09.04.1947
Efri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (3738)

130. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Herra forseti. — Eins og hv. frsm. meiri hl. n. gat um í ræðu sinni, gat heilbr.- og félmn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. n. vildi láta fella þetta frv., en ég vildi láta samþ. það óhreytt.

Nú er það svo, að hv. frsm. meiri hl. hefur látið í ljós, að hann væri í raun og veru hlynntur frv. og markmiði ýmissa atriða þess. En hann legðist samt á móti því af þeim ástæðum, að hann telur, að ekki sé fengin sú reynsla á framkvæmd trygginganna, að rétt sé að gera á þeim breytingar að verulegu leyti. Þetta sama sjónarmið kom fram í umsögn tryggingaráðs, sem það vísaði til um annað frv. um breyt. á 1. um almannatryggingar, sem flutt var af hv. þm. V-Húnv., og sú umsögn var aðeins send n. sem umsögn um þetta frv. og látið þar við sitja af meiri hl. tryggingaráðs.

Ég álít, að þær röksemdir geti á engan hátt verið nægilegar fyrir hv. meiri hl. n. til þess að leggja til, að frv. þetta verði fellt. Þetta eru ekki heldur neinar röksemdir, að vegna þess að þetta hefðu allt verið deiluatriði í fyrra, þá sé alveg sjálfsagt að fella það nú. Þá var ekki heldur talað um það, að reynsla þyrfti að skera úr um það, heldur komu þar til greina ólíkar skoðanir á því, hvernig tryggingalöggjöfin ætti að verða úr garði gerð. Og þessi mismunandi sjónarmið hljóta að vera uppi enn.

Það þarf enga reynslu til þess að skera úr um það, hvort sé heppilegra að hafa ákvæði 1. að því er snertir þessi atriði, sem hér er um að ræða, eins og þau eru nú eða breyta þeim eins og farið er fram á í frv.

Í fyrsta lagi skulum við athuga 1. gr. frv. Eins og sakir standa, þá er fyrirkomulag trygginganna að þessu leyti til mjög svipað því, sem farið er fram á í þessu frv., þar sem sjúkrasamlögunum er falin framkvæmd þess verkefnis, sem samkvæmt 1. eins og þau eru nú er ætlað að verði falið sérstökum umboðsmönnum trygginganna og skrifstofu, sem tryggingaráð setur á fót, en samkv. þessu frv. á að fela n., sem kosin er í héraði. Um þetta voru harðar deilur, þegar 1. voru sett. En þó varð samkomulag milli þriggja flokka, sem að því stóðu að ganga frá þessari gr. 1. eins og hún nú er, og fyrst um sinn skyldi þetta ekki koma til framkvæmda eins og ætlazt var til í frv., heldur skyldu sjúkrasamlögin á hverjum stað hafa þetta starf með höndum, og þannig er það nú. En þetta fellur úr gildi um næstu áramót. En meiningin var sú, að í millitíðinni yrði reynt að finna einhverja lausn á þessu máli. Það eru þess vegna ekki mikil rök, þegar hv. þm. ber það fyrir sig, að ekki sé komin reynsla á þessa hluti. Slíkt nær ekki nokkurri átt í þessu sambandi. Spurningin er aðeins um það, hvort á að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem nú er, að sá aðilinn, sem með umboð fer fyrir tryggingarnar í héraðinu, sé kosinn í héraðinu sjálfu eða tilnefndur af tryggingaráði. Spurningin er, hvort á að breyta um fyrirkomulag á skipun miðstjórnar trygginganna, hvort á að gera hana sterkari en hún er nú, eða hvort nú á að halda áfram því fyrirkomulagi, að fólkið heima í héraðinu kjósi sjálft í þetta starf.

Nú segir hv. þm. Barð., að hann teldi, að þetta væri í raun og veru ekki eins lýðræðislegt og ákvæði núgildandi 1., þar sem formaður tryggingan. skal skipaður af ráðh. samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Það er ekki þetta, sem um er að ræða, heldur hitt, að samkv. núgildandi 1. er ætlazt til þess, að þær n. séu alveg valdalausar, en eins og nú er, eru öll völdin í höndum skrifstofunnar, sem sett er upp af tryggingaráði, en hér er lagt til, að þessar n. fái í raun og veru völdin og hafi á hendi framkvæmd trygginganna í héraði í umboði Tryggingastofnunarinnar. Og þegar svo er, þá er það ekki nema í anda lýðræðisins, að formaðurinn sé skipaður af ráðh. En ef orðið gæti samkomulag um það, að nm. væru kosnir í héraði, þá er flm. fús á að fallast á það.

Þá er það 2. gr. Þar er lagt til, að elli- og örorkustyrkur verði hækkaður allverulega. Nú er það svo eins og sakir standa, með þeirri upphæð, sem gamalmennum og öryrkjum er ætluð samkv. núgildandi 1., þá er þessi lífeyrir alls ekki nægilegur til þess, að þetta fólk geti lifað af þeim styrk, ef það hefur ekki neinar tekjur annars staðar frá. Það er ekki hægt með nokkru móti að lifa af þeim styrk einum saman.

Ég álít, að þegar sett eru tryggingal., þá eigi þau að ná þeim tilgangi að verja hina tryggðu gegn skorti. Það þýðir það, að lífeyririnn verður að vera það hár, að það sé hægt. Það verður að miða tryggingar við það eða þennan lífeyri, að hægt sé þó að framfleyta með honum, og við það verður að miða, annars nær hann ekki sínum tilgangi og er engin trygging í þeim tilfellum, þar sem sá tryggði hefur ekki í annað hús að venda. Nú mun hv. þm. Barð. ef til vill svara því að því er snertir elli- og örorkulífeyri og lífeyri yfirleitt, að þetta verði að fara eftir efnum og ástæðum þjóðarinnar. Þetta er vitaskuld alveg rétt. En við skulum gera okkur ljóst, hver er tilgangur trygginganna. Hann er sá að verja hina tryggðu skorti. Og ef litið er á þennan tilgang þeirra, þá getur hann fyrst orðið í anda lýðræðisins, að þær geti varið þá, sem tryggðir eru, frá því að líða skort. Og ef ætti að miða tryggingarnar við sitt eðli og tilgang, þá er ekki hægt annað en hafa þær þetta háar.

Nákvæmlega það sama gildir um barnalífeyrinn, og sama er að segja um ákvæði 4. og 5. gr. frv., sem fjalla um styrk til ekkna og mæðra. Þarna er um vísi að mæðralífeyri að ræða, og er tilgangurinn með honum að gera þessum konum, sem þannig er ástatt um, að þær hafa fyrir börnum að sjá, kleift að framfleyta lífinu og gegna þeirri þýðingarmiklu móðurskyldu, sem þær hafa tekizt á hendur fyrir þjóðfélagið, að ala upp sín börn, en það er fjarri því, að það sé tryggt með núgildandi 1., og það er víst rétt hjá hv. þm., að samkv. 35. gr. fá ekkjur nokkrar bætur í 3 mánuði eftir að þær verða ekkjur. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig gott og blessað. En þetta hjálpar þeim ekki til þess að framfleyta lífinu síðar meir eða að geta gert skyldu sína að ala upp sín börn.

Í núgildandi 1. átti 36. gr. að vera eins konar uppbót fyrir eldri konur, sem verða ekkjur. En þær bætur, sem ákveðnar voru þar, eru svo sáralitlar, að þeim er ákaflega lítill styrkur að þeim, þar til þær fá ellilífeyri. Á fyrsta ári eru það rúmar 100 kr., og manni virðist, að slíkar tryggingar séu ekki annað en útgjöld fyrir ríkissjóð og komi að engu gagni.

Um 5. gr. sagði hv. þm., að sér fyndist hún lakari, þ. e. a. s. sú breyting, sem hér er farið fram á á 36. gr. núgildandi 1., vegna þess að hér er aðeins um heimild að ræða. Það stendur í þessari gr. frv. með öðrum orðum, að ef umsækjandi þarf þess, fær hann þær bætur, og þar kemur einmitt fram þetta lýðræðislega eða sósíalistíska sjónarmið, sem gengur í gegnum þetta frv.

Um 7. gr. sagði hv. þm. Barð., að þrátt fyrir andmæli, sem hér hefðu komið fram, væri hann í sjálfu sér hlynntur henni, en vildi, að fyrst fengist nokkur reynsla (eins og hann sagði um önnur atriði þessa frv.) í framkvæmd 1., áður en hann vildi samþ. hana. Það er mjög gleðilegt, að þessi hv. þm. skuli vera efnislega fylgjandi þessu. Og er þess þá að vænta, að síðar meir megi reikna með hans fylgi til þess að breyta fyrirkomulagi á iðgjaldagreiðslunum í svipað form og hér er farið fram á. Hins vegar er það misskilningur hjá þessum hv. þm., að það þurfi nokkra reynslu að fá í framkvæmd 1., til þess að taka ákvörðun í þessum efnum um að breyta iðgjaldagreiðslunum. Hér er um að ræða mismunandi skoðanir um það, hvernig iðgjöldin séu lögð á og hvernig tekna sé aflað til trygginganna. Það er í talsvert mikilli óvissu nú, hvaða tekjur tryggingarnar hafa af iðgjöldunum. Og þetta er í nokkurn veginn jafnmikilli óvissu, þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. Það er að vísu hægt að gera um þetta nokkuð lauslega áætlun, en það getur alltaf skakkað nokkuð miklu í þeirri áætlun í báðum tilfellum, hvort sem þessu verður hagað á þann veg, sem í frv. þessu er gert ráð fyrir, eða ekki. Og kemur í raun og veru engin reynsluþekking þar til greina, heldur hitt, hvort menn eru fylgjandi því, að tekna til trygginganna verði aflað með nokkru tilliti til efnahags manna eða alveg án tillits til efnahags manna, að því er iðgjöldin snertir.

Þá taldi hv. frsm. meiri hl. n., að það mundi sennilega verða nauðsynlegt að hækka eitthvað framlag ríkissjóðs til trygginganna, ef þetta frv. yrði samþ. Það kann v el að vera. Svo mikið er víst, að þetta eykur útgjöld trygginganna allverulega. Hv. þm. nefndi tölur. En ein talan, sem ég nefndi, er ekki rétt, eftir þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið. Það er um barnalífeyrinn, það er 1,4 millj. kr. sem hann mundi verða hærri eftir brtt. okkar, samkv. þeirri áætlun, sem gerð var. En hvað sem því líður, þá er um talsverða hækkun á útgjöldum að ræða. Og getur vel verið, að þá hækki eins framlag ríkissjóðs. En frá mínu sjónarmiði er það ekkert aðalatriði, hvort þetta, sem hér er lagt til, er gert nú eða síðar, vegna þess að það er allt í óvissu um fjárhagsáætlun trygginganna, og það þarf undir öllum kringumstæðum á næsta ári að endurskoða hana, það er alveg óhjákvæmilegt. Og þá er spurningin sú, hvort ekki sé rétt að bíða með það, þangað til reynsla er fengin. Því að það er einmitt það atriði, sem reynslan getur skorið úr um til fullnustu. Tryggingarnar eru þannig vaxnar, að það er ekki hægt að gera um þær áætlun, sem búast megi við, að standist. Þar hlýtur alltaf að skakka allverulegu.

Ég vildi svo leggja til, að þetta frv. verði samþ.