03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (3828)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þær aths., sem gerðar hafa verið í þessu máli, eru nú orðnar mjög margvíslegar, og sé ég ekki ástæðu til að rekja þær. Ég vil þó aðeins minnast á það, sem sagt hefur verið um kjör nemenda í skólanum. Samkvæmt 12. gr. frv. tel ég það liggi skýrt fyrir þeim, sem vilja lesa, að kjörin eru þannig, að peningalaus nemandi getur fengið inngöngu í skólann og lokið þar námi sínu án þess að leggja sér til annað en vinnu sína í skólanum. Hverjum félausum unglingi er því opin leið að ganga í þennan skóla. Hann fær þar fæði, húsnæði, ljós og hita, nokkurn klæðnað og fjárgreiðslur fyrir yfirvinnu eða vinnu, sem unnin er fram yfir 8 klukkustundir. Auk þess geta nemendur unnið að sérstökum verkefnum fyrir sig utan vinnutíma og selt þá hluti, sem þeir gera þannig.

Ég skal svo aðeins víkja að öðru leyti að þeim mótbárum, sem fram hafa komið gegn málinu. Eftir því sem ég kynni mér betur skóla erlendis og fyrirkomulag þar, verð ég sannfærðari um, að við búum hér við fyrirkomulag, sem er með öllu óhafandi, og ég er viss um, að hv. 6. landsk., sem vill áreiðanlega sýna sanngirni, mundi einnig komast á þá skoðun, ef hann gerði þennan samanburð. Hv. 6. landsk. sagði að þetta frv. hefði ekki í för með sér neina breyt. á iðnfræðslunni í landinu, en ég skal nú koma að því síðar og færa rök gegn þeirri fullyrðingu hans.

Hér hefur komið fram sá reginmisskilningur, að löggjöf af þessu tagi ætti að vera í sambandi við þá breyt. á iðnfræðslul. almennt, sem liggur fyrir þessu þingi, og ekki sé nema um aðra leiðina að ræða, skóla eða meistaranám. Þetta hefur t. d. komið fram hjá hv. þm. Barð. Það hefur komið fram sá misskilningur, að ef það hefði átt að koma með löggjöf í þessa átt, þá hefði slíkt átt að vera í sambandi við breyt. á iðnlöggjöfinni, sem verið er að gera, og hafa beri iðnréttindin annaðhvort bundin við skólanám eða nám hjá meistara. Þetta hefur komið fram hjá hv. þm. Barð. Ég álít þetta reginmisskilning. Það er að mínu áliti ekki skólanám eða nám hjá meistara, sem hér á að koma til greina. Það er ekki skólanám í iðnfræðslunni eða meistaranám í iðnfræðslunni, það fyrirkomulag, sem hér á að ríkja. Það á að vera hvort tveggja. Það er að mínu áliti alrangt að ætla sér að leggja niður það gamla fyrirkomulag, sem verið hefur í þessum efnum.

Það er gamalt kerfi og þaulreynt hér í þessu landi. En það er jafnfráleitt að ætla sér að útiloka það, að það sé eitthvert kerfi við hliðina á því og að ungir menn geti náð sveinsréttindum eftir öðrum leiðum en því gamla fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum. Þess vegna er ekkert athugavert við það, þótt gamla fyrirkomulagið með meistarakennslu haldi sér og annað kerfi komi við hliðina á því.

Ég hef því miður ekki getað aflað mér upplýsinga um fyrirkomulag annars staðar í löndum í þessu efni, nema úr einu landi, og upplýsingarnar eru í skýrslu, sem ég hef góðfúslega fengið lánaða hjá ríkisstj. um fyrirkomulag í þessu efni í Svíþjóð. Það fyrirkomulag sannar einmitt það, sem ég hef verið að halda fram í þessu efni.

