24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (3809)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það hefur verið rætt mikið um þetta mál. Flokksbróðir minn, hv. 3. landsk., fann hvöt hjá sér til þess að standa með flm. og mæla með frv., og skal ég ekki segja, hvaða ástæða er þar á bak við. Ég þarf ekki að draga fram þau rök, sem komu fram í n. og meiri hl. n. beygir sig fyrir. Mín undirskrift byggðist á því m. a., að þetta frv. stefnir ekki í rétta átt í iðnfræðslumálum.

Það hafa verið færð þau rök fram sem meðmæli með þessu frv., að ekki væru til menn, sem gætu byggt hús, smíðað húsgögn og annað, sem þarf út um hinar dreifðu byggðir landsins. Ég veit ekki, hve mikil rök eru fyrir þessum fullyrðingum. Undanfarandi ár hafa verið reistar margar byggingar í kauptúnum, þar sem búa undir 300 manns. Auk þess hafa verið byggðar ýmsar opinberar: gagnfræðaskólar og barnaskólar, íþróttahús, sundlaugar, prestsseturshús og aðrir embættismannabústaðir. Einnig má nefna húsabyggingar til iðnrekstrar. Ég veit, að fyrir þessum byggingum hafa staðið menn með fullkomna iðnþekkingu, og ég veit ekki til, að það hafi verið neinum vandkvæðum bundið að fá menn til þessa. Það, sem flm. á við, eru þá byggingar á einstökum bændabýlum á landinu. Nú veit ég ekki, hvað mikið er búið að byggja af nýtízku byggingum í sveitum landsins, en það eru sumpart skólabyggingar, prestssetur og sumpart aðrar byggingar, þar á meðal íbúðarhús og vönduð peningshús. Ég hef ekki orðið var við annað en það fengjust iðnlærðir menn til þess að stjórna verki við slíkar byggingar. Ég hef heldur ekki orðið var við, að þetta eitt út af fyrir sig hafi staðið sveitunum fyrir þrifum, eins og flm. vildi halda fram.

Það hefur réttilega verð bent á það af flm., að hér hafi verið varið milljónum og aftur milljónum til bygginga á undanförnum árum í sveitum landsins. En það er kaldhæðni örlaganna, að sá maður, sem telur sig fulltrúa sveitanna, skuli stefna að því og beita sér fyrir byggingarframkvæmdum, sem uppfylla ekki þær kröfur, sem almennt eru gerðar til traustleika og endingar, m. a. fyrir vanþekkingu þeirra, sem byggingarframkvæmdunum stjórna. Ég þekki dæmi um það, að það hefur orðið að rífa byggingar eftir 20 ár, sem byggðar hafa verið af slíkum mönnum, og hv. þm. getur ekki sem fulltrúi byggingardeildar og aðalráðamaður banka, sem lánar fé til þess að byggja, mælt með því, að slíkar byggingar rísi upp, sem ekki geta verið varanlegar fyrir komandi kynslóð. Ég skal ekki fara út í iðnaðarnámið, sem hann benti á. Það kann vel að vera, að hann hafi eitthvað fyrir sér í því, að það sé örðugt að koma mönnum í iðnaðarnám, en ég hygg þó, að það hafi ekki verið áberandi nú síðustu 4 árin. Það var erfitt fyrir styrjöldina, en hefur rýmkazt mjög mikið, og ef nýja iðufræðslulöggjöfin, sem nú liggur fyrir, gengur í gegnum þingið, þá geri ég ráð fyrir því, að iðnfræðsluráð hafi full tök á því að segja fyrir um, hvað þörfin er mikil fyrir iðnaðarnám í landinu, bæði fyrir þessa iðnfræðslugrein og aðrar. Það þýðir ekki að vitna í tímann, sem liðinn er, þegar möguleikar eru til batnandi ástands í þessum efnum. Það hefur verið vitnað hér í umsögn Landssambands iðnaðarmanna af hv. 3. landsk., en hann las ekki setningu, sem ég vil leyfa mér að lesa upp. Þar segir: „Iðnaðarmenn geta þessir menn ekki kallazt og fá engin iðnréttindi, nema þeir gerist nemendur hjá meistara og læri á venjulegan hátt.“ Það er þetta, sem rétt var að lesa upp líka, því að það, sem þeir meina, er það, að það er að myndast þarna önnur stétt, sem mætti kalla iðnaðarmenn, en er annar flokkur iðnaðarmanna, sem koma má inn á vinnumarkað þeirra manna, sem hafa full réttindi. Það er því rétt, sem hv. frsm. n. segir, að reynslan er sú, að menn úr sveitum leita til bæjanna til þess að vinna af því m. a., að þeir fá þar betur borgaða vinnu sína í mörgum tilfellum, svo að það er ekki þetta, sem mestum vandkvæðum veldur með að byggja í sveitum, að það séu ekki til menn, heldur hitt, að þeir draga við sig að fara út í sveitirnar, ef vinna er til í bæjum og kauptúnum. Hins vegar skal ég ekki blanda mér í þá kenningu, hvort það verði heppilegt í framtíðinni að hafa fast skólanám, en leggja niður meistarafræðsluna. Það má vera, að í framtíðinni þyki sú leið heppilegri, en hins vegar er enginn vafi á því, að það verður kostnaðarsamt fyrir ríkið að kosta alla slíka fræðslu í skólum. Ég get ekki látið hjá líða að benda á, að í frv. er stefnt að vissu marki með því að fara út í tveggja ára nám, ekki lengra en það er eftir 12. gr., en þar er gert ráð fyrir, að verklegt nám reglulegra nemenda sé 3900–4200 vinnustundir alls þessi 2 ár, sem þýðir 488 vinnudaga þessi tvö ár í fyrra tilfellinu, en 525 vinnudaga í seinna tilfellinu. Frv. gerir að vísu ráð fyrir því, að skyldunámið geti farið upp í 10 stundir á dag, og svo kemur rúsínan: Nemendur eiga að hafa frítt fæði, húsnæði og tvennan vinnuklæðnað á ári, en þeir fá ekki greitt kaup, fyrr en þeir eru búnir að vinna 3200 vinnustundir. Það var verið að tala um þræla hjá iðnmeisturum, en ég sé ekki betur en hér sé um þrælahald að ræða. Þeir eiga að fá æfingu og leiðsögn í því að byggja hús í sveitum, og sennilega á að byggja í sveitum með kauplausum verkalýð í þessum efnum, og þá skilur maður, hvert stefnt er með þessu frv. Það er hægt að fá ódýrar byggingar í sveitum, ef það er hægt að fá menn til að vinna kauplaust, en þetta felst í 12. gr. frv. Þykir mér það mjög merkilegt, að hv. 3. landsk. skuli vilja stuðla að slíkri ráðsmennsku, þótt í skóla sé. En hitt er meira atriði, sem ég legg mesta þýðingu í, og það er það, að iðnstéttirnar, jafnt meistarar, sveinar og nemar, eru allir á einu máli um það, að það sé varhugavert að fara inn á þá braut að búa til stétt við hliðina á lögleyfðum iðnstéttum, og mæla þeir því gegn slíku fyrirkomulagi. Við lifum á þeim tímum, þegar sérfræðiþekkingin á að vera í heiðri höfð, og ég verð, með allri virðingu fyrir hv. flm. og 3. landsk., að segja það, að ég legg meira upp úr dómi iðnstéttanna í þessum efnum en þeirra dómi.

