25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (3816)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. — Það er nú búið að ræða þetta mál mikið, bæði í gær og í dag, og hef ég ekki miklu við þær umr. að bæta. Ég vildi þó drepa á eitt atriði, sem mér virðist mönnum mikið til hafa gleymzt. Hv. þm. Str. gat þess þó lítillega. En þetta atriði, sem ég hygg, að beri að athuga, er það, að ég álít, að þessa umræddu iðnþekkingu megi öðlast að mestu leyti í gagnfræðaskólunum. Á s. l. ári voru samþ. hér á Alþ. lög um gagnfræðaskóla. Þar er svo fyrir mælt, að þeir skuli skiptast í tvær jafnhliða deildir, verknámsdeild og bóknámsdeild. Lög þessi hafa ekki enn komið til framkvæmda, og hræddur er ég um, að iðnskólar í sveitum dragi mjög úr framkvæmd laga þessara.

Hitt er svo annað mál, að brýn þörf er fyrir fullnuma iðnaðarmenn í sveitum landsins, en þeirri þörf ætti að verða fullnægt með fullnuma iðnaðarmönnum, hvaðan svo sem þeir kæmu.

Í frv. er svo ráð fyrir gert, að skilyrði fyrir skólavist sé, að nemandi hafi verið einn vetur í héraðsskóla eða gagnfræðaskóla, og II. einkunn gerð að lágmarkskröfu fyrir kunnáttu hans. Við héraðsskólana eru smíðadeildir, og er þar nokkuð mismunandi kennsla. Einna mest er hún við héraðsskólann á Laugum, og hefur hún sýnt sig vera til mikils gagns nemendum. Ég býst við, að einhver kunni að segja, að gagnfræðaskólarnir geti aldrei komið að fullum notum við kennslu í verklegum greinum, meðan kennsla fer aðeins fram á vetrum, en nú er enginn kominn til að segja, að hún geti ekkí haldið áfram sumarlangt í þessum greinum.

Hv. þm. Str. gat þess, að hann teldi nemendur í gagnfræðaskóla of unga til þess að stunda iðnnám, þar eð flestir væru aðeins 14–15 ára, þegar þeir settust í 1. bekk gagnfræðaskóla. Þetta taldi hann ástæðu fyrir því, að gagnfræðaskólar væru ekki heppilegir til iðnnáms. Nú er svo ráð fyrir gert, að miðskólaprófi ljúki nemendur um það bil 15 ára gamlir. Vafalaust mundu það verða margir nemendur, sem að því prófi loknu héldu ekki áfram námi, heldur hættu ýmissa hluta vegna um 1–2 eða jafnvel 3 ára bil og byrjuðu þá nám við gagnfræðaskóla, og væri þá fallin brott og að engu orðin þessi ástæða.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að sinni. Ég sakna þess, að í hinni rökst. dagskrá, sem fylgdi nál. meiri hl. fjhn., kemur ekki fram nein ósk um, hvenær ríkisstj. láti koma til framkvæmda lögin um verknámsdeildir við gagnfræða- og héraðsskóla. Ég vil því leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að bera fram skrifl. brtt. við hina rökst. dagskrá. Niðurlag till. á eftir orðunum „koma til framkvæmda“ hljóði svo: beinir deildin því til ríkisstjórnarinnar að láta eins fljótt og mögulegt er hefja kennslu með líku sniði og um getur í frv. þessu við einn eða fleiri gagnfræðaskóla í sveit og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.