Það er annars dálítið eftirtektarvert, að sá maður, sem er hjá okkur eiginlega fremstur í öllu að því er snertir iðnað, Sveinbjörn Jónsson, hann hefur ekki náð iðnréttindum eftir þeim leiðum, sem lögboðið er nú í landinu. Hann vann með föður sínum, gekk síðan í einn af þessum iðnskólum eða kvöldskólum í Osló og kom svo hingað heim. En maðurinn er það duglegur og flinkur, að það kom vitanlega ekki til mála að neita honum um réttindi, þar sem hann var — kannske í fleiri en einni grein — fremri en meistarar hér — kannske á mörgum sviðum. Þetta er eitt dæmi um það, hvernig lífið sjálft knésetur reglugerðir í þessum efnum. Það er þetta sem maður er nú farinn að reka sig á. Það er líka talsvert eftirtektarvert, sem hér hefur verið haldið fram í sambandi við þetta mál. Ég má til að skjóta því hér inn í. Því er haldið hér fram, að það sé n. í skólamálum, sem eigi að rannsaka þessi mál, og hv. 6. landsk. þm. álítur, að svo eigi að vera. En hér er frv. um iðnlöggjöf á ferð í gegnum þingið, og líkur eru til þess, að það komist í gegn. Hvers vegna er það þá ekki stöðvað, fyrst talað er um að vísa þessu máli, sem hér liggur fyrir, frá á þeim grundvelli, að mþn. sé að rannsaka þessi mál í heild? Ég man ekki, hvernig hv. 6. landsk. þm. greiddi atkv. um það mál. Kannske vill hann vísa því máli frá, þangað til mþn. hefði tækifæri til að rannsaka iðnlöggjöfina í heild. En það, sem ég er sannfærður um eftir að hafa kynnt mér þessi mál lítillega, er, að það ætti að vísa því máli frá og rannsaka þessi mál öll nánar, a. m. k. ef þessu máli, sem hér liggur fyrir, verður vísað frá á þeim grundvelli.

Nú ætla ég með örfáum orðum að drepa á það fyrirkomulag, sem er t. d. í Svíþjóð í þessum málum. Og það mun viðurkennt, að ég hygg, að Svíar standi a. m. k. eins framarlega eins og nokkur önnur Norðurlandaþjóð — og jafnvel þótt til fleiri þjóða væri jafnað — í iðnaði. Eftir beiðni atvmrn. hefur maður, sem dvelur í Svíþjóð nú um eitt til tvö ár, kynnt sér, hvernig fyrirkomulagið er á þessum málum í Svíþjóð. Og við athugun á því, hvernig þessi maður gerir grein fyrir því, sjáum við fljótt, að það fyrirkomulag er með nokkuð öðrum hætti en hér hjá okkur og ekki eins bundið í skorðum og iðnaðarnámið hefur verið hér um skeið og eins og á að vera, ef sú löggjöf ræður, sem er nú á leið í gegnum þingið. Ég ætla ekki að lesa þessa skýrslu í heild, því að þótt hún sé ekki löng, tekur það of langan tíma. En sá maður, sem kynnt hefur sér þetta að beiðni ríkisstj., segir í stuttu máli þetta:

„Tréskipasmíðanemi er ráðinn til smíða á skipasmíðastöðinni sem hver annar smiður um óákveðinn tíma, venjulega ekki skriflega. Hann getur hætt námi eða farið á aðra skipasmíðastöð. Er hann hefur unnið þannig samanlagt eða á einum stað í 4 ár, er hann fullkominn iðnaðarmaður eins og hér; en sveinspróf er ekki haldið og þess ekki krafizt.“

Hér er það auðsjáanlega látið duga, ef meistarar sækja eftir manninum eftir að hafa reynt hann og telja hann til þess hæfan að starfa í viðkomandi iðn. Ég er ekki sérstaklega að nefna þetta sem fyrirmynd endilega, heldur til þess að sýna fram á, að þetta er yfirleitt ekki eins bundið hjá Svíum eins og hér, en Svíar eru þó vissulega formfastari en flestar aðrar þjóðir í byggingariðnaðinum.