Það er ekki hagsmunaatriði iðnstéttanna að mæla á móti frv. Þær hafa ekki hag af því, að skólafyrirkomulagið sé eins og það er nú, og meistarar hafa heldur ekki hag af því. Ég hef orðið þess var, sérstaklega í löggjöf Norðurlanda, að þar byggir löggjafinn yfirleitt í svona málum á sérfræðilegri þekkingu iðnstéttanna um úrlausn slíkra mála sem þessara. Þeir láta iðnstéttirnar undirbúa málin, og það er aðeins form að láta lögfesta þau á löggjafaþinginu, en þar koma ekki einhverjir menn og segja: Við höfum meira vit á þessu en iðnstéttirnar.

Það má vel vera, að í Noregi séu til iðnskólar, ég skal ekki bera á móti því, en það er ekki alveg sama, hvort það er 4 milljóna þjóð, sem er að byggja upp stétt þar í landi, eða hvort það er 120 þús. þjóð. Þeir hafa ráð á því að hafa þetta fjölbreyttara en við.

Þá vitnaði hv. 3. landsk. í Ameríku, en ég veit ekki, hversu fróður hann er um það, hvernig fyrirkomulagið er í Bandaríkjunum eða í Kanada. Það er alltaf hægt að fullyrða og segja: Svona er það, án þess að menn hafi nokkuð fyrir sér, og ég dreg í efa, að hv. 3. landsk. hafi nokkra þekkingu á því, hvernig það er með iðnréttindi í Vesturálfu, og það eitt hef ég heyrt iðnfróða menn segja, að hvarvetna sé þetta að færast í það horf, að iðnstéttirnar séu að fá meiri réttindi en áður. Hitt er annað mál, að við getum margt lært af Bandaríkjamönnum, en ég býst við því, að það, sem við þurfum að læra af þeim, sé fyrst og fremst tekníska hliðin á hlutunum. Ég get ekki séð, eins og málið liggur nú fyrir, að endurbætt verði það skipulag, sem gilt hefur um nokkra áratugi í þessum efnum, með því að setja upp slíka, skóla sem hér er gert ráð fyrir, sem við vitum ekki, hvað mikið verða sóttir, og eiga að veita réttindi móts við hina skólana, því að enginn mun ganga þess dulinn, að menn, sem koma af þessum skólum, þeir munu koma til bæjanna og segja: Við erum jafngildir til að vinna að þessum störfum eins og bið þ. e. þeir sem hafa réttindi samkvæmt iðnfræðslulöggjöfinni. Í þessu liggur hætta á ágreiningi innan þessara stétta. Það er hvergi séð fyrir því, að þessir menn geti jafnazt á við hina, sem gengið hafa á iðnskóla og hlotið það nám, sem iðnfræðslulöggjöfin ætlast til, að þeir hljóti. Ég tel því, að ekki sé neitt óvenjulegt eða óviðkunnanlegt í því að vísa þessu máli frá með rökst. dagskrá, og mér kemur kynlega fyrir sjónir, að jafnvel hv. 3. landsk., sem telur sig bera fyrir brjósti allt það, sem heitir réttindi verkalýðsins, að hann skuli vilja á þennan hátt fara að skerða réttindi iðnstéttanna, eins og hér er verið að gera. Þess vegna er það dálítið undarlegt fyrir mér, að hann skuli gerast talsmaður fyrir þessu frv.