09.04.1947
Efri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (3737)

130. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. — Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar. Hún hefur rætt það á nokkrum fundum, borið það saman við gildandi lög og leitað álits Tryggingastofnunar ríkisins, og er álit hennar birt sem fylgiskjal með áliti meiri hl. n, á þskj. 582. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. er ekki samþykkur frv. og leggur því til, að það verði fellt, en minni hlutinn, hv. 4. landsk. (BrB) vildi láta samþ. frv. óbreytt, eins og fram kemur í nál. hans. Ástæðan til þess að meiri hl. n. vill ekki leggja til, að frv. verði samþ., er í meginatriðum sú, að hann lítur svo á, að ekki sé komin nægileg reynsla á tryggingalögin til þess að rétt sé að gera á þeim víðtækar breytingar. Fyrir Nd. liggur frv. um að breyta þessum lögum, og væri því eðlilegt, að þetta mál hefði verið látið bíða til að sjá, hversu því reiddi af, og taka þau svo saman til meðferðar, en vegna þess að meiri hl. heilbr.- og félmn. lítur svo á, að ekki eigi að gera neinar breyt. á lögunum á þessu þingi, þá leggur hann til, að frv. verði fellt. Ég skal nú gera nokkuð nánar grein fyrir þessari afstöðu og því ekki beri að samþ. þetta frv.

Í 1. gr. frv. á þskj. 290 er gert ráð fyrir að breyta 11. gr. laganna. Þetta mál var mjög umrætt á síðasta aðalþingi, þegar lögin voru samþ. Komu þá fram brtt. við þetta atriði, en meiri hl. n. og hv. d. vildi ekki fallast á þær, en þær voru að efni það sama og felst í 1. gr. frv. á þskj. 290. Í grg. er sagt, að með þeirri breytingu verði meira lýðræðisform á þessum málum. Það get ég ekki fallizt á. Breyt. er í því fólgin, að trygginganefndirnar verði að 1/5 kosnar í héraði, en oddamaðurinn skipaður af ráðherra, að fengnum till. tryggingaráðs, og sé hann form. Eins og nú er háttað, er nefndin öll kosin í héraði eftir lýðræðisreglum eingöngu. Hún er kosin af þeim, sem sækja fundi og atkvæði greiða, en enginn meðlimur skipaður af ráðherra, og það tel ég meira lýðræði en það form, sem í frv. felst. En annar munur er hér einnig á, því að nefndinni er einnig falið að vera umboðsmaður tryggingastofnunarinnar, og tel ég það ekki til bóta. Eins og nú er háttað, eru tveir aðilar í héraði. Annar aðilinn er aðili hinna tryggðu, sem sé nefndin, og hinn fulltrúi þess, sem tryggir. N. gætir hagsmuna hinna tryggðu, og við hlið hennar er umboðsmaður tryggingastofnunarinnar, og þessir tveir aðilar vinna saman í héraði, og það er langtum eðlilegra en að aðilinn sé aðeins einn og tryggingastofnunin skipi aðeins formann nefndarinnar. Þeir, sem halda, að réttur smælingjanna verði fyrir borð borinn með þessu skipulagi, geta ekki vænzt þess, að betur verði fyrir séð með því skipulagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þar sem þeir tryggðu eiga ekki form. n. Þeir ættu því allra manna sízt að greiða því atkv. En ef umboðsmaður nú, eins og 1. nú eru í gildi, hefur nokkra tilhneigingu til þess að ganga á rétt tryggingarþega, snýr tryggingarþeginn sér þá til þeirrar n., sem kosin er heima í héraði til þess að gæta þeirra hagsmuna, sem tryggðir eru. Svo ég sé ekki, að þær till., sem felast í þessu frv., séu til neinna bóta fyrir tryggingarþega og því enginn ávinningur fyrir þá að samþ. þetta frv., sem liggur fyrir, og breyta þannig 1., heldur verði þeim miklu fremur gerður óhagur með því. Þess vegna legg ég á móti því, að þessi 1. gr. frv. verði samþ., jafnvel þó tími væri til að breyta 1. að öðru leyti.