Í þessari skýrslu stendur hér enn fremur: „Í byggingariðnaði var mér sagt, að námstilhögun væri eitthvað svipuð. Í stáliðnaðinum er handiðnaðarnámið svipað, en flest hin stærri stáliðnaðarfyrirtæki halda kvöldskóla fyrir þá iðnnema, sem óska þess að fá tekniska fræðslu og þá sérstaklega í þeirri starfsgrein, sem viðkomandi fyrirtæki hefur með höndum.“

Svo segir hann í skýrslunni: „Þá kemur flokkur iðnaðarmanna, sem fá sérstaka menntun. Það eru þeir, sem hin stóru iðnfyrirtæki mennta sérstaklega til þess að veita verkum forstöðu. Námið er í föstu formi og bundið við skóla fyrirtækisins og miðað við þá starfsgrein, sem þar er starfrækt. Lýsingin er í stuttu máli og tekin upp eftir frásögn ungs manns, sem tekur þátt í þessum iðnnámsflokki hjá stóru vélsmíðafyrirtæki. Flokk þennan mætti kalla, eftir því sem mér skildist á honum, fyrsta flokks iðnnema, sem hafa skyldur gagnvart fyrirtækinu, enda hefur það talsverðar skyldur gagnvart iðnnemunum. Ráðningartíminn er þrjú ár. Verklegt nám er 35 klst. á viku með góðri tilsögn í handiðnaðarfræðslunni. Bóklegt nám er 10 klst. á viku í tekniskri iðnfræðslu.“ . . . Eftir þessi þrjú ár eru þessir fyrsta flokks iðnnemar útskrifaðir. Svo stendur hér: „Námstíminn, 3 ár, virðist nokkuð stuttur, en hins vegar er þetta fyrirmyndarkennsla, og eftir að hafa starfað eitt til tvö ár frá því, að námstíma er lokið, eru þetta fyrsta flokks iðnaðarmenn.“

Hér er ekki talað um, að það þurfi til þess neitt prófi. Þau er ekki farið eins strangt í þetta eins og hér hjá okkur, að menn megi með naumindum taka próf, þótt þeir séu fullfærir í iðngreinunum, ef þeir eru ekki búnir að stunda nám hjá meistara í 4 ár. Hér sést af þessari skýrslu, að í Svíþjóð er það þannig, að menn eru fyrst ráðnir til þess að vinna hjá iðnfyrirtæki eða stofnun og fá svo eftir fjögur ár full iðnaðarmannaréttindi, þannig að þeir eru taldir fyrsta flokks starfsmenn.

Ekki er þar með búið. Þessi maður, sem hefur rannsakað þetta fyrir ríkisstjórnina, segir, að þann 28. ágúst 1945 fer hann til Uddevalla til þess að kynna sér Göteborgs och Bohusläns Landstings centrala Verkstadsskola Uddevalla. Hann skýrir frá því, að í skóla þessum séu 180 nemendur, — en það eru hátt á þriðja þúsund nemendur í öðrum iðnskóla í Svíþjóð, sem hann segir frá hér á eftir. Í þessum skóla er hægt að nema flestar eða allar iðngreinar. Og hann telur hér upp ýmsar þeirra. Þar eru margs konar verkstæði, vélaverkstæði, húsgagnaverkstæði, rafvirkjaverkstæði o. fl., og skólanum er skipt niður í mörg hverfi í bænum. Þetta er Göteborgs Stads Yrkesskolor. — En um Uddevallaskólann segir hann: „Námstíminn er 4 ár, sveinspróf er haldið að loknu námi.“ — Hér er þriðja fyrirkomulagið. — „Sveinar þessir eru mjög eftirsóttir. Sumarfrí er allur júlímánuður.“ Þetta segir enn fremur í skýrslu þessa manns um þessa skóla.

