12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. og hefur hlotið þar afgreiðslu, eins og þskj. ber með sér. — Svo sem fram er tekið í grg., er þetta frv. borið fram til að afla ríkissjóði tekna til þess að inna af hendi nauðsynlegar fjárgreiðslur í því skyni að halda niðri verðlagi í landinu.

1. gr. fjallar um hækkun á vörumagnstolli, sem sé, að hann hækki af benzíni upp í 20 aura af kg í stað eins eyris. Með vörumagnstollinum í því formi og þeim benzínskatti, sem að öðru leyti er til í l., yrðu gjöld af benzíni alls 29 aurar af kg, og gegnir það furðu, hversu þessi benzíngjöld hafa lengi staðið í stað, þ.e. í 9 aurum að viðbættum eins eyris vörumagnstolli, svo sem raun ber vitni um, af því að kostnaður við vegaviðhald hefur vaxið svo gífurlega á síðustu árum, þannig að benzínskatturinn og kostnaður ríkissjóðs við vegaviðhaldið er orðið í mjög miklu ósamræmi. Ef litið er til nágrannalanda vorra, er þess að geta, að benzínskattur þar er miklu hærri, en hér hefur verið. Í Danmörku er hann t.d. 34 aurar, og ætla ég því, að hér sé öllu stillt í hóf. — Ég skal svo lauslega geta þess, að benzínskatturinn, eins og gert er ráð fyrir honum í þessu frv., og hækkun á bifreiðaskattinum samkv. því frv., sem afgr. var hér á undan, mun nema allmiklu lægri upphæð en áætlað er í fjárl., að vegaviðhaldið kosti á þessu ári. Mér þótti ekki fært að hækka skyndilega þessi gjöld, svo að þau næðu þeirri upphæð að standa algerlega undir vegaviðhaldinu, sem þau raunverulega þyrftu þó að gera. Í fjárlagafrv. þessa árs er gert ráð fyrir því. að vegaviðhald nemi 9 millj. kr., en vegamálastjóri hefur hins vegar sagt mér, að það sé ekkert annað en blekking fyrir Alþ. að áætla það lægra en 10 millj. kr. En því miður virðist ekki muni vera hægt að jafna þessar tvær upphæðir með þessum skatti, sem sé tekjur af benzín- og bifreiðaskatti og útgjöldin, sem vegaviðhaldið hefur í för með sér. Samt sem áður er með þessu stigið spor, þannig að þetta er fært í miklu skynsamlegra horf, en hv. Alþ. hefur látið það vera í mörg undanfarin ár, og bilið milli útgjalda og tekna á þessu sviði ætti að verða minna en verið hefur. Kostnaður við vegaviðhaldið reyndist vera síðastliðið ár yfir 11 millj. kr. og hefur meir en þrettánfaldazt á síðustu 8 árum.

Þá er gert ráð fyrir því í frv., að annar vörumagnstollur, en af benzíni — með þeim undantekningum, sem um ræðir í 3. gr. — hækki um 200%. Í grg. er sýnt fram á, hvað hlutfallið hefur verið milli vörumagnstolls og verðtolls síðustu 7 ár, og þær tölur, sem þar liggja fyrir, sýna, að t.d. árið 1940 hefur hlutfallið þarna á milli verið svipað; þá gefa þessir tveir tollstofnar, vörumagnstollur og verðtollur, ríkissjóði hér um bil sömu upphæð, en svo breytist þetta mjög mikið á hverju ári á eftir, og á síðasta ári nam vörumagnstollur rúmlega 141/2 millj. kr., en verðtollurinn aftur á móti rúmum 62 millj. kr. Samanburðurinn sýnir, að fyrst hefur vörumagnstollurinn numið sömu upphæð og verðtollurinn, en eftir því sem flutningsgjöldin hafa hækkað, hefur hlutfallið þarna á milli raskazt, eins og ég hef sýnt fram á með því að nefna þær tölur, sem ég áðan nefndi, og verðtollurinn hefur fjórfaldazt á móts við vörumagnstollinn. Undanþágur, sem gerðar eru hvað áhrærir vörumagnstollinn, snerta einnig tóbak og drykkjarvörur, og með því að það í fljótu bragði kann að sýnast undarlegt, vil ég geta þess, að ríkisvaldið hefur nýlega tryggt sér auknar tekjur af áfengi og tóbaki með því að hækka verzlunarálagningu á þessum vörum ríkissjóði í hag. Þótti því ekki rétt að leggja hærri vörumagnstoll á þessar vörur, en gilt hefur fram að þessu; hækkuninni hefur verið náð þar eftir öðrum leiðum.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að til ársloka 1947 — en í frv. er ekki gert ráð fyrir, að þetta fyrirkomulag gildi lengur en til ársloka 1947 — skuli innheimta verðtoll með 65% álagi með þeim undantekningum, sem um ræðir í 3. gr., og þær undantekningar eru, eins og hv. þdm. mega sjá, nokkrar höfuðnauðsynjavörur að undanskildum tóbaks- og drykkjarvörum.

