13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (3854)

101. mál, sala spildu úr landi Englands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli hæstv. forseta á því, að nál. er dags. 10. febr. í stað 10. marz, og leiðréttist það sem prentvilla. — Þetta frv. fer fram á það, að leyft verði að selja spildu úr landi Englands í Lundarreykjadal til Gilstreymis, sem er næsta jörð fyrir framan England og liggur fremst í Lundarreykjadal vestanverðum. Orsökin til þess, að farið er fram á þetta, er sú, að bóndinn á Gilstreymi hefur takmarkað ræktunarland. Búskapur á þeirri jörð hefur frá gamalli tíð byggzt á fjallaslægjum langt frv, en eins og búskaparháttum er nú komið, er ekkert vit í því frá hagfræðilegu sjónarmiði að nytja þær fallaslægjur. En um leið og notkun þeirra fellur niður, þá verður það bú, sem hægt er að framfleyta á jörðinni, það lítið, að varla er hægt að lifa á því eftir þeim kröfum, sem menn nú gera til þarfa sinna. Þess vegna vill þessi bóndi fá viðbótarland, svo að hann geti stækkað túnið og um leið haft stærra bú. Nú er á það að líta, að með þessari beiðni mælir hreppstjóri Lundarreykjadalshrepps og ábúandinn á Englandi, þótt hvorugur taki með í reikninginn, hvernig fasteignamat þarf að breytast á Englandi annars vegar og Gilstreymi hins vegar, ef af þessu verður, og það liggur heldur ekkert fyrir um það, hvernig afgjaldið þarf að breytast. Nú er á það að líta hins vegar frá sjónarmiði okkar, sem hér sitjum í d., að í landi Englands er þriðja stærsta hitasvæðið í Borgarfjarðarsýslu, þar sem upp koma í kringum 16 lítrar af 93 stiga heitu vatni á hverri sekúndu. Þetta hitasvæði liggur um 1 km. neðan við þennan blett, sem talað er um að láta Gilstreymisbóndann fá, en annars eru volgrur víða í landinu. Nú blandast engum hugur um það, að þessi heita uppspretta — Englandshver — skapar möguleika til margra hluta í framtíðinni, t.d. til virkjunar og rafmagnsleiðslu út frá henni. En hvernig þetta verður í framtíðinni í kringum Englandshver, veit enginn, og eins og þau mál eru óráðin fyrir framtíðina, þá er landbn. þessarar d. sammála um að leggja ekki til, að þessi blettur verði seldur. Hins vegar vill n. ekki standa á móti því, að bóndanum á Gilstreymi verði leyft að nota blettinn til að rækta hann, meðan ríkissjóður þarf ekki á honum að halda fyrir einhverja starfsemi, sem kynni að rísa þar upp í sambandi við Englandshver. N. hefur því lagt til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, þar sem málinu er vísað frá í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um það, að bóndinn á Gilstreymi fái þennan blett á leigu fyrir vægt afgjald til að rækta hann og hafa af honum full not, þangað til einhver starfræksla hefst við hverinn. Með þessu ætti að vera leyst þörf bóndans á Gilstreymi til þess að bæta við sig ræktanlegu landi, án þess að það minnki möguleikana fyrir því, að Englandshver verði síðar notaður á einhvern hátt. Meira held ég, að ég hafi svo ekki um þetta að segja. Landbn. er sammála um að leggja þetta til við hv. d.