25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (3819)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Ef hæstv. forseta þykir nú orðið mikið mælt um þetta frv., bið ég hann að minnast orða hv. flm., er hann sagði í gær, að aldrei hefði verið flutt á þingi svo merkilegt frv. Er því ekki að undra, þótt mörg og merkileg orð kunni um það að falla. En ég vildi benda hv. flm. á, að það, sem mestum erfiðleikum veldur um afgreiðslu þessa máls, er það, að hann blandar saman í frv. tveimur óskyldum málum. Bak við frv. stendur tvennt. Annað atriðið er að bæta úr vöntun á kunnáttumönnum í sveitunum, en sú vöntun er reyndar víðar en þar, og má sjá af hagskýrslum, hve mikið fé er greitt erlendum iðnaðarmönnum, er hér eru nú. Og einmitt vegna skorts á iðnaðarmönnum í kaupstöðum, soga þeir til sín iðnaðarmenn sveitanna, af því að í kaupstöðunum bjóðast betri kjör. Hv. flm. hélt því fram, að með dagskrártill. vildu þm. kasta þessu nauðsynjamáli frá án þess að benda á nokkrar leiðir til úrbóta. En það hefur verið bent á leiðir og gerðar tilraunir til úrbóta, og leiðin var sýnd með húsagerðarl., þar sem skapaðir eru möguleikar til að byggja fleiri hús með minna liði, en hv. flm. lokar augunum fyrir því. Þar er gert ráð fyrir ódýrari byggingarframkvæmdum með notkun véla, en ekki með því afturhaldsfyrirkomulagi, sem hv. þm. N-Þ. talaði um, þar sem hann gerði ráð fyrir, að bændur stunduðu byggingarframkvæmdir í hjáverkum, þegar þeir hefðu ekkert annað að gera. Hinn aðalþáttur þessa frv. er svo sá, að hv. flm. vill brjóta niður það lögverndaða iðnfræðslukerfi, sem nú er. Hann vill þó ekki, að þær breyt. nái nema til sveitanna fyrst í stað, en auðheyrt var, að hann vill, að það nái einnig til kaupstaðanna síðar. Þegar hv. flm. játaði þetta, snerust menn á móti. Það væri því æskilegt, að hann greindi þessi tvö höfuðatriði frv. að, því að þessu má ekki blanda saman. Það má vafalaust fá samkomulag um tilraunir til þess að bæta núverandi iðnfræðslukerfi, enda tel ég það síður en svo gallalaust, en það verða aldrei neinir iðnaðarmenn, sem læra 4 eða 6 fög á stuttum tíma. Ef tímanum yrði varið til náms í einni iðngrein, væri öðru máli að gegna. Viðvíkjandi iðnfræðslu í Bretlandi, þá er þar miðað við viss stig í iðngreininni, og þar er mönnum veitt fræðsla til að verða undiriðnaðarmenn. En þeir, sem læra margar greinar á stuttum tíma, geta aldrei staðið fyrir vandasömum verkefnum. Ég mótmæli því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, er hann hélt því fram, að engu fé væri varið úr ríkissjóði til bygginga í sveitum. Ég leyfi mér að benda á, að á fjárl. fyrir 1946 er veitt ekki minna en 500 þús. kr. í byggingastyrk og 300 þús. kr. til byggingar- og landnámssjóðs, en mikið af því fé fer í byggingarframkvæmdir, og á frv. til fjárl. fyrir árið 1947 er lagt til að veita 300 þús. kr. byggingastyrk, og landbrh. upplýsti á fundi í fjvn., að þar þyrfti að bæta við 200 þús. kr. Þá er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að veita 2 ½ milljón kr. í byggingasjóð og auk þess aðrar 2½ millj. í byggingar- og landnámssjóð. Það er því hreinasti óþarfi að halda því fram, að engu fé sé varið til bygginga í sveitum. En það er jafnóverjandi að láta þær byggingar verða í höndum fúskara, sem óhjákvæmilega verður, ef þetta frv., sem hér um ræðir, verður óbreytt að l. Hv. flm. tók iðnfræðslukerfið í Noregi máli sínu til stuðnings. En engin gögn um fyrirkomulagið í Noregi liggja fyrir, og tel ég það hreina vanrækslu, ef hann leggur þessi gögn ekki fram, því að aldrei hafa þau komið fyrir n. Ég tek því mátulega fullyrðingar hv. flm. og hv. 1. þm. N-M. um þetta atriði. Hv. flm. lagði mikla áherzlu á, að þessir iðnskólar ættu að taka við af verknámsdeildum gagnfræðaskólanna, en það geta nú orðið 4 ár, þangað til reynsla hefur fengizt af þeim. Þó ég leggi ekki svo mjög mikið upp úr fyrirkomulagi á Norðurlöndum, því að ekki er víst, að okkur henti það alltaf, þá skal ég upplýsa, þar sem alltaf er vitnað til Norðurlanda, að þar fæst enginn unglingur til að fara í verknámsdeildirnar og engir foreldrar vilja láta börn sín fara í þær, því að það er talinn hreinn tossastimpill á hverju barni að fara í slíkt nám. Ég er fús til að taka meginatriði þessa máls til vandlegrar athugunar, hvenær sem er, ef hv. flm. vill leggja á sig það erfiði að krystallisera það svo, að það sé berandi fram. Þá má taka til rækilegrar athugunar, hvort ekki megi bæta úr iðnfræðslufyrirkomulaginu um allt landið og bæta einnig úr iðnaðarmannaskortinum í sveitum. Það getur komið undir væntanlegt fjárhagsráð, sem mundi ákveða fjármagn og vinnuafl í því skyni, og gæti það orðið skjótasta leiðin til úrbóta og betri en að koma upp skóla. Hvað viðvíkur sjálfri dagskrártill., sem hv. 3. landsk. lýsti svo skemmtilega í gær og kvað eitt merkilegasta plagg, sem fram hefði komið á Alþ., þá leyfi ég mér að halda því fram, að ef hann les þetta plagg vandlega, þá muni hann sjá, að þetta er ekki óeðlileg afgreiðsla af hálfu n. Úr sumum þáttum frv. er leyst í öðrum skólum, svo sem gagnfræðaskólum og búnaðarskólum. Þá er það og eðlileg afgreiðsla á hinum þætti frv., sem miðar að því að gerbreyta því iðnfræðslukerfi, sem meiri hl. þings vill viðhalda, og því ekki eðlilegt, að n. leggi til breyt. Sé ég því ekki neitt óeðlilegt við dagskrártill. Við því mátti hins vegar búast, að hv. 3. landsk. mundi taka slíka afstöðu, því að hann hefur tilhneigingu til að snúa út úr öllu hér á þingi og umturna ræðum og till. og fá aðra meiningu út úr þeim en allir aðrir. Því kemur mér ekki á óvart, þótt hann reyni að gera þessa dagskrártill. hlægilega. Og ég fylgi ekki breyt. 8. landsk., því að í l. er skipun um þessa framkvæmd.

Ég mun svo láta hér staðar numið og ekki tefja umr. um þetta frekar.