Ég drap á það áðan, að verðtollur nam á síðasta ári rúmum 62 millj. kr. Varð hann rúmlega 13 millj. kr. hærri, en árið áður og hefur aldrei náð svo mikilli hæð fyrr. Má telja, að þetta stafi af óvanalega miklum innflutningi á síðasta ári og af hækkuðu vöruverði á heimsmarkaðinum. Innflutningurinn varð þá svo sérstaklega mikill, þar sem svo mikið af svo kölluðum nýsköpunarvörum var flutt til landsins í viðbót við mikinn innflutning af öðrum vörum, en ég held, að þeir, sem kunnugir eru þessum málum og fylgjast með þeim samdrætti í verzluninni, sem nú á sér stað, hljóti að viðurkenna, að það er hvorki neitt útlit fyrir, að innflutningurinn muni verða neitt svipað því, sem hann varð á síðasta ári, né heldur að verðtollurinn komist nokkuð nálægt því að ná þeirri upphæð, sem hann náði á síðasta ári. 65% álag á verðtollinn er að vísu tilfinnanlegt, en ég vil geta þess, að ekki er ætlazt til, að hann verði gróðavegur, þ.e.a.s. þetta álag, sem frv. gerir ráð fyrir, og ekki er ætlazt til, að aukningin verði til ágóða fyrir þá, sem verzla, því að í 5. gr. frv. er svo ákveðið, að ekki sé heimilt að hækka álagningu verzlana á vörur vegna tollhækkana samkv. lögum þessum, og er verðlagseftirlitinu skylt að sjá um að svo verði ekki gert, annaðhvort með því að banna álagningu á tollhækkunina eða með því að breyta verðlagsákvæðum þannig, að álagningin hækki ekki í krónutölu vegna tollhækkunarinnar frá því, sem er við gildistöku laga þessara. Þessu ákvæði var breytt í Nd. frá því, sem verið hafði, er frv. var lagt þar fram, vegna þess að orðalagið þótti binda verðlagsyfirvöldin um of og var fallizt á, að það hefði frjálsari hendur. Það er, eins og hv. þm. vita, orðið alláliðið, komið fram í apríl, og verkanir þessa frv. koma því ekki til að ná nema til 2/3 hluta ársins eða þar um bil og tekjur þess, þess vegna miklu minni, en ef slík löggjöf hefði komið til framkvæmda um áramót. En í stuttu máli má skýra, að tekjurnar af hækkun benzíntollsins, vörumagnstolls og verðtolls eru áætlaðar, miðaðar við eitt ár, 42 millj. kr. Nú nær tollhækkunin aðeins til 9 mánaða, eða varla það, en þegar miðað er við 9 mánuði. Var litið svo á, að gera mætti ráð fyrir um 10 millj. kr. frádrætti, eða að tekjuhækkunin mundi nema 31.6 millj. kr. á þessum tíma. Ég vil benda á, að vegna þess hve frv. er seint fram komið, má draga í efa, að það nái þessari upphæð, og alltaf er gert meira til að draga úr innflutningnum. Það gefur auga leið, að þessi tollhækkun hlýtur að hafa verðhækkun í för með sér, en meðan sú stefna er að draga úr verðbólgunni með niðurgreiðslum úr ríkissjóði, verður ekki hjá því komizt að auka tekjur ríkisins í þessu skyni, og verður öllu þessu fé varið til að lækka verð á nauðsynjavörum.

