04.12.1946
Neðri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (3766)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég varð mjög undrandi, þegar ég sá þetta frv., sem hér liggur fyrir, lagt fram, og það er af því, að þetta mál er búið að vera mikið deilumál á undanförnum tveim aðalþingum. Á þingi 1944, þegar þetta mál var fyrst lagt fram, var við síðustu umr. þess samkv. samþ. ríkisstj. bætt inn í frv. ákvæði um það, að úthlutun fjár úr sjóðnum skyldi vera að áður fengnu samþykki landbrh. á hverjum tíma, og er þetta ákvæði í samræmi við ýmis ákvæði í 1. um hliðstæða sjóði, bæði varðandi fjárreiður Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélags Íslands og fleiri stofnana, að ég nú ekki tali um úthlutun úr fiskveiðasjóði. Út af þessu urðu miklar deilur, en málið var samþ. á því þingi. Á síðasta þingi kemur svo fram frv. um að fella þetta ákvæði niður, enda þótt hæstv. landbrh. hafi þá samþ. þá áætlun, sem gerð var um úthlutun úr sjóðnum. Þetta er ekki hægt að taka öðruvísi en grímuklætt vantraust á hæstv. landbrh. Út af þessu máli hefur ekki aðeins verið deilt hér á þingi, heldur einnig í blöðum og á mannfundum, og hefur um fá mál, sem eru jafnmikil smámál og þetta, verið deilt eins mikið víðs vegar um land. En þar sem málið var afgr. hér á þingi með verulegum meiri hl., mátti ætla, að þeir, sem undir urðu í þessari deilu, létu sér lynda, að minnsta kosti fyrst um sinn, þá afgreiðslu, sem þá var gerð, og því virðist flutningur málsins nú aðeins gerður til þess að skapa hér deilur um það á ný, deilur, sem ég er ekkert viðkvæmur fyrir, og fer því fjarri, eins og 1. flm. hélt fram, að hér mundu einhverjir vera, sem væru viðkvæmir fyrir deilum um þetta mál, en hins vegar er hér um lítið og einfalt mál að ræða, sem alger óþarfi er að vekja upp harðvítugar deilur um, þegar ekki ár er liðið, síðan það fékk afgreiðslu hér á þingi, og af því að svona stendur á, þá mæli ég eindregið með dagskrártill. hv. 2. þm. Rang. (IngJ), og ætti að afgreiða málið nú þegar.

Ég veit, að þótt það færi til hv. landbn., eru ekki neinar líkur fyrir samkomulagi um það frekar en á síðasta þingi, því að þar mun ríkja svipuð afstaða til málsins nú eins og þá. Það, sem síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt), lét orð falla um í sambandi við þetta mál, var í raun og veru endurtekning á mörgu af því, sem hér var sagt í fyrra, og einnig á því, sem komið hefur fram í ræðu og riti, að með þessu hefði verið níðzt á bændastétt landsins á óviðeigandi hátt. Því fer vitanlega alls fjarri, og mætti slíkt undarlegt heita. Hér hefur það eitt verið gert, að þessu gjaldi, sem innheimt er með skatti, skuli varið til þess að styrkja framfarir í sveitum landsins, eftir því sem bændur sjálfir í búnaðarsamböndunum hafa ákveðið. Varðandi það, að tilgangurinn með þeirri breyt., sem gerð var í frv. í fyrra, hafi verið sá að kyrkja — eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, þá varð ég satt að segja mjög undrandi yfir að heyra slík ummæli. Búnaðarfélag Íslands hefur 100 þúsund krónur til umráða, sem Alþ. veitir því af fjárl., og er ekki til annars ætlazt en að það fái fé eftir því, sem þörf er á, og í samræmi við það, sem aðrar hliðstæðar stofnanir hafa. Og ég held — sem betur fer —, að ekki sé ástæða fyrir bændur eða fulltrúa þeirra að kvarta yfir því, að illa sé farið með Búnaðarfélag Íslands með fjárframlögum og að þess vegna þurfi ekki að setja gjald á framleiðsluvöru bænda til þess að styrkja hag Búnaðarfélagsins. Það er og heldur ekki rétt, að með þessu sé verið að gera einhverjar óviðeigandi ráðstafanir til niðurdreps fyrir þessa nýju stofnun, Stéttarsamband bænda. Hvað það snertir, að sérstök þörf sé á að leiðrétta ranglæti, sem hér hafi verið framið á síðasta þingi, þá fer því alls fjarri, að um slíkt sé að ræða, því að frv. var breytt á þennan hátt með samþ. meiri hl. Alþ., og þyrfti því aftur að fást meiri hl. Alþ. til þess að kippa ákvæði því. sem hér um ræðir, út úr 1., sem sé því. að landbrh. þyrfti nokkuð að skipta sér af meðferð þessara mála. Og þeir, sem að þessum málum hafa staðið, væru þá algerlega lausir við afskipti landbrh. af úthlutun fjár úr sjóðnum, og væru það þá bændur sjálfir í búnaðarsamböndunum, sem réðu því. Þá vil ég mótmæla því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hefði verið algert samkomulag meðal bænda um þetta mál, því að tvö stærstu búnaðarsambönd landsins sendu Alþ. áskoranir um að samþ. frv. eins og það lá fyrir á síðasta þingi, þótt að vísu hefðu komið mótmæli frá nokkrum búnaðarsamböndum um hið sama. En að það komu á víxl mótmæli og meðmæli varðandi málið, sannar, að röng er sú fullyrðing, að bændastéttin hafi verið sammála um afgreiðslu þess. — Ég tel, að þetta mál hafi verið svo þrautrætt hér á síðasta þingi og úr því skorið með því, hvernig meiri hl. Alþ. snerist við því, að hreinn óþarfi sé að bera það fram nú, og til þess eins gert að stofna til óþarfa deilna. Er ég ekki undrandi yfir því, að þeir geri það, sem harðast börðust í þeim efnum hér í fyrra, en hins vegar er ég alveg undrandi yfir því, að hv. 1. þm. Skagf., sem þá stóð ekki í þeim deilum, skuli leggja sig niður við það nú, og þekki ég hann ekki að því, að hann vilji stofna til óþarfa deilna um mál, sem þannig er vaxið, að það hefur enga þýðingu að hefja deilur um á ný.