Svo kemur hér í Svíþjóð fjórða leiðin, sem ungir menn geta þar farið til þess að nema einhverja iðn. Hann segir frá því hér, þessi sami maður, sem sendur var af ríkisstj. til að kynna sér þessi mál í Svíþjóð, að 23. febr. 1946 hafi hann farið á fund rektors Göteborgs Stads Yrkesskolor, því að þar er reyndar um marga skóla að ræða með alls 2780 nemendur s.l. ár, vélskóla, húsgagnaskóla, rafvirkjaskóla, bifvirkjaskóla og matreiðsluskóla. Aðalskólinn er sex hæða hús, en auk þess er 21 deild á ýmsum stöðum í borginni fyrir mismunandi námsgreinar, svo sem sjómennsku, sem verður að vera staðbundin vegna sérstakrar kennslu. Hér segir í skýrslunni, að vélskólinn sé tveggja ára dagskóli, og nemar byrji 15 ára. „Að loknu þessu tímabili“, stendur hér, „eru þeir eftirsóttir af vélsmíðafyrirtækjum.“ Og þar kemur svar við því, sem hv. 6. landsk. þm. var að bera fram, að þetta er ekki breyt. frá iðnlöggjöfinni, ef miðað er við svona skóla. Svo er í skýrslunni: „Að loknu Yrkesskólanámi má telja allt að 3 árum, þar til piltarnir geta talizt fullkomnir sveinar.“ En eftir að hafa numið hjá þessu fyrirtæki, eru þeir fullkomnir iðnaðarmenn. Og ef menn, sem kæmu af skóla, þar sem þeir hefðu stundað svona tveggja ára nám hér, ynnu svo í tvö ár á eftir undir stjórn sér færari manna — eins og hv. þm. Barð. var að tala um, þ. e. ef hafðir væru eftirlitsmenn með húsagerð í sveitum — mundu þá ekki þessir menn vera þá orðnir fullkomnir iðnaðarmenn, sem stæðu jafnfætis öðrum iðnaðarmönnum? — Þessir skólar í Svíþjóð, sem ég hef talað um, eru að hálfu leyti eign Gautaborgar og að hálfu leyti eign ríkisins.

Að lokum tekur þessi maður fram í skýrslu sinni, að þessir skólar, sem eru mjög hliðstæðir þeim skóla, sem lagt er til með þessu frv., að stofnaður verði, hafi þrenns konar takmark: „1) Það er almenn tæknifræðsla, þannig að menn og konur geti betur hjálpað sér sjálf á heimilum og við almenn störf. 2) Skólinn er hin bezta tilraunastöð til þess að rannsaka, hvort ungur maður sé fær um eða líklegur til að verða iðnaðarmaður. 3) Undirbúningsnám fyrir iðnaðarmenn er þarna ágætt í mörgum starfsgreinum, svo sem í vélsmíði og fleiri iðngreinum, þar sem námið getur verið staðbundið.“

Ég er ekki í neinum vafa um það, að reynslan af þessum skóla, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., yrði sú sama og reynslan af þessum skólum annars staðar er, eftir því sem ég veit bezt. Ég veit, að Norðmenn hafa slíka skóla í tugatali. Og mér er sagt, að þeir séu einnig í Danmörku. En hvers vegna í ósköpunum eigum við Íslendingar þá ekki að fá einn skóla af þessu tagi hér? Erum við betur á vegi staddir með það fyrirkomulag, sem við höfum nú hér í þessum sökum? Erum við í sambandi við iðnfræðsluna hér í landinu, eins og hún er, einasta þjóðin á Norðurlöndum, sem hefur enga þörf fyrir svona skólanám í þessum efnum? Hvers vegna á að loka fyrir það?