Um 2. gr. frv. er það að segja, að þar er gert ráð fyrir að hækka allverulega bæturnar, og út af fyrir sig vildi ég mjög gjarnan vilja geta fylgt því máli, að bæturnar væru hækkaðar. En áður en slíkt stórt spor er stigið, verður að koma miklu meiri reynsla á þessa löggjöf en nú er orðið. Ég get upplýst hér, að fjöldi bréfa frá oddvitum utan af landi streymir til þm. Hér liggur t. d. fyrir bréf frá oddvita, þar sem hann kvartar yfir því, hversu þessi tryggingagjöld séu þungur baggi á sveitinni. Það er álitið, að í þeirri sveit séu 13 bændur og búið sé nú að greiða til trygginganna 26 þús. kr., sem skiptist niður á þessa 13 bændur. Ég hef fengið mörg slík bréf. En þessi gjöld yrðu þó að hækka um 25%, ef frv. yrði samþ. En þótt ég hafi fengið mikið af svona bréfum, finnst mér viðkomandi oddvitar hafa gleymt meginatriði þessa máls, og það er, hversu mikið kemur inn í hreppinn af þessu fé aftur frá tryggingunum, því að það er mikið atriði, þeir virðast aldrei gæta þess.

En þegar um það er að ræða, að tryggingakostnaðurinn er allur um 72 millj. kr., þá eiga sveitarfélögin í raun og veru að borga aðeins 1/5 hluta, og þá er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að stór hluti af þessari fjárhæð gengur aftur til sveitarfélaga, þó að það gangi að vísu ekki beint til þeirra, heldur til þeirra, sem tryggðir eru, en þetta atriði virðast oddvitarnir ekki taka til greina. Og þegar ég hef gert fyrirspurn til þeirra um þetta, hafa þeir ekki svarað því atriði, því að þá var ekki farin að greiða út tryggingarnar og þeir því ekki farnir að sjá, hvað mikið kemur inn í hreppinn aftur: Þegar t. d. á heimili eru 10 börn og 2–3 gamalmenni, getur komið mikið inn. Ég vil þess vegna ekki breyta þessum 1. hvað þetta snertir, fyrr en komin er einhver reynsla. Og ég get búizt við, að þessi liður hækki útgjöldin um 6 millj. kr., ef gert er ráð fyrir að hækka gjöldin um 25%.

Um 3. gr. er það sama að segja, 25% hækkun á barnalífeyri, og verður hækkunin þar um 2,5 millj. kr., og mundi hækkunin því á þessum 2 liðum verða um 8,5 millj. kr. Þetta var mjög umdeilt á þeim tímum, sem 1. voru samin, en náði þá ekki samþykki vegna þess, að ekki þótti varlegt að fara inn á meiri bætur en gert var þegar gengið var frá síðustu fjárl.

Um 4. gr. hefur því verið haldið fram í grg. og af flm., að það hafi valdið mjög miklum ágreiningi og gremju, að þær breytingar skyldu vera gerðar á frv. á síðasta aðalþingi að fella niður ekkjubætur, eins og hv. flm. hefur lýst, að hafi verið gert. Nú er þetta ekki fellt burt, heldur nokkuð breytt, og skal ég nokkuð skýra, hvernig sú breyting hefur verið gerð. Í 1. nú er það þannig, að ekkja, hver sem hún er og á hvaða aldri sem hún er, fær 200 kr. á mánuði fyrstu 3 mánuðina eftir að hún er orðin ekkja, eða 600 kr. á mánuði eftir núgildandi vísitölu, í staðinn fyrir 420 kr., og þar að auki ef hún á barn, þá í 9 mánuði 1350 kr. Hún fær því rúmlega 6 þús. kr. fyrsta árið. Þetta fær hún sem ekkjubætur. Í frv., eins og það var áður og eins og í raun og veru er tekið upp hér, nema hvað bæturnar eru hækkaðar um 25%, þá er gert ráð fyrir því að setja slíka konu á árslaun, þ. e. að hún fái 600 kr. á ári þar til hún nær 67 ára aldri og kemst á full ellilaun. Þetta vildi n. ekki fallast á í fyrra, og varð að samkomulagi að gera þessa breyt. meðal annars af því, að ef ekkja giftist, þá skyldu henni greiddar þriggja ára ekkjubætur og þá einnig að greiða þriggja ára lífeyri barnanna þegar hún giftist. Nú skilst mér, að hennar ekkjubætur yrðu um 2325 kr., eða um 7 þús. kr. ekkjubætur, ef frv. yrði samþ., eða 7 þús. kr. með hverju barni. Ef börnin væru 10, yrðu það 70 þús. kr., sem þarna er um að ræða.

