04.12.1946
Neðri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (3769)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Í þeim deilum, sem fram hafa farið um þetta, hef ég fengið óverðskuldaða frægð frá þeim formanni Dagsbrúnar og hv. þm. A-Húnv., því að ég gat þá ekki átt nema eitt lítið atkv. í Ed.

Ég álít heppilegt, að ýmislegt varðandi þetta mál verði skýrt nánar, því að deilur þessar stafa af vanumræðum og að menn skilja ekki algeng fyrirbæri í félagsmálum. Ef hv. 1. þm. Skagf. hefði kynnt sér stéttarsamtök, hefði honum aldrei dottið í hug að bera svona nokkuð fram, enda er ekkert fordæmi til fyrir slíku máli, að stéttarfélag fari fram á slíka hluti við ríkið. Þetta verður hv. 1. þm. Skagf. að gera sér vel ljóst.

Hann verður að gera sér grein fyrir því, að fyrir þessu er ekkert fordæmi og að fyrir svona bónum verður að vera einhver skynsamleg ástæða, annars er þessi aðferð óafsakanleg. En ég neita því fyrirfram, að nokkur skynsamleg ástæða sé til þessa.

Það er rétt, sem stóð í Þjóðviljanum, að ég hafi átt þátt í stofnun alþýðusambandsins. Það gerði ég af því, að þeir voru þá veikari aðili, og ég vil leyfa mér að benda á það, að þeim, sem að stofnun alþýðusambandsins stóðu, hefði aldrei dottið í hug að fara þannig að, því að þeir skildu það, að ef ríkið ætti að greiða slík félagsgjöld, væri það háð þingmeirihlutanum, hvort þeir fengju nokkra peninga, og það gæti haft alvarlegar afleiðingar, þegar stuðningsmenn þess væru ekki í meiri hl. á Alþ. Alveg það sama gildir um sjómannafélög og önnur stéttarfélög. Slík aðferð sem þessi er ekki þekkt.

Ég mun þá víkja að hv. þm. Borgf. Við skildum síðast austur á Selfossi. Hann var þar sem annars staðar hinn duglegasti, en ég vil minna á það, að bændur eru honum lítið þakklátir fyrir tvo hluti. Í fyrsta lagi þegar hann vann að því haustið 1944, að sú tilslökun var gerð af búnaðarþingi að gefa eftir í verðlagsmálunum í von um, að ríkisstjórnin mundi semja um lækkun dýrtíðarinnar á réttan hátt. Ég vona, að hv. þm. Borgf. taki þetta ekki sem móðgun við sig. Þetta er einsdæmi, og hljóta hann og hv. 1. þm. Skagf. að hafa trúað, að aðrar stéttir fetuðu í fótspor þeirra og lækkuðu líka, en það fór á annan hátt. Þetta undanhald var notað til að lækka afurðir bænda. Ég sagði, að þetta gilti aðeins, ef aðrar stéttir legðu líka fram sinn skerf. Ég segi þetta í fullu bróðerni við hv. þm. Borgf., en hann verður að játa, að við, sem ekki vildum fara þessa leið, höfðum á réttu að standa. Og ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að þeir, sem á þessu byrjuðu, hafa haldið áfram með hverju óhappaverkinu af öðru. Hv. þm. Borgf. sá, þegar hann kom á Selfoss, að bændur höfðu ótrú á aðferðinni frá haustinu 1944, sá, að það var ekki drengileg aðferð, er bændur ætluðu að taka til þess eina ráðs, sem þeir gátu. Það, sem gerðist, var, að hv. þm. Borgf. og félagar hans héldu hverja ræðuna á fætur annarri, en bændur sögðu, að það, sem þeir sögðu, væri vitleysa og þeir kynnu þeim óþökk fyrir að láta sjá sig þarna. En að hrasa einu sinni er ekki sama og að hrasa tvisvar. Búnaðarfélag Íslands stóð ekki sterkara eftir þetta, og þegar forystumenn Búnaðarsambands Suðurlands sáu það 1944, að þeir menn, sem stóðu fyrir Búnaðarfélagi Íslands, voru ekki heppilegir málsvarar, tóku þeir það ráð að stofna til stéttarsambands bænda.

Bændur höfðu þá sannfærzt um, að Búnaðarfélag Íslands gæti verið forsvari þeirra í verðlagsmálum.

