13.01.1947
Neðri deild: 52. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (3726)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta verður mjög stutt, sem ég vildi segja við þetta tækifæri, og það var nú frekar fátt í ræðu hv. 11. landsk., sem ég þarf að ræða um, og það er nú svo, að erfitt er að hafa samtal við menn, sem snúa frá fyrri afstöðu sinni í málum.

Afstaða sjálfstæðisverkamanna í þessu máli er sú, að þeir fylgja þeim till., sem frv. felur í sér, og ég trúi því ekki, að þeir hafi breytt um skoðun á alþýðusambandsþinginu. Hitt er annað mál, að erfitt er fyrir fámennan hóp að beita sér gegn fjölmennum og sterkum meiri hl. Sjálfstæðisverkamenn þurftu þar líka að berjast gegn ofstopa og frekjugangi kommúnistameirihlutans.

Loks skildist mér á þessum hv. þm., að alþýðusambandsþingið hefði samþykkt ályktun að skora á flm. frv. að hætta við málið. Þessi ályktun er fyrir neðan virðingu allsherjarþings verkalýðsins, og er ekki mark takandi á henni.