Það varð niðurstaðan í n. í fyrra, að það væri ekki trygging fyrir því, að hjónaband, sem byggt væri á þeim heimanmundi, gæti haldizt þann tíma, sem til væri ætlazt, og þess vegna gæti þetta allt komizt yfir á tryggingastofnunina aftur.

Það má segja, að ekki sé nægilega séð fyrir ekkjum eins og nú er. Ég skal ekki dæma um það, en það er miklu betur gert með þessum 1. en verið hefur hingað til. Þær hafa rúmar 6 þús. kr., ef þær eiga börn, þá barnalífeyri, og er það ekkert líkt því, sem þær hafa haft. Tryggingalöggjöfin þarf hins vegar að fá á sig reynslu hér eins og annars staðar, og það þarf að vita, á hvern hátt er hægt að halda áfram í þessum efnum. Og það eru vonir allra þeirra manna, sem vænt þykir um þessar tryggingar, að það verði hægt smátt og smátt að bæta svo úr þeim, að menn geti, hvort sem þeir eru öryrkjar eða gamalmenni, sótt þangað allan sinn lífeyri. Sá er munur á minni skoðun og hv. flm. á þessu máli, að hann vill taka þetta allt í einum áfanga, en ég vil fara hægara og ekki leggja meiri gjöld á fólkið en það getur borgað. Þess vegna vil ég fella þessar breytingar.

Um 5. gr. er það að segja, að ég tel hana ekki til bóta frá því, sem nú er í gildandi 1. Hér er aðeins að ræða um heimild fyrir tryggingaráð, það er ekki skylt. Eftir 1. er það skylda, að viðkomandi ekkja fái þennan lífeyri til 67 ára aldurs. Það er að vísu hægt fyrir tryggingastofnunina að meta fjárhag hennar. En með þessu frv. er aðeins um heimild að ræða, sem tryggingaráð hins vegar þarf alls ekki að fara eftir. Ég tel þetta ákvæði frv. lakara.

Sama er að segja um 6. gr. Þar stendur í 38. gr., að Tryggingastofnunin geti veitt bætur eins og þar greinir, en það er líka í gildandi l. En þarna er um að ræða nokkuð hærri upphæð, sem ég tel ekki heldur rétt að ráðast í á þessu stigi málsins.

7. gr. frv. er um breyt. á 107 gr. 1. Það, sem felst í þeirri gr., var þrautrætt í n. á síðasta Alþ., en varð ekki samkomulag um. Ég fyrir mitt leyti hefði tilhneigingu til þess að fara inn á þessa braut, sem þarna er farið inn á. En þetta var margrætt við tryggingafræðinga og tryggingan., og þeir aðilar vildu ekki leggja til, að farið yrði inn á þessa braut. Þeir töldu, að svo stór hluti af tryggingargjaldinu væri tekið í nefskatt, þannig að þeir, sem hefðu hæstar tekjurnar, hefðu greitt mestan hlutann. En þótt ég hefði áhuga fyrir þessu, vil ég samt sem áður ekki að svo stöddu leggja inn á þessa braut, fyrr en séð er, hvernig 1. verka. En sú reynsla fæst að sjálfsögðu eftir 1–2 ár.

Ég vil í sambandi við allar þessar till. benda á, að ef þetta skyldi verða samþ., þá held ég, að nauðsynlegt sé að breyta 116. gr. En ég sé ekki, að gert sé ráð fyrir því í frv. En í 116. gr. er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli aðeins leggja fram ákveðinn hluta, hann á aðeins að leggja fram sjö og hálfa millj. kr. að viðbættri verðlagsuppbót. En ef þetta frv. verður samþ., sé ég ekki annað en nauðsynlegt sé að hækka þá upphæð uni 25%. Ég vildi aðeins benda hv. flm. á þetta, ég býst við, að honum hafi sézt yfir það, en það er óhjákvæmilegt að hækka þessa upphæð nema því aðeins, að útreikningurinn sé þannig, að stofnunin standist þetta.

Að síðustu vil ég taka fram, að ég legg til fyrir hönd meiri hl. n., að frv. verði fellt á þessu stigi málsins. En ég vil taka það fram, að með því er hvorki ég né einstakir nm. að sýna andúð á tryggingalöggjöfinni. Hv. þm. Str. var ekki á fundi, þegar málið var afgr., og veit ég ekki, hvaða afstöðu hann hefur til málsins.