Ég skal víkja að því, sem bændur sáu, að Búnaðarfélag Íslands er ríkisstofnun, og víkingurinn, sem situr hérna á móti mér, formaður Dagsbrúnar, vildi ekki, að Dagsbrún væri háð ríkinu. Dagsbrún er því rétt stofnuð sem stéttarfélag. Ég vildi spyrja hv. 1. þm. Skagf. að því, hvort honum virðist, að Búnaðarfélag Íslands sé frjáls stofnun, eins og t. d. samvinnufélögin, svo sem Kaupfélag Þingeyinga, sem er algerlega frjálst og sjálfstætt, svo sem öll önnur samvinnufélög og stéttarfélög.

En Búnaðarfélag Íslands er stofnun, sem búin er til af Alþ. og fær fé frá Alþ., og því með lögþvingað skipulag, en ekki félag, og þó að ég hafi gert það áður, vil ég enn, ef hann hefur ekki trúað því, benda honum á, að Búnaðarfélag Íslands er aðeins deild úr stjórnarráðinu.

Ég vil minna á, að þegar Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri var búinn að fá ræktunarl. samþ., þótti það eðlilegast, að Búnaðarfélagið sæi um framkvæmdina. Alþ. sagði, að það skyldi fá þetta, ef það, þ. e. Alþ., legði til 2 menn. Sigurður Sigurðsson, sem var meiri ræktunarmaður en stjórnmálamaður, féllst á þetta, og Alþ. hafði öll ráðin. Þetta hefði ekki komið fyrir neitt frjálst félag. Þetta var því aðeins hægt, að þetta var aðeins stjórnardeild. En upp úr þessu kom upp deila, mjög leiðinleg deila, sem allir iðrast eftir, að skyldi koma fyrir. Það þótti miður að hafa tvo forstjóra fyrir Búnaðarfélaginu. Þá höfðu alþýðuflokksmenn og framsóknarmenn stjórn landsins með höndum, og við í meiri hl. gripum þá til þess ráðs að láta Alþingi skera á það kýli. Bændaflokksmenn og sjálfstæðismenn höfðu þá meiri hl. búnaðarfélagsins í höndum sér. Við settum því í fjárl. skilyrði um það, að styrkur til búnaðarfélagsins yrði ekki greiddur nema með samþykki ráðherra. Hvers vegna gátum við gert þetta? Það var vegna þess, að búnaðarfélagið er deild úr stjórnarráðinu. Ef þetta félag hefði verið byggt upp á líkum grundvelli sem Alþýðusamband Íslands, hefðum við ekki þorað að gera þetta. Alþýðusambandið hefur kraft til þess að spyrna við fæti. Ef hundurinn hefði ygglt sig, þá var það til lítils, því búnaðarfélagið er vita máttlaust.

Á þessum tíma ráðum við ágætan mann sem búnaðarmálastjóra. Þessi maður var Steingrímur Steinþórsson. Hann hafði gegnt búnaðarkennslu og skólastjórn að Hólum um nokkur ár. Honum tókst að koma á friði í búnaðarfélaginu inn og út á við. Nú mega deilur hv. 1. þm. Skagf. sín lítils, því búnaðarfélagið er ekkert félag, heldur aðeins stjórnardeild, og ef bændur vilja eða þurfa að gæta síns hlutar, þá er þetta félag það aumasta, sem til er, sem má fara með eins og hver vill. Ég vil segja hv. þm. Borgf. það, að það var ég, sem hafði frumkvæðið að því að leysa þetta mál á sínum tíma. Þá er þar komið þessu máli, að Alþýðuflokkurinn ber fram frv. til 1. um orlof. Hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Skagf. var báðum kunnugt um þetta. Þá tók formaður Framsóknarflokksins það ráð að reyna að hengja bændur aftan í þetta frv. En þetta mislukkaðist gersamlega. En hvers vegna mislukkaðist það? Það var aðeins af því, að fulltrúar bæjanna eru í meiri hluta hér í deildum Alþ. og bændafólkinu er skellt aftan úr af þessum meiri hl. Í þessum sviptingum kom fram sú fáránlega tillaga, að hvert heimili í sveit fengi 10 kr. á ári í ferðakostnað, í ferðastyrk. Svona var ræfilsskapurinn orðinn mikill, að hugsa sér 10 króna ferðasjóð á heimili. Það er aumur áfangi á þessari leið. En þá voru það hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf., sem sögðu: „Við skulum leggja skatt á bændur.“ Ég held, að þeir hefðu ekki átt að leggja út á þá ófæru leið, og það endaði líka illa. Hér var lykkja á leið þeirra, að til þessa þurftu þeir samþykki bæjarmeirihlutans á Alþ. Í öðrum félögum var það svo, að þau söfnuðu sjálf árstillögum í félögunum. Þess vegna er það, að er þetta mál kom fram, þá gekk bæjarmeirihlutinn ekki inn á þetta á Alþ. Ef bændur hefðu nú skilið þetta sem bendingu og tekið frv. aftur, þá gátu þeir sagt: „Þetta máttum við vita. Við ráðum ekki okkar högum.“ Þetta mál kom svo til Búnaðarfélagsins og búnaðarþing fjallaði um það og landbrh. samþykkti. Sunnlenzkir bændur vildu nú rétta hag sinn með því að stofna stéttarfélag bænda. Þá er það, að hv. þm. Borgf., sem er trúr bóndi og einn hinn mesti í sinni sveit, varð fyrir vonbrigðum haustið 1944. Þá fékk hann eitt tækifæri til að rétta hlut bændafólksins. Við geymdum hugmyndina um stéttarfélag bænda, framsóknarmenn, nokkrir kratar og ef til vill einhverjir kommúnistanna. Hann hafði hér tækifæri að leita samstarfs við okkur. Þetta gerði hann ekki, en gekk á veiðar, líkt og ungir menn, sem skreppa vestur að Fiskivötnum á veiðar sér til gamans. Það var farið herskildi að bændum í stað þess að fara eftir hvítum línum. Eins og það var virðulegt af hv. þm. Borgf. að neita að styðja Ólaf Thors í stjórnarmyndun hans, þá var það jafnmikil flónska að tapa svo aðstöðu sinni í þessu máli. Nú er bændastéttin varnarlaus, ef 10 menn neita að flytja olíu í einhverja sveit. Þessir 10 menn geta ráðið yfir 6 þús. bændum. Þm. Borgf. ræður engu um verð á mjólk, þótt hann sé góður bóndi, heldur er það bæjarmeirihl. á Alþ., sem ræður þessu. Ég þekki illa víking þann, sem stjórnar Dagsbrún, ef hann vill eiga undir 1. þm. Skagf. um kaup verkamanna í Reykjavík.

