11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það er sérstaklega tvennt, sem komið hefur fram í þessu máli. Í fyrsta lagi hefur það verið tekið fram af hálfu ríkisstj., að hér sé um bráðabirgðaneyðarúrræði að ræða, og í öðru lagi á það að vera gert til að vinna á móti dýrtíðinni. Það hefur líka komið fram í umr., að sönn og rétt vísitala yrði nú að byggjast og reiknast á öðrum grundvelli, en fyrir stríð. Nú er það vitanlegt, að með þessum tollhækkunum hér eru lagðir skattar á alla neytendur, ég ætla ég nú að koma inn á það, sem drepið hefur verið á í umr., hvernig sú vísitala er fundin, sem kaupið er reiknað eftir, því að það hefur ákaf-. lega mikið að segja að athuga þetta nú, því að tímarnir hafa breytzt mjög, lífsvenjur launþega hafa mjög breytzt og hlutföllin á milli neyzluliða þeirra raskazt mjög frá því, að menn almennt höfðu rétt til hnífs og skeiðar um þær mundir, sem grundvöllur vísitölunnar var lagður og reiknaður út. Nú hækka þessir tollar ýmsar vörur, sem menn neyta orðið talsvert mikils af, en sem voru sáralítill liður í neyzlu almennings fyrir stríð og orkuðu því að mjög litlu leyti á grundvöll vísitölunnar, er hann var reiknaður út. M.ö.o., mikill meiri hluti þeirra, sem héldu búreikningana, voru verkamenn, sem ekki höfðu það miklar tekjur, að þeir gætu látið eftir sér að kaupa annan mat, en þeir nauðsynlega þurftu, hvað þá annað. Þrír eða fjórir þessara manna voru þó með heldur hærri tekjur, en yfirleitt miðuðust þessir heimilisreikningar, sem vísitalan var síðan grundvölluð á, við matarþarfir einar. Nú er þetta breytt, nú neyta menn orðið ýmissa hluta, sem ekki eru reiknaðir með í vísitölunni, eða þá aðeins að mjög óverulegu leyti.

Vísitalan er í 11 liðum, og flestir þeirra eru fyrir ofan og sumir langt fyrir ofan kaupgjaldsvísitöluna eða meðalvísitöluna, en aðeins einn langt fyrir neðan hana. Kjöt er t.d. 418 stig, mjólk og feitmeti 437, og fiskur 370, eða svona var það í desember s.l., þegar meðalvísitalan var 306 stig. Hér um bil allar útlendar vörur eru nokkrum stigum hærri, en kauplagsvísitalan, ávextir eru eitt af því fáa, sem er þar fyrir neðan. En það er aðeins einn liður vísitölunnar, sem er langt fyrir neðan kauplagsvísitöluna, og það er húsaleigan, sem er 140 stig, þótt vitað sé af öllum, að húsaleigan ætti sízt að lækka kauplagsvísitöluna svona stórkostlega, heldur beinlínis að hækka hana. Það er vitað mál, að ef húsaleigan gengi inn í vísitöluna eins og hún er í raun og veru (þ.e. húsaleigan) og hún væri reiknuð eftir byggingarkostnaði, þá mundi það hækka vísitöluna um 10-20 stig, en ekki lækka hana stórkostlega, eins og nú er. Þetta ástand mega launþegar búa við. Og svo er ein stétt manna, sem hefur með lögum verið bannað að fá tekjur af eignum sínum í samræmi við hækkandi verðlag, og það eru þeir, sem eiga hús frá því fyrir stríð, og margir þeirra eru aldraðir menn, sem aðeins hafa sínar húsaleigutekjur. Þannig er það réttlæti. Margir þessara manna hafa naumast getað haldið húsum sínum við undanfarin ár, svo lágt hefur verið farið með húsaleiguna. Ég er viss um, að gagnvart þessum mönnum hefur verið framið hróplegt ranglæti. Það er talað um, að allir verði að fórna til að draga úr dýrtíðinni. og það má til sanns vegar færa. En það er hart fyrir einn hóp manna, þegar ríkið leyfir öllum öðrum, en þeim að hækka verðmæti sín, það er hart fyrir þá að fórna eina, og svo verður það ranglæti. sem þeir eru beittir, raunverulega notað til þess að halda niðri eða orka til frádráttar á lífsafkomu allra launþega, með því að hin allt of lága húsaleiguvísitala dregur kauplagsvísitöluna svo langt niður.

