20.11.1946
Efri deild: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (3802)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt hér á síðasta reglulegu Alþ. og komst þá til n. Það var þá allmikið rætt, svo að það er þessari hv. d. vel kunnugt, og þarf þess vegna ekki að hafa um það neina verulega framsögu. Ég vil aðeins segja það, að þegar þetta frv. var flutt, þá bjóst ég naumast við, að það fengi jafneinróma meðmæli og það fékk hjá teiknistofu landbúnaðarins og Landssambandi iðnaðarmanna. Frv. fylgir grg. sú, er með því var síðast, og enn fremur meðmæli frá teiknistofu landbúnaðarins og Landssambandi iðnaðarmanna. Landssambandið gerði að vísu ýmsar aths. við frv. og stakk upp á breyt., sem sumar hverjar eru þannig, að ég er þeim ekki mótfallinn, eins og t. d. það að hafa skólana ekki svona stóra í sniðum, eins og gert er ráð fyrir í frv., vegna þess að þeir telja, að smíðastofur fyrir allt að 400 menn, eins og gert er ráð fyrir í frv., séu of stórar til þess, að hægt sé að reka þær með hagkvæmum hætti. Þetta frv. fékk samt sem áður ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Ég hygg, að það hafi verið mest fyrir það, að ekki hafi unnizt tími til vegna ýmislegra anna að rannsaka, hvað þetta mál er stórt og nauðsynlegt.

Ég hygg, að ekki þurfi að lýsa fyrir hv. d., hvað mikil nauðsyn er, þegar við erum á öllum sviðum að tileinka okkur nýja tækni á öllum sviðum til sjávar og sveita og í iðnaði, að koma upp skólum eins og þessum, þar sem möguleikar eru fyrir unga menn að afla sér tæknikunnáttu. Og þótt það sé sérstaklega ætlazt til, að þetta frv. megi verða til þess að auka tæknikunnáttu þeirra manna, sem annast eiga húsasmíðar í sveitum, og það sé eitt af því, sem er einna mest aðkallandi nú, þá efast ég ekki um, að það eigi eftir að koma fleiri skólar hér á landi, hliðstæðir þeim, sem hér er gert ráð fyrir, að samþ. verði. Ég segi þetta vegna þess, að ég get bætt því við þær röksemdir, sem liggja fyrir í grg. um þetta frv. og voru færðar fram á síðasta reglulegu Alþ., þegar þetta frv. var flutt, að einn af kunningjum mínum, sem þurfti að útvega skólavist erlendis manni, sem var útskrifaður úr menntaskólanum, en hafði ekki fengið þá einkunn í stærðfræði, sem til þess þarf að komast inn í háskólann, hann minntist á þetta við mig. Ég nafngreini hann ekki, en hann er öllum hv. þm. vel kunnur. Hann sagðist hafa leitað á Norðurlöndum um skólavist fyrir þennan unga mann. Þá fékk hann bækur um þessa skóla, og í Noregi einum skipta þeir skólar nokkrum tugum, sem eru hliðstæðir þeim skólum, sem hér er gert ráð fyrir. Við erum áreiðanlega einstakir og einhliða Íslendingar með okkar skólamenntun að því er þetta snertir, þó að við að sjálfsögðu höfum ýmsa tækniskóla, sem ég þarf ekki að rekja hér fyrir þessari hv. d. Við höfum tekið upp, eins og kunnugt er, héraðsskóla í sveitum, húsmæðraskóla og búnaðarskóla, en þessi hlið málsins hefur verið stórkostlega vanrækt, svo að ekki sé sagt algerlega vanrækt. Við vitum allir, að þeir möguleikar, sem menn nú eiga á því að afla sér menntunar á þessu sviði, og þær leiðir, sem nú eru opnar, eru þannig, að þær má telja lokaðar a. m. k. að hálfu leyti. Þess vegna efast ég ekki um, að á þessum skólum er eins mikil þörf og á nokkrum skólum, sem eru hér á landi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en vona og ég veit, að ef það er tekið til vandlegrar íhugunar, þá hlýtur það að ná samþykki allra þm.

Ég hygg, að málið hafi á síðasta Alþ. verið í iðnn., og óska ég, að því verði vísað þangað að lokinni þessari umr.