Allt er nú dregið úr höndum fulltrúa bænda á Alþ., og sveitafólkið lifir á náð og miskunn bæjarbúanna. Þess vegna er það, að þegar þetta mál kemur hér fram og búnaðarfélagsmenn hafa eyðilagt Stéttarsamband bænda, þá bera þeir þetta frv. aftur fram hér á Alþ. Bæjarkraftarnir settu þetta frv. fram, og þetta mál varð til án minnar vitundar og í baráttunni um meiri hl. á þingi. Nú heldur sá meiri hl. áfram þessu máli, og loks kemur það til Ed., og vill það þá svo til, að það veltur á mínu atkv., hvert vald ráðh. skuli vera. Þá var það, að ég gekk inn á það að greiða atkv., svo frv. yrði ekki drepið. Ég kom þar að líkt og pólití inn á dansleik, þar sem allt liggur útúrdrukkið og í kös, og þá greiddi ég atkv. gegn ráðherravaldinu. Síðan hafa verið teknar á leigu tvær tylftir manna, skrifandi og talandi til þess að níða mig.

Nú gleð ég búnaðarmálastjóra með því, að ástæður voru þannig í vor, að Sunnlendingar hafa fáein þúsund til ráðstöfunar. Í tveim sýslum, þar sem ég er kunnugastur, það er Þingeyjar- og Árnessýslu, þá voru Þingeyingar í vor orðnir auralausir og stungu upp á því að taka lán. Hlutur þeirra samkv. 1. um búnaðarmálasjóð er 16 þús. kr. Hvernig ætlar svo búnaðarmálastjóri að útvega þeim lán? Það, sem er eftirminnilegast í þessu máli, er, að forkólfum Búnaðarfélagsins dettur þetta alls ekki í hug, fyrr en örðugleikarnir voru komnir og búið að skera á alla hringa til lána. Þá var það, að Gunnar Þórðarson í Grænumýrartungu kom til mín og sagði: „Hindra þú, að þetta komi fram.“ Ég sagði honum: „Far þú til þíns vinar og láttu hann hjálpa þér að leiðrétta þetta.“ Hyggnir menn skildu, að bændur töpuðu, því fulltrúar þeirra eru í minni hl. á þingi og í landinu. Málið þarf að skýrast, svo að dugandi menn eins og hv. þm. Borgf., sem er hér á villigötum, komist á rétta leið. Það væri t. d. hugsanavilla hjá formanni Dagsbrúnar, sem situr hér við hliðina á formanni stórkaupmannafélagsins, ef hann léti hann geyma peningakassann fyrir sig. (HB: Hann er ekki viðstaddur.) Hann hefur kassa samt.