Hv. þm. Barð. og hv. 6. landsk. þm. tala um, að það sé gert ráð fyrir, að þessir menn, sem af iðnskóla í sveit koma eftir þessu frv., fengju engin réttindi, og að þetta frv. grípi ekki inn í iðnfræðslulöggjöfina. Ég gerði ráð fyrir því, að það hefði ekki nokkra minnstu þýðingu að fara fram á, að breytt væri fyrirkomulaginu um meistaranám frá því, sem nú er. Ég veit, að það er haldið svo fast utan um þau réttindi, að mér hefur ekki dottið í hug að hreyfa við því fyrirkomulagi, og ég álít líka, að það fyrirkomulag eigi að haldast. En mér finnst allt of mikil þröngsýni, ef við megum ekki fá hér á Íslandi einn skóla, sem fær að sýna í framkvæmd, hvort náð geti tilgangi sínum á þann veg, sem gert er ráð fyrir í frv., eða svipaðan. Ef slíkur skóli væri stofnaður og niðurstaðan yrði sú, að þessi skóli ynni það gagn, að það sýndi sig, að þaðan kæmu iðnaðarmenn, sem stæðu fullkomlega jafnfætis þeim, sem útskrifaðir eru frá meisturum, þá veit ég, að þetta kerfi sigrar hér sem annars staðar í löndum, við hliðina á meistarakennslunni. Og það sannast, að þetta kerfi verður aldrei tekið upp með öðru móti heldur en þannig að gera í byrjun litlar kröfur til réttinda fyrir þetta skólanám, en fá leyfi til að sýna sig í framkvæmd og að ganga undir dóm reynslunnar. Og það hefur einmitt komið í ljós, að Svíar hafa haft þetta fyrirkomulag á sínum tveggja ára iðnskólum. Það er því rétt hjá hv. 6. landsk. þm., að þetta breytir ekki iðnlöggjöfinni í bráð. En ég er jafnsannfærður um það, að í framkvæmd verður þetta breyt. á iðnfræðslunni í landinu, vegna þess að ég er þess fullviss, að þetta fyrirkomulag mun reynast svo vel hér eins og annars staðar, að það verði okkur nauðsynlegt, og að sá lærdómur, sem menn öðlast í þessum skólum, öðlist jafnframt sína viðurkenningu, alveg á sama hátt og það er upplýst, að sá iðnaðarmaður, sem er mest fyrir iðnaðarmönnum hér, hann hefur ekki önnur réttindi en sem byggjast á því að vera útskrifaður úr svona skóla. (Samgmrh.: Hvað segir hann um þetta frv. hv. flm.?). Hæstv. ráðh. veit, að þegar menn eru búnir að fá réttindi, þá er það ekki rétta leiðin fyrir ríkið, frá almennu sjónarmiði í þjóðfélaginu, að fara til þeirra manna, sem hafa réttindi í þjóðfélaginu í einhverri grein, til að spyrja þá, hvað gera skuli til almennra þrifa fyrir þjóðfélagið í þeirri grein. (HV : Stundum man ekki kýrin, að hún hefur kálfur verið.) Ég hringdi fyrir ekki löngu til þessa manns, sem ég hef hér talað um, Sveinbjarnar Jónssonar, og spurði hann: „Hvaða menntun hefur þú? Hefur þú farið þessa lögboðnu leið til þess að fá réttindi í iðninni?“ Hann sagði með ákaflega miklu yfirlætisleysi: „Ég hef lélega menntun. Ég vann hjá föður mínum og var á kvöldskóla í Noregi.“ — Og þetta var einmitt sams konar skóli, sem hér er gert ráð fyrir í frv.

