12.12.1946
Neðri deild: 36. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (3785)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þessum umr. meira, en ummæli hv. þm. A-Húnv. gáfu tilefni til að biðja um orðið. Hv. þm. mótmælti því, að hér væri um ofbeldi að ræða, en slíkt hefur ekki nokkru sinni verið sýnt á landi þessu þau 20 ár, sem ég hef setið á þingi, og ég veit ekki til, að slíkum aðferðum hafi verið beitt af neinum nema Hitler og Mussolini. Þessu er neitað með því, að sagt er, að bændum sé sjálfum falið að skipta fénu, en hér er nú reyndar öllu snúið öfugt. Það, sem felst í þeim breyt., sem við viljum fá á l., er að bændur ráði því sjálfir, hvað þeir gera við féð, en Alþ. geti ekki notað það til þessa eða hins. Ég álít það meginvillu, að meiri hluti bænda vilji hafa l. eins og þau eru nú, því að þá eru þeir ekki einráðir um, til hvers skuli verja fénu. En samkvæmt till. okkar fá þeir sjálfir að ráða, en hv. þm. virðist ekki treysta þeim til þess, því að það er tekið af þeim aftur og þeir verða ómyndugir síns fjár. En vantraustið á bændum kemur enn greinilegar fram í grg. hv. þm. A-Húnv., þar sem hann talar um snakkfundi bænda, fundi, sem ekki mætti hafa að neinu. Ég segi bara það, að svona aðferðir væru hliðstæðar því, að menn úr verkalýðsfélögum kæmu til Alþ. og bæðu það að taka eitthvað af fé verkamanna og verja því til einhvers, sem verkamenn ekki kjósa. Ég gæti vel trúað þessum hv. þm. til þess, ef þeir þyrðu að kúga verkamenn, en munurinn er sá, að verkamenn þora þeir ekki að kúga, en bændur þora þeir að kúga. Þeim hefur tekizt að villa svo um fyrir miklum hluta bænda, að þeir halda, að þessum mönnum sé óhætt að treysta, en mér kæmi ekki á óvart, þó að augu bænda opnuðust fyrir því fyrr eða seinna, hvaða leik er hér verið að leika og hvað hér er á ferðinni.