24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (3811)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég ætla að segja hv. 1. landsk. sögu af einum iðnaðarmanni hér í bænum. Hann stundaði iðnaðarnám í skóla í Noregi og útskrifaðist þar og fékk öll réttindi til að vinna þar í landi, síðan kom hann hingað heim, en hér fékk hann engin réttindi, nema hann færi í nám hjá meistara. En eftir mikið þjark var samþ., að hann þyrfti ekki að vera nema 1 ár hjá meistara. Svona reyndist iðnskólinn þar. Svona litu Íslendingar á þetta. Svona lítur hv. 1. landsk. á þetta, og svona lítur hv. þm. Barð. á það. Þó að menn fari í iðnskóla hér á landi eða annars staðar og læri það sama og talið er, að iðnaðarmönnum sé kennt á 4 árum hjá meistara, þá er það álitið, að það séu einhverjir fúskarar. Þessir menn hafa ekki trú á öðru en meisturunum, og það er það, sem okkur greinir á um. Þó að hv. þm. Barð. komi hér fram á þennan veg, þá viðurkennir hann í hjarta sínu, að skólar kenna mönnum betur en meistarar. Aftur á móti viðurkennir hv. 1. landsk. ekki þetta, því að hann er á annarri línu. Ég held, að hv. þm. Barð. misskilji orðið búhagur eða vilji leggja allt aðra merkingu í það orð heldur en almennt hefur verið gert fram að þessu. Þessum skóla er ekki ætlað að gera menn búhaga, það er bændaskólunum ætlað að gera. Honum er ætlað að gera menn meira en búhaga. Honum er ætlað að gera menn að iðnaðarmönnum, svo að þeir geti tekið að sér sjálfstætt iðnaðarverk. Þá hélt hv. þm. Barð. því fram, að enginn skortur væri á iðnaðarmönnum, þeir væru nógir til að fullnægja eftirspurninni, er skapaðist með húsagerðarsamþykktunum. Ég get sagt honum, að síðan húsagerðarsamþykktirnar komust á, þá man ég sérstaklega eftir fjósum, sem ekki hafa komizt í framkvæmd, af því að það vantar menn. Þess vegna leit ég svo á, að þörfin á þeim mönnum, sem gert er ráð fyrir, að til verði eftir þessum l., sé svo brýn, að sjálfsagt væri að koma þessum skóla upp í sveitunum. Ég lít ekki á þessa menn sem neina fúskara. Ég hef trú á því, að þeir verði fullkomlega á borð við suma af þeim, sem læra hjá meisturum. Ég hefði getað bent á það, eins og hv. þm. Barð., að það hafa verið byggð hús og það af meisturum, sem ekki hafa staðið nema 20 ár. Það má finna hús byggð af meistara, sem leka, svo að fólkið verður að hafa undir lekanum, ef skúr kemur úr lofti. Það er alls staðar hægt að finna mistök, eins þar sem meistarar hafa verið að verki. Hv. þm. Barð. og hv. 1. landsk. töluðu um það, að ríkissjóður kastaði milljón á milljón ofan í það að byggja upp sveitirnar. Mér er ekki kunnugt um þetta. Við samþ. lagafrv. á þinginu í fyrra, þar sem lagt var til, að lánsstofnun lánaði sveitunum alveg á sama hátt eins og lagt var fyrir lánsstofnun að lána fé til iðnaðarmanna og útgerðarmanna, en þetta var ekki neitt framlag ríkissjóðs út af fyrir sig. Það var veittur byggingarstyrkur til endurbygginga í sveitum, en það er horfið, hann er ekki veittur lengur. Hafi hv. 1. landsk. átt við það, þá er það gamli tíminn, sem hann talar um, hann getur kannske vitnað í hann. Þegar þeir því tala um milljón á milljón ofan, þá er það ekkert annað en fjarstæða, sem þó mætti kannske réttlæta með því, að sveitirnar hafa fengið stofnfé til að kaupa verkfæri, en það eru ekki neinar milljónir. Ég hef trú á því, að eins og það er hægt t. d. í Noregi að kenna iðnaðarmönnum í 2 ár í iðnskóla, svo að þeir verði fulllærðir iðnaðarmenn og fái réttindi, þá sé þetta líka hægt hér á landi. Ég hef enga trú á því, að Íslendingar séu það tornæmari heldur en Norðmenn, að þeir geti ekki lært að vera iðnaðarmenn á 2 árum alveg eins og þeir. Og þá er bara að koma þessum skóla þannig fyrir að veita sömu kennslu og veitt er í norskum skólum. Við verðum hiklaust að vinna að því að koma okkar iðnfræðslu í það horf að láta skóla annast kennsluna, og það getum við gert með því að samþ. þetta frv. Það er sóun á tíma að láta menn vera 4 ár hjá meistara, þar sem þeir verða þó ekki betri en margir, sem lítið eða ekkert hafa lært. Það verður að reyna að komast af með sem stytztan tíma til þess að gera hvern mann sem bezt færan í sínu starfi og til þess að fá starfstíma þeirra sem lengstan fyrir þjóðfélagið.