12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (3782)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég skal reyna að ofbjóða ekki þolinmæði hæstv. forseta og skal því vera stuttorður. Ég hygg, að hv. 2. þm. Rang. hefði alveg getað sparað sér þessa ræðu, því að þetta er sama upptuggan og hann hefur þrástagazt á hér í d. Ég mótmæli því sem hreinum ósannindum, að fulltrúar Búnaðarfélags Íslands hafi haft meðferðis einhverjar till. á Selfossfundinum. Þetta eru hrein og vísvitandi ósannindi hjá þessum hv. þm., og hefur hann ekkert fyrir sér í þessu, og ef hann ekki trúir mér, þá getur hann spurt hv. þm. Borgf. Geri ég ráð fyrir, að hann taki flokksbróður sinn trúanlegan. En hefði hv. 2. þm. Rang. haft eins mikið fylgi á Selfossfundinum og hann vill vera láta, hvers vegna bar hann sjálfur ekki fram till.? Nei, svona blekkingar og vesaldómur er alveg óþolandi. Hv. þm. virðist alltaf vera glaðastur á svipinn, þegar hann veit, að hann fer með mest ósannindi. Eina aðalröksemdina fyrir dagskrártill. sinni telur þessi hv. þm., að þetta sé 4. umr., sem fari fram um málið á þessu ári. Veit ekki þessi hv. þm., að síðan l. voru samþ., hafa farið fram kosningar og ekki færri en 6 nýir menn tekið sæti í þessari hv. d. Með þessum rökstuðningi fyrir dagskrártill. leyfir hann sér blátt áfram að ráðstafa atkv. hv. þdm.

Það er ekki um þá spurningu að ræða, hver sé afstaðan til þessa máls, heldur hvort eigi að vísa því til n. og láta það þar hljóta þá venjulegu afgreiðslu þingmála. Það er alls ekkert sjálfsagt mál, að hinir 6 eða 7 nýju þm., sem eru í þessari hv. d., greiði atkv. í þessu máli eins og þeir, sem fyrir voru.

En þessi síðasta ræða hv. þm. sýndi, að hann var kominn í rökþrot vegna frumhlaups síns með dagskrártill., sem hann hélt, að yrði samþ. Ber þar tvennt til. Mér dettur ekki í hug, að nokkur maður í d., nema hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. A-Húnv., láti sér til hugar koma að greiða þessari till. atkv. Það hefur verið bent á leiðir til samkomulags, t. d. till. hv. þm. V-Sk. í fyrra, en þá var ofstækið of mikið. En það eru til margar leiðir til samkomulags, ef vilji er fyrir hendi. Hv. þm. sagði, að Framsókn hefði gert þetta að flokksmáli. Ég veit nú ekki, hvað hv. 2. þm. Skagf. eða hv. þm. Borgf. segja um það, eða ýmsir aðrir sjálfstæðismenn, sem eru andstæðir l., eins og þau eru nú. Nei, þetta er ekki flokksmál, þetta er stéttarmál, en það er verið að reyna að gera það að pólitísku flokksmáli af hv. 2. þm. Rang.

Þá verð ég að minnast á eitt atriði, sem sýnir, hversu vel hv. þm. fylgir sannleikanum. Hann sagði, hv. þm., að tvö stærstu búnaðarsambönd landsins hefðu mótmælt þessari breyt. Það er rétt, að annað þeirra er eitt af þeim stærstu, Búnaðarsamband Suðurlands, en hitt er eitt minnsta búnaðarsambandið á landinu, og sýnir þetta vel málflutning og rök hv. þm.

Ég álít nú ekki fleiri orða þörf um þetta mál, en ég vildi þó segja það um þetta mál, áður en það fer til n., að við flm. erum albúnir að ræða málið við hvaða aðila sem er, en séu allar leiðir til samkomulags lokaðar, þá munum við berjast fyrir því eins harðri baráttu og unnt er. Við höfum ekki að fyrra bragði vakið illdeilur um þetta mál við 1. umr., og hefði okkur verið miklu kærara að leita samkomulagsleiða.