12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú haldið sína framsöguræðu í þessari hv. d. um það mikla tekjuöflunarfrv., sem er aðalfrv. í þeim bálki, sem afgreiða átti á einni nóttu. Rök þau, sem hæstv. fjmrh. bar fram, höfum við flest heyrt áður, bæði í hv. Nd. og eins hér í þessari hv. d., í sambandi við hin önnur frv., sem eru hluti af þessum lagabálki. sem þetta frv. er stofninn í.

Hæstv. ráðh. sagði, að verðtollurinn hefði stöðugt hækkað í hlutfalli við vörumagnstollinn, og því voru einu rökin, sem hæstv. ráðh. bar fram, þau, að nauðsynlegt væri að hækka vörumagnstollinn til að jafna metin. En þrátt fyrir mikla verðhækkun, sem hefur hækkað verðtollinn svo mikið, hefur stj. lagt til, að verðtollurinn hækki hvorki meira né minna en um 65%, svo að ef tilgangurinn er sá að samræma þessa tolla, þá er skrítið að leggja til, að þessi tollur hækkaði, sem var orðinn óeðlilega hár í samanburði við aðra tolla. Svipaðar röksemdir voru um benzíntollinn, að hann væri óeðlilega lágur síðan fyrir stríð. En þá væri fróðlegt, að ráðh. upplýsti um leið, hvaða verð er á þessum vörum í nágrannalöndunum, borið saman við ástandið hér, — það er það,sem fyrst og fremst skiptir máli. — og einnig hvað fargjöld og flutningar eru samanborið við það, sem er hér heima. En það er undarleg röksemd, að ef verðlag hækkar, þá sé sjálfsagt að tollar hækki líka í samræmi við það. Ríkið á sem sagt að stuðla enn frekar að þessari verðhækkun með hækkandi tollum, og er það næsta undarleg barátta gegn verðbólgu og ekki hægt að bera fram slík rök þegar viðhorfið er hækkandi verðlag og vaxandi dýrtíð.

Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á, að þessi frv. væru komin fram til að stemma stigu við síhækkandi verðbólgu. Áður hafði hann lagt áherzlu á, að hér væri aðeins um að ræða tekjuöflunarfrv. til að koma fjárl. saman, svo að gjöld og tekjur standist á. Rétt mun það, að hér sé um dýrtíðarráðstafanir að ræða. En ef þetta er borið fram til að stemma stigu við verðbólgunni, eins og hann sagði. þá er það undarleg ráðstöfun að gera það með því að auka verðbólguna. Nú meinar hæstv. ráðh. með verðbólgu fyrst og fremst vísitöluna, og þetta frv. hlýtur auðvitað að hækka hana verulega. Það var upplýst hér í d. áður, að þetta frv. mundi hækka hana um 6 stíg, en það var lauslega reiknað, og má búast við, að það verði meira. En hæstv. ráðh. bætti því við, að það væri aðeins nokkur hluti af þessari verðhækkun, sem kæmi fram í hækkandi vísitölu. En hvað sem því liður, eru þetta næsta undarlegar ráðstafanir, og ég vil spyrja: Hver er meiningin? Til hvers á að hækka ýmsar vörur og greiða vísitöluna niður á öðrum? Ég sakna skýringar á þessu atriði. Því að þetta eru hinar furðulegustu ráðstafanir, að ríkið geri aðgerðir og stofni skrifstofubákn til þess að hækka ýmsar vörur og þar með vísitöluna og stofni síðan annað skrifstofubákn, til þess að greiða vísitöluna niður á öðrum vörum. En það er hægt að ráða í, hver skýringin er. Flestar þær vörur, sem hækka, ganga minna inn í vísitöluna en þær, sem hún er greidd niður með. Þannig tekst að falsa vísitöluna enn meir, og er það ekki einