15.04.1947
Efri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

130. mál, almannatryggingar

Frsm. meira hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú orðið svo langt síðan umr. fóru fram um þetta mál, að ég veit ekki, hvort ástæða er til að svara ýmsu því, sem fram kom frá hv. minni hl. Ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á, að flest af því, sem hv. 4. landsk. þm. hélt fram í ræðu sinni, var byggt á því, að hann virtist ekki skilja frv. eins og það liggur fyrir, og vildi ég ráðleggja honum að leggja nokkra vinnu í það að kynnast málinu í heild til þess að geta flutt um það ræður síðar, er byggðar væru á kunnáttu og skilningi á lagabókstafnum. — Það sama kom fram hjá hv. 6. landsk. þm. (StgrA). Hann virtist ekki heldur hafa lesið t. d. 11. gr. frv. og skilið innihald hennar, því að annars hefði hann ekki haldið fram því, sem hann hélt fram, m. a. því, að nefndirnar væru algerlega valdalausar. Þegar notaðar eru slíkar aðferðir og verið að berja fram staðleysur, sem m. a. byggjast á því, að menn hafa ekki lesið þau gögn, sem verið er að ræða um, sé ég ekki ástæðu til að halda uppi löngum ræðum til andmæla, svo lengi sem hv. minni hl. vill ekki halda sig að málinu sjálfu og reyna að setja sig inn í kjarna þess. Ég legg því ákveðið til fyrir hönd meiri hl. n., að frv. verði fellt.