21.02.1947
Neðri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (3750)

81. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Pétur Ottesen):

Þetta litla frv. er fram komið vegna þess, að í ár eru hafnar ferðir með bílferju yfir Hvalfjörð. Það er þegar byrjað að vinna að lendingarbótum í sambandi við þessa væntanlegu bílferju og einnig að vegagerð. Hér er um að ræða stutta siglingu yfir fjörðinn, sem tekur um 5 til 10 mínútur hvora leið, og þó að þessar ferjur séu stórar, eiga að geta tekið marga bíla, eða allt að 150 smálestir, þá þykir eðlilegt, að eigi verði gerðar meiri kröfur um skipstjórn en ráð er fyrir gert í þessu frv., þ. e. að rétt til að vera skipstjóri á þeim hafi hver sá, sem hefur skipstjórnarréttindi, þar sem ekki er um aðrar ferðir en hér um getur og ef til vill til Reykjavíkur, N. sendi frv. til umsagnar skólastjóra stýrimannaskólans og vélstjóraskólans, svo sem fram er tekið í grg., og telur skólastjóri stýrimannaskólans nægilegt, að skipstjórnarmenn ferjanna hafi þá sjófræðilega þekkingu, sem áskilin er í frv. Skólastjóri vélstjóraskólans telur, að vélamenn á ferjunum þurfi að hafa gengið undir hið meira mótorvélstjórapróf Fiskifélags Íslands.

Það hefur svo orðið um það samkomulag í n. að mæla með samþ. þessa frv.