Það er vitað, að sú ríkisstj. sem tók við eftir hið langa bil, þegar allt var í óvissu, hvernig stjórnarfar yrði eftir 117 daga hlé á störfum þings og stjórnar, hafði ekki heppilega aðstöðu. Það er auðvitað aldrei sérlega heppilegt að taka við stjórn á miðju þingi, og þá ekki sízt þegar margt hefur dankazt, sem annars hefði verið í framkvæmd, ef ábyrg ríkisstj. hefði setið. Núv. ríkisstj. setti sér það markmið að halda niðri vísitölunni á sama hátt og fyrirrennarar hennar, sem sé fyrrv. ríkisstj. og utanþingsstjórnin, höfðu gert, til að stemma stigu fyrir, að verðbólgan hækkaði, og gera það með því að greiða niður verðlag og nota til þess fé úr ríkissjóði. Þetta hefur reynzt mjög erfitt, og þrátt fyrir tilraunir fyrrv. ríkisstj. hækkaði vísitalan um 44 stig meðan hún fór með völd, en henni og öllum hv. þm. er ljóst, að fari hækkunin óðfluga áfram, þá verður það til miklu meiri baga fyrir atvinnurekendur, en þó orðið er, þó að vísitalan sé þegar orðin of þung fyrir atvinnuvegi landsmanna, og þegar hún er orðin lamandi fyrir atvinnuvegina, er skammt að biða, að hún verði niðurdrepandi fyrir þá, sem taka laun sin. Nú hefur þetta frv. orðið fyrir gagnrýni í Nd. — og mun það vafalaust endurtaka sig hér — fyrir, að hér sé stigið spor til að gera lífsnauðsynjar dýrari, og sagt, að tilraunin sé óheppileg, vegna þess að fyrir barðinu á þessari hækkun verði vörur, sem gangi inn í vísitöluna, og verði því frv. að hækka vísitöluna og draugurinn magnaður, sem verið er að glíma við. Því miður er það að vísu rétt, að ákvæði frv. snerta ýmsar vörur, sem ganga inn í vísitöluna, en það er rannsakað af Hagstofunni og stjórnarráðinu, að tekjuaukningin, þó að eitthvað fari forgörðum við það að kveða niður þá hækkun, sem af þessari tollhækkun verður, verður að miklu leyti til ráðstöfunar fyrir ríkisstj. til að greiða niður aðrar hækkanir, sem koma af öðrum orsökum, og er þá stoð í að fá þessa tollaukningu til að halda vísitölustigunum nokkuð niðri. Ég tel bezt að tala um þetta með varúð og nota sem minnstar fullyrðingar um árangur, en þetta tel ég óhætt að segja. Af þessum ástæðum verður að gera ráð fyrir afdrifi af strikinu, en það ætti ekki að hindra, að markið, sem að er stefnt, náist að mestu, sem sé, að þannig fái ríkisstj. fjármagn til að standa enn nokkurn vörð um þær afleiðingar verðbólgunnar, sem afdrifaríkastar eru. Það er almennt álitið, að ef vísitalan hækkar úr 310 stigum, verði hún litt viðráðanleg, og með þessu er reynt að halda okkur frá þeirri hættu, sem af því mundi leiða. Um það má alltaf deila, hvaða leiðir eigi að fara, og hafði fyrirrennari minn tekið þá ákvörðun að halda ekki áfram niðurgreiðslum, og mun hann hafa farið frá vegna þess. En það verður samt að horfast í augu við staðreyndirnar, dýrtíðina. sem stöðugt hefur vaxið, og hins vegar, að enginn grundvöllur er fundinn til samkomulags, sem segja megi um, að sé önnur leið og betri til að koma málunum í heilbrigðara og betra horf. Hitt er annað mál, að nauðsyn er að finna slíkan grundvöll, en hann er ófundinn enn, og ég veit ekki til, að nokkur stjórnmálaflokkanna hafi komið með ákveðnar till. í þessu efni, en vonandi stendur það til bóta. Það þarf svo ekki að eyða orðum að því, að það er ekkert ánægjuefni fyrir ríkisstj. að þurfa að koma með auknar álögur á þjóðina, þó að það sé gert til dýrtíðarráðstafana. Og við erum jafnsannfærðir og þeir, sem fordæma niðurgreiðsluaðferðina, að það sé ekki hægt að halda því áfram til lengdar, en við lítum svo á, að þess verði að freista í bili til að forðast hrun, þar til leiðtogar fólksins, stjórnmálamennirnir, hafa sameinazt og komið sér saman um skynsamleg ráð.

