20.01.1947
Efri deild: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (3732)

130. mál, almannatryggingar

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir því, að nauðsynlegt sé að hefja langa framsögu í þessu máli. Hv. þm. munu vera þessu frv. kunnir, því að 1. um almannatryggingar voru sett á þingi í fyrra, og þá var efni þeirra rætt hér allýtarlega. Ég mun þó gera hér grein fyrir helztu breyt., sem ég flyt við 1. um almannatryggingarnar.

1. gr. frv. fjallar um það, hvernig stjórn trygginganna er fyrir komið, og gerir hún ráð fyrir, að í hverju umdæmi skuli starfa fimm manna trygginganefnd, og séu 4/5 nefndarmanna kosnir hlutfallskosningu af sveitarstjórnum umdæmisins, en formaður sé skipaður af ráðh. Í 1. um almannatryggingar er gert ráð fyrir 5 manna n., sem sé skipuð að eigin geðþótta yfirstjórnar trygginganna. Sú n. er því valdalaus, og í fyrsta lagi hefur valdalaus n. litla þýðingu, og hins vegar verður því ekki neitað, að það er ekki nógu lýðræðislegt, ef öll stjórn trygginganna er í höndum þeirra manna, sem skipa yfirstjórn trygginganna. Um þetta spunnust allharðar deilur, er 1. voru sett, og við sósíalistar fluttum þá brtt. við frv. varðandi þetta, sem nú, og töldum hættu á því, að framkvæmd 1. gæti orðið hlutdræg. Átök urðu um þetta allhörð, en bráðabirgðasamkomulag varð um þetta á þinginu, að þessi ákvæði 1. skyldu standa óbreytt á þessu fyrsta ári almannatrygginganna, með því að fela stjórnum sjúkrasamlaganna framkvæmd 1., en þær eru myndaðar með sama hætti og tryggingan. mundu verða samkv. frv., að fjórir meðlimir n. séu skipaðir af sveitarstjórnum, en form. skipaður af ráðh. Alþ. féllst á þessa lausn og hefur því viðurkennt réttmæti þessarar lausnar málsins. Ég hef því tekið þessa till. upp að nýju og vænti þess, að hin stutta reynsla mæli með henni sem framtíðarlausn.

Annað atriðið í þessu frv. er, að lagt er til, að allar fastar lífeyrisgreiðslur hækki um 25%. Við sósíalistar fluttum þá till. þegar í mþn. sem undirbjó tryggingal., og síðan í gegnum alla meðferð málsins á Alþ. Ég álít og viðurkenni, að ekki verði náð þeim höfuðtilgangi trygginganna nema þeir menn, sem ófærir eru til vinnu, fái tryggt framfæri með 1., en lífeyrir verður að vera nægilega hár, svo að þeir menn geti lifað sómasamlegu lífi. Nú er það matsatriði, hve há upphæðin er, en það er skoðun mín, að upphæðir í l. frá í fyrra séu ekki nógu háar. Ég held, að þeirri reglu hafi verið fylgt, að upphæðirnar næmu sem næst því að vera 25% lægri en daglaun verkamanna, eða sem daglaunamaður hefði fyrir vinnu sína. Nú er það almennt viðurkennt, að þótt verkamaður vinni átta stundir á dag, þá munu laun hans rétt hrökkva til framfæris meðalfjölskyldu, og það er skoðun manna, að þau laun mundu ekki nægja fjölskyldu með 5–6 manns. Nú er yfirvinna verkamanna mjög algeng, og við ráðningar á mönnum er oft tekið fram, hvort um yfirvinnu væri að ræða og þá hve mikla. Það er því augljóst, að 25% lægri lífeyrisgreiðsla en daglaunamaður fær fyrir 8 klst. vinnudag mun ekki nægja, og er því þörf að hækka lífeyrisgreiðslurnar um 25%, sem hér er lagt til.

Þriðja höfuðbreyt. er sú, að sett séu ákvæði í l. um ekkjubætur sem fastan lífeyri. Í frv. um almannatryggingar voru ákvæði um ekkjulífeyri þannig, að þær fengu hálfan ellilífeyri. Í meðferð Alþ. var þetta ákvæði fellt niður úr l., og samkv. því eiga ekkjur engan fastan lífeyri að fá. Ég álít það rangt af Alþ. að fella þetta ákvæði niður. Það er sanngjarnt, að konur, sem misst hafa menn sína og þar með fyrirvinnu, en hafa börn á framfæri, fái ekki minna en hálfan lífeyri. Það er erfitt eða ókleift fyrir mæður, sem þurfa að ala upp börn og enga fyrirvinnu hafa, að vinna utan heimilis. Þótt þær fái lífeyri með börnum, þá er hann svo skorinn við nögl, að hann nægir varla til framfæris barni, hvað þá konu. Ég álít því sjálfsagt, að hlutur þessara kvenna verði gerður betri en í l. nú og þær hafi hálfan ellilífeyri, sem sé föst greiðsla meðan þær ala upp börnin og þar til þau fara að vinna fyrir sér sjálf. Sama er lagt til í frv. um einstæðar mæður, að þær njóti sömu hlunninda og þær, sem misst hafa menn sína. Að mínum dómi hafa þær sama rétt á hendur þjóðfélagsins.

Þá er í fjórða lagi, að frv. felur í sér nokkrar breyt. á iðgjaldagreiðslum einstaklinga til trygginganna. Lagt er til í frv., að persónuiðgjöldin lækki um einn þriðja, en til viðbótar lagt á hundraðsgjald af tekjum umfram tilgreindan persónufrádrátt, eða sem næst þeim tekjum, sem lífeyrissjóðsgjald er greitt af samkv. l. Hundraðsgjöldin eru greidd mismunandi eftir tekjum, þannig að af tekjum upp að 25 þús. er greitt 1% af hreinum tekjum, að frátöldum persónufrádrætti, sem nemur 7000 kr. fyrir hjón, 4000 þús. kr. fyrir einstakling og 3000 kr. fyrir barn. Þeir, sem hafa í árstekjur 25 þús. kr. eða meira, skulu greiða af 25 þús. kr. eins og segir í fyrri lið, en 2% af hreinum tekjum umfram 25 þús. kr. Um þetta var mikið rætt í fyrra á Alþ., en allir ættu að njóta sömu hlunninda og allir að greiða jafnt til iðgjalda. Ég álít hins vegar, að ef gjöldin verða, há, þá sé erfitt fyrir fátækt fólk að inna gjöldin af hendi, nema með því að ganga of nærri gjaldgetu sinni. En tilgangur 1. er sá, að allir geti öðlazt þessi hlunnindi án tillits til efnahags og fyrst og fremst þeir, sem fátækastir eru og þurfa að vera öruggir um að njóta hlunninda þessara laga. Ég álít þess vegna, að sanngjarnt sé að taka tillit til efnahags manna í sambandi við iðgjaldagreiðslurnar á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég held ekki sé ástæða til að rekja efni frv. nánar en gert hefur verið. Eins og ég gat um í upphafi, er hv. þm. þetta mál kunnugt frá meðferð þess á síðasta þingi. Ég vil því aðeins að endingu leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.