Ég beini því sérstaklega til þessarar hv. þd., að við skulum láta það fyrirkomulag, sem hér er nú, vera eins og það er um meistaranámið, en hafa svo það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., við hliðina á því, og prófa okkur áfram með þessa skóla, alveg eins og aðrar þjóðir. Og ég beini því einnig til hæstv. iðnrh., sem hér er staddur og hefur orð fyrir iðnaðarmönnum og mikinn áhuga fyrir iðnaðarmálum, hvort hann vilji ganga inn á að taka upp þennan þátt um iðnfræðsluna, að hafa þetta tvennt hlið við hlið hjá okkur, og þá einnig, hvort hann geti gengið inn á, að hér verði komið upp fullkomnum skóla, eins og Svíar hafa gert, ef honum þykir þessi skóli ekki nógu fullkominn hugsaður, þannig að nemendur frá þeim fullkomnari skóla heldur en hér er gert ráð fyrir fengju full meistararéttindi, bæði í sveitum og kaupstöðum. Ég beini því til þessa hæstv. ráðh., hvort hann vilji veita þessu máli inn í þann farveg, sem mætti vissulega gera með því að breyta frv. því, sem hér liggur fyrir, eða í öðru lagi ná þessu með því að breyta því frv., sem liggur nú fyrir hæstv. Alþ. um iðnaðarnám. En ég geri tæpast ráð fyrir, að meisturum verði ljúft að ganga inn á síðartöldu leiðina, og ég geri ekki ráð fyrir, að skólafyrirkomulag í þessum efnum, hliðstætt því, sem er t. d. í Svíþjóð í þessum málum, verði tekið upp hér hjá okkur, nema með því að gera þær litlu kröfur um réttindi fyrir þá menn, sem frá þessum skólum koma, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. En ég er jafnsannfærður um, að menn, sem kæmu úr svona skóla, yrðu fljótt góðir iðnaðarmenn, sem fengju viðurkenningu í dómi reynslunnar, eftir að þeir hefðu unnið að loknu skólanámi í eitt til tvö ár í iðninni. Og þessi maður, sem hefur verið látinn kynna sér þessi mál í Svíþjóð, segir, að sér virðist, að sænskum iðnaðarmönnum sé yfirleitt hagleikur í blóð borinn. En þar er almenn þekking mikil um iðnaðinn vegna þessara góðu skóla. Og hér í þessu frv. er ekki farið fram á annað en það, að við Íslendingar gerum það í iðnfræðslunni, sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa gert á undan okkur, að koma upp svona skóla, sem þær telja sig ekki mega án vera.

Að lokum vil ég segja þetta. Ég er sannfærður um, að ég er að flytja hér mál, sem er rétt, og að við í framtíðinni komumst ekki af án þess, að þessum skólum verði komið hér upp, alveg eins og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Og það er mjög mikil spurning, eins og hér hefur verið bent á, hvort þessar verknámsdeildir við gagnfræðaskólana eru ekki alveg skakkt spor. Það hefur einmitt verið bent á það hér af skólamönnum, sem telja sig hafa reynslu fyrir því, að einmitt þessar deildir hafi orðið tiltölulega gagnslausar deildir við þessa skóla í Danmörku. Þær hafa verið stimplaðar sem tossadeildir, og þessir menn, sem í þeim eru, fá engin réttindi. Þeir eru þarna af skyldu, vegna þess að þeir eiga erfitt með að stunda bóklegt nám. Og spursmálið er, hvort ekki eigi að taka allar þessar deildir út úr skólunum, þar sem einn maður er að fást við þessa kennslu, sem maður finnur alls staðar, að er aukaatriði með bóknáminu, sem er meira virt, og sameina þær í einn skóla. Það er atriði, sem ætti að athuga, eða a. m. k. það, hvort nemendur úr þessum deildum, ef þær eiga að halda sér, geta ekki fengið einhver réttindi til að komast í eitthvert annað iðnaðarnám, eins og nemendur úr bóknámsdeildum fá rétt til þess að komast í gegnum aðrar bóknámsdeildir, tröppu af tröppu, alveg upp í háskólann.

Nú hef ég lekið þessum aths. og lokið rétti mínum til þess að tala frekar í þessu máli, en vildi vona, að d. sæi sér fært að fella þessa rökst. dagskrá. En ef svo skyldi fara, að dagskráin yrði samþ., tel ég útilokað annað en að vísa einnig frá til athugunar frv. því um iðnaðarnám, sem nú liggur fyrir þinginu, og málið allt verði tekið til athugunar á miklu víðtækari grundvelli en hingað til hefur verið gert.