Í umr. í Nd. bar á því, að ákveðinni stétt var kennt um dýrtíðina, og var það verzlunarstéttin. Ég vil ekki bera það á neina stétt, að hún ein eigi sök á, hvernig komið er, og mundu þá sumar stéttir standa nær því en verzlunarstéttin, að mínu áliti. Þess vegna erum það við stjórnmálamenn og við, sem höfum boðizt til að vera leiðtogar fólksins, sem berum ábyrgðina, og við eigum að finna ráð út úr öngþveitinu. En á meðan við högum okkur þannig, að við metum meira að vinna lýðhylli með falsrökum, þá er ekki úrbóta að vænta. Ég geri ráð fyrir, að enginn. sem hér hefur talað, hafi í einu og öllu rétt fyrir sér, því að venjulega liggur úrlausnin milli þess, sem fram kemur, þegar deilt er. Ég vil samt benda á hlut, sem markar leið í þessu efni og algerlega er ófær, og það er þegar sú ákvörðun var tekin að bæta dýrtíðina að fullu og öllu og láta verðhækkunina skella á atvinnuvegunum. þannig að ekkert sé dregið úr. Í nágrannalöndum okkar er farin önnur leið. Þar er að vísu bætt dýrtíð, en ekki farið jafnhátt. Mismunurinn hjá okkur verður sá, eins og að framan segir, að sá, sem er launþegi, á alltaf að fá auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. þegar t.d. kjöt hækkar eða mjólk og jafnvel þegar sígarettur og brennivín hækkar, en sá, sem rekur atvinnu, hefur enga slíka tryggingu. Svo er annað, sem orsakað hefur misræmi, og það er, þegar kippt var í sundur verðlagi landbúnaðarvara og annarra vara.

Ég álít því, að við höfum stigið víxlspor í dýrtíðarmálunum, og þó að ég vilji ekki halda því fram, að tilgangur fyrrv. leiðtoga hafi verið slæmur, þá hefur margt komið fram, sem ekki er lífrænt, og getum við ekki haldið slíku áfram, ef þjóðin á að standa erlendum þjóðum á sporði og skapa sér viðunandi lífskjör. Meginstefnan hefur verið sú. — með að láta vísitölu dýrtíðarinnar greiðast að fullu og öllu og með því að kippa verðlagi landbúnaðarvara úr samræmi við annað verðlag. — að enginn launþegi liði skaða vegna dýrtíðarhækkunar. Þetta hefur markað stefnuna, og er ekkert ljótt um það að segja. En þegar fram í sækir, sést, að ýmsir annmarkar verða hér á, og er reynt að hamla gegn þeim með fjárgreiðslum úr ríkissjóði, og í frv. er lagt til, að þessum útgjöldum sé mætt með skatti. Það er sem sé verið að berjast við ástand, sem komið er af því að mæta hækkun vísitölunnar. Það hefur verið bent á, að aðrar leiðir væru hægari, og má það vera..... að flokkur þeirra vildi annað, þó að hann haldi þessu nú fram. Ég hef engar yfirlýsingar gefið, því að ég veit ekki til, að nokkur flokkur hafi lagt fram plan, en ég get sagt það, að Sjálfstfl. hefur komið auga á fleiri leiðir, en þær mundu gefa verkanir allt of seint fyrir það fjárlfrv., sem um er að ræða.

Þegar Alþ. samþ. fjárlagafrv. við 2. umr., var greiðsluhalli 30 millj. kr., eða nálægt því, sem verja þarf til að halda vísitölunni innan þeirra takmarka, sem um var samið. Þessar tekjur eru svipaðar og fram bornar til þess að mæta dýrtíð og rekstrarhalla fjárl. En þetta er bráðabirgðaráðstöfun, vegna þess hve langt er liðið á árið og brýn þörf að láta útgjöld og tekjur standast á, á pappírnum a.m.k.

Ég vil svo mælast til þess við hv. d. að hún vísi þessu frv. til 2. umr. og fjhn. að lokinni þessari umr.