstöðu Alþ., þó að verkalýðssamtökin væru sterk og öflug, heldur ætti réttlæti og sanngirni að ráða gerðum þingsins í hvert sinn. Ég vil taka það fram, að hvorki ég né aðrir fulltrúar verkalýðsins hér á Alþ. hafa nokkru sinni gefið í skyn með því að tala um styrk verkalýðssamtakanna, að þau mundu beita valdi eða ofbeldi. Með því að tala um styrk verkalýðsfélaganna höfum við viljað benda á, að þau eru svo víðtæk og öflug samtök, að fullt tillit ber að taka til þeirra, og er ég alveg sammála hv. þm., að Alþ. á aðeins að gera það, sem því finnst sannast og réttast. Loks sagði þessi sami hv. þm., að þeir, sem nú berðust fyrir hagsmunamálum verkalýðsins, ættu að vera minnugir afstöðu sinnar, þegar til kæmu hagsmunamál annarra stétta, og skal ég aðeins taka fram í því sambandi að ég vil, að allar stéttir njóti sannmælis og réttlætis.

Hv. 7. þm. Reykv. tók svo til máls og talaði alllengi. Endurtók hann ummæli sín um samtalið við mig, og skal ég ekki ræða það atriði mjög, því að þar kemur staðhæfing á móti staðhæfingu, og verða þá hv. þm. að trúa því, sem þykir trúlegast. Þessi hv. þm. las kafla úr grein, er ég hafði skrifað árið 1940 um frv. Bjarna Snæbjörnssonar. Það var margt í því frv., sem ég gat fellt mig við, og þá fyrst og fremst það, sem kom mér til að mæla með frv., að í því var túlkaður sá vilji okkar hafnfirzkra verkamanna að gera verkalýðshreyfinguna hreina verkalýðshreyfingu. Ég fylgdi því að vísu 1940, að hlutfallskosningar yrðu viðhafðar. Þessi hv. ræðumaður kom og að nokkru inn á störf Alþýðusambandsins, og samþykktir þær, sem þingið gerði, virðast honum þyrnir í augum. Hann sagði svo um ræðu hv. 8. þm. Reykv., að hann tæki ekki of mikið mark á samþykktum. Nú veit ég ekki, hve mikið þessi hv. frsm. leggur upp úr samþykktum alþýðusambandsþingsins. Ég get ekki sagt annað en að það tók skýlausa afstöðu gegn þessu frv. Þessi sami þm. sagðist fagna því, hverja afstöðu sjálfstæðisverkamenn tóku í þessu máli. Nú var sannleikurinn sá, að er þeir komu inn á þing alþýðusambandsins, þá ríkti ekki lítil þögn meðal þeirra þar í þeim þingsölum. Hv. þm. sagðist hafa talað við þessa fulltrúa sína, en samt greiddu þeir atkv. gegn þessu frv. Þessi hv. þm. hefði mátt sjá þá miklu og sterku drengi, Hannibal Valdimarsson og Pál Scheving, rekna út í það af kommúnistunum að taka afstöðu gegn þessu frv., eins og hann segir. Þetta er ofmat á kommúnistunum hjá þessum hv. þm. Mér er alls ókunnugt um, hvað menn hafa látið í ljós í samtölum við hv. þm., en á alþýðusambandsþingi réð sannfæring manna úrslitum og annað ekki.

Þessi hv. þm. lauk ræðu sinni með því að tala um skinhelgi. Hann heldur því fram, að hann flytji þetta frv. til þess að koma á meira réttlæti innan verkalýðssamtakanna. Nú er það svo, að verkalýður landsins hefur lýst sig andvígan þessu frv. Frv. hefur hlotið sinn dóm af hálfu verkalýðsins. Að lokum óska ég þess, að þessi hv. d. felli frv. og það með svo miklum meiri hl., að hún sýni, að Alþ. er á móti slíkri réttarskerðingu sem þetta frv. felur í sér.