25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (3818)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Björn Kristjánsson:

Hv. 1. landsk. talaði hér í gær og brýndi mjög raustina og ásakaði sinn kæra flokksbróður, 3. landsk., um, að hann gætti illa hagsmuna hinna vinnandi stétta, þar sem hann styddi frv. hv. þm. Str., sem hann taldi að í sér fæli, að nemendur yrðu að vinna kauplaust, og kallaði hann það þrælavinnu. Það mátti skilja það á ræðu 1. landsk., að nemendum þeim, er ynnu hjá meisturum, byðust ólíkt betri kjör. Ég var ekki svo kunnugur því í gærdag, en í gærkvöldi vildi svo til, að ég hitti að máli bónda einn úr kjördæmi mínu, sem hafði í hyggju að senda son sinn til iðnaðarnáms hjá meistara hér í Reykjavík. Hann fór því að kynna sér þau kjör, er nemendur fengju hjá meisturum hér, og leitaði upplýsinga hjá náfrænda sínum, sem hefur stundað iðnaðarnám hér tvö undanfarin ár. Hann fékk að sjá kaupsamning hans, og mun ég lesa hér upp aðalatriði samningsins, með leyfi hæstv. forseta. Þessi unglingur var duglegur og lagtækur og hafði nokkuð kynnzt á heimili sínu því starfi, er hann nú fór að stunda nám í. En kaupið, sem hann átti að fá, var á 1. ári 42 krónur á viku, á 2. ári 50,40 kr., á 3. ári 59,00 kr. og á 4. ári 67,20 kr. Það kann að vera, að hér sé átt við grunnkaup, en jafnvel þótt verðlagsuppbót væri greidd á þetta kaup, þá eru kjörin ekkert glæsileg og langt frá því að sýna það Gósenland, sem hv. 1. landsk. boðaði. Þá var það upplýst af hv. þm. Barð., að oft og tíðum séu iðnnemar látnir vera sendisveinar fyrsta árið, og veit ég ekki að hvaða gagni það kemur verðandi iðnaðarmönnum að hlaupa með bréf og skilaboð um bæinn. Annað árið, sagði þessi sami hv. þm., fer svo oft í að moka skít og sópa gólf, en fyrst á 3. ári byrjar námið. Ef þetta eru réttar upplýsingar, sé ég ekki, að það sé neitt sérstaklega glæsilegt fyrir iðnnema að stunda nám hjá meisturunum. Annars er óþarfi að ræða þetta frv. mikið meira. Þau rök, sem andstæðingarnir hafa lagt fram, eru næsta veigalítil, en formælendur frv. hafa hins vegar gert svo glögga grein fyrir því, að fáu þarf þar við að bæta. Ég vildi þó aðeins benda á mótsagnirnar í málflutningi þeirra hv. þm., sem andmælt hafa þessu frv. Hv. 1. landsk. viðhafði mörg orð um það, að til einskis væri að koma á fót iðnskóla í sveit, þar sem engir mundu sækja hann. Litlu síðar komst svo þessi sami hv. þm. að þeirri niðurstöðu, að háværar kröfur mundu koma fram um að fá slíka skóla í hverjum landsfjórðungi. Það er merkilegt, að maður, sem setið hefur svo lengi á þingi, skuli viðhafa slíkan málflutning. Ég held og, að engin hætta stafaði af því að fá sem flesta slíka skóla. Stefnan hefur verið og er sú að veita hverjum þjóðarþegni sem fyllsta fræðslu og menntun, og þegar talað er um kostnað, sem af því kynni að leiða, þá ættu menn að minnast þess, að í fræðslulöggjöfinni, sem afgr. var hér í fyrra, var ríkinu gert að leggja fram milljónatugi til skólabygginga og skólahalds. En svo þegar á að setja á stofn iðnskóla í sveit, þá á ríkiskassinn að vera tómur og engin leið til að bæta úr þessu vanda máli sveitanna, samtímis því sem talað er um, hve lágt við stöndum í tæknilegri menntun. Hv. þm. sagði í gær, að þeir nemendur, sem kæmu af þessum skólum, mundu ekkert kunna og hélt því fram, að bændur gætu fengið iðnaðarmenn úr bæjum til að sjá um byggingarframkvæmdir (SÁÓ: Ég held, að hv. þm. blandi hér saman mínum orðum og annarra.) Það getur verið, og ef svo er, bið ég afsökunar á því, en mér er kunnugt um, að bændur geta oft ekki fengið iðnaðarmenn, og þó svo sé, þá eru þeir allt of dýrir fyrir þá. Bændur geta oft ekki fengið annað vinnuafl en nágranna sína, sem alltaf öðru hvoru eru bundnir við bústörfin heima hjá sér og geta því ekki stundað vinnuna að staðaldri. Vilja svo hv. þm. halda því fram, að það beri sig fyrir bændur að fá iðnaðarmann úr kaupstað og hafa hann á fullu kaupi, meðan hann bíður eftir hinu stopula vinnuafli, sem nágrannar hans geta látið í té, því að oft er ekki kostur á annarri vinnu. Það þarf að fá lærða iðnaðarmenn, sem búa úti í sveitunum, og að því stefnir þetta frv. Ef það verður fellt, þá er alls enginn möguleiki til að byggja upp í sveitunum. Frávísun þess jafngildir því löggjöf um að leggja heilar sveitir í auðn. Ég hef áður sagt, að ekki væri þörf á að ræða þetta frv. miklu nánar. Ég stóð aðallega upp til að gefa upplýsingar um kaupið, sem iðnsveinar fá hjá meisturum hér, það kaup og þau kjör, sem hv. 1. landsk. var svo ánægður með í gær.