03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (3827)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það eru nú orðnar langar umr. um þetta mál, og ég hafði ekki sérstaklega hugsað mér að taka þátt í þeim. Ég fer því ekki langt út í einstök atriði í ræðum manna. Það er aðeins eitt atriði, sem mjög hefur verið hamrað á af forsvarsmönnum frv., sem ég vil leitast við að svara, og það er það, sem hv. flm. og hv. 3. landsk. hafa haft stór orð um, að þeir, sem flyttu hina rökst. dagskrá hér, þá m. a. ég, sýndu með því, að þeir væru fjandsamlegir umbótum á iðnfræðslunni í landinu og vildu ríghalda í stirðnuð form þeirrar fræðslu, meistarakennslufyrirkomulagið. Ég vil algerlega mótmæla því, að afstaða mín til hinnar rökst. dagskrár mótist af því, að ég sé fjandsamlegur umbótum á iðnfræðslunni, það er þvert á móti. Ég gat þess við umr. um iðnfræðslufrv. hér fyrir skömmu, að ég væri sízt á móti þeirri breyt., að iðnfræðslan færi fram í skólum samhliða kennslu hjá meisturum. En þetta frv., sem hér er nú til umr., er enginn mælikvarði á það, hvernig iðnfræðslunni verður hagað, því að það breytir ekki iðnfræðslulöggöfinni og raskar því ekki fyrirkomulagi iðnfræðslunnar. Og ekki auðveldar það þeim, er stunda iðnnám, að öðlast iðnréttindi, því að nemendum úr þessum skóla er ekki ætlað að öðlast nein iðnréttindi þrátt fyrir skólagöngu sína, enda var það svo í upphafi, að flm. þessa frv. mælti fyrir því á öðrum grundvelli en nú er gert. Þá talaði hann um, að þessi skóli væri nauðsynleg aðgerð til að bæta úr neyðarástandi í byggingarmálum sveitanna og með því að koma honum upp yrði unnt að fá menn til að standa fyrir byggingum, sem væru að einhverju leyti betur að sér en nú gerist. En á því stigi málsins hélt hann því ekki fram, að þetta frv. hefði í för með sér umbætur á iðnfræðslunni í landinu, enda er það alveg ljóst og liggur í hlutarins eðli, að enda þótt iðnfræðsla í skóla kynni að vera betri í sjálfu sér og þótt meistarakennslunni væri ábótavant, eins og ég býst við, að megi segja, þá væri útilokað, að árangur yrði betri af því að kenna 5–6 námsgreinar á tveimur árum en eina námsgrein á helmingi lengri tíma. Jafnvel þótt meistarakennslunni sé ábótavant, næst varla betri árangur með því að grauta þannig saman námsgreinum. Og auk þess er þessi leið útilokuð vegna þess, að hún felur ekki í sér neinar breyt. á fyrirkomulagi iðnfræðslunnar, eins og ég sagði áðan. Nemendur þessa skóla öðlast engin réttindi. Og þetta álit er í rauninni mjög stutt af öllum umsögnum, sem n. hafði borizt um þetta frv., t. d. umsögn Landssambands iðnaðarmanna. Þar er beint sagt, að nemendur úr þessum skóla verði ekki iðnaðarmenn. Til viðbótar þessari umsögn er samhljóða álit flm., þar sem hann treystist ekki til að mæla með því, að menn þessir öðlist réttindi. Ef forsvarsmenn þessa frv. álíta, að betri árangur náist með þessu móti, að betri iðnaðarmenn útskrifist úr þessum skóla en þeir, sem fyrir eru, þá ættu þeir, ef þeir vildu vera samkvæmir sjálfum sér, að beita sér fyrir því, að ákvæði um réttindi þeim til handa væru sett inn í frv., ella væri engin sanngirni í þessu. Og ég vil hér með skora á þá forsvarsmenn að beita sér þegar fyrir réttindum þessara iðnaðarmanna, ef þeir ætla að halda við þann málflutning sinn, að þeir verði betri iðnaðarmenn. Ef þeir treystast hins vegar ekki til að beita sér fyrir því, að ákvæði um réttindi verði sett í þetta frv., hörfa þeir frá fyrri málflutningi sínum, að þetta frv. feli í sér umbætur á fyrirkomulagi iðnnámsins eða iðnfræðslunnar í landinu. En ég held, að þeir hafi ekki þessa skoðun, heldur geri ég ráð fyrir, að þeir viti, að þetta nám verði ekki annað en kák og því ekki forsvaranlegt að veita nemendum úr þessum skóla iðnréttindi. Það verður að taka þetta mál eins og það liggur fyrir og eins og mælt var fyrir því í upphafi, að það væri fram komið til að bæta úr núverandi neyðarástandi í sveitunum í þessum efnum. Þannig lít ég á það, og við það miðast mín afstaða. Þetta álit felst líka í hinni rökst. dagskrá og enn þá betur í brtt. við hana á þskj. 453 frá hv. 8. landsk., þar sem lagt er til, að kennsla með svipuðu sniði og um getur í frv. verði sem fljótast tekin upp í einum eða fleiri héraðsskólum í sveit. Ég held, að með því fyrirkomulagi náist nokkurn veginn sami árangur og stefnt er að með frv., að bæta úr ríkjandi vandræðaástandi til bráðabirgða, en hitt verði að leysast í sambandi við endurskoðun iðnfræðslunnar almennt. Allir vita, að verið er að vinna að því verkefni af mþn. í skólamálum, og það er rétt að taka ekki afstöðu til umbóta á iðnfræðslunni, fyrr en álit hennar liggur fyrir. En þetta frv. hér felur ekki í sér neinar umbætur á iðnfræðslunni, það er aðeins tilraun til að bæta úr ríkjandi neyðarástandi í svipinn, og það verður bezt gert með því að samþ. hina rökst. dagskrá ásamt brtt. hv. 8. landsk. við hana.