En þá kem ég að þeim ummælum hv. þm. V-Húnv., sem ég ætlaði aðallega að tala út frá, en það var það, að hér væri nú aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða, allar stéttir landsins yrðu að klifra niður stigann saman. Því ber sízt að neita, að þetta sé rétt, en eftir öllu að dæma er ég sannfærður um, að ríkisstj. og fylgismenn hennar hafa nú stigið ógæfuspor, því að reynslan hefur sýnt og sýnir, að mikil vandræði hljótast oftast af því að byrja að lögbrjóta áður en reynt er að hefja samvinnu við stéttir og einstaklinga. Þetta sýnir reynslan. Og ég hef rétt til að segja það hér, að verkamenn og Alþýðusambandið hafa viljað fara samvinnuleiðina, og Dagsbrún þá fyrst 1942 með samvinnutilboði sínu um skipulagningu í þessum málum. En við því tilboði fékkst aldrei svar, það var athugað af fyrrv. ríkisstj, og allir virtust sammála um, að slík samvinna við verkamenn þyrfti að hefjast, en hvernig sem það var, hefur ekki orðið úr framkvæmdum í því efni. Verkalýðurinn hefur ekki mætt skilningi svipað því og hann var reiðubúinn að sýna, og útkoman verður sú, að stefnu ríkisvaldsins er breytt í þá átt, sem telja má algert fráhvarf frá samvinnu. Þess vegna hlýtur að koma til átaka þegar einu dýrtíðarráðstafanirnar eru þær, að leggja á launþegana stórauknar tollbyrðar. Ég er sannfærður um. að þessi aðferð spillir fyrir samkomulagi fremur öllu öðru. Þeim, sem urðu að búa við þrælalögin frá 1939, er það minnisstætt (þótt sumir virðist nú sjá ákaflega mikið eftir þeim), en fyrst voru tekin út úr gerðardómslögin og síðan landbúnaðarafurðirnar.

Nú ætlar ríkisstj. að beita líkri aðferð, hækka tollana, sem þýðir lækkaðan lífsstandard allra launþega í landinu. Og þegar búið er að ákveða þessa herferð, þá fyrst er farið að tala um samkomulag. En að slíku undangengnu ætla ég, að erfitt muni verða að sannfæra landsmenn um, að af alhug sé mælt, þegar talað er nú um samkomulag, og ég harma, að ekki var haldið áfram á þeirri leið, sem vel var hugsanleg áður en þetta kom fram, en vafasamt er, að fær sé úr þessu.

Hv. fjmrh. sagði, að engin hætta væri á. að neinn uppsteitur yrði út af tollhækkuninni, ef sósíalistar æstu ekki fólkið upp. Þetta er misskilningur, það er nákvæmlega sama, hvaða flokkur á í hlut. Það eitt er um að ræða, að sé gengið á lífsafkomu fólksins, þá þarf enginn að æsa það upp. en það hefur greinilega komið fram hjá þm. hér á Alþ., að launastéttirnar hafi enga hugsun, heldur þurfi að æsa þær upp. Þetta er alrangt. Menn vilja hafa að borða, menn vilja og þurfa að hafa húsnæði, fatnað og fæði, það er sameiginlegt fyrir alla. það þarf ekki að æsa neinn upp til að gera slíkar kröfur. En ef byrjað er að lögbjóða, er samningsleiðin erfiðari á eftir. Þetta er deginum ljósara, og mikil vöntun er það, að koma ekki auga á jafneinfaldar staðreyndir. Þetta er reynslan sjálf. Menn þurfa ekki að aðhyllast sérstaka pólitíska skoðun til að vilja fá sig sadda. Þetta vildi ég taka fram sem mína skoðun, en skal ekki lengja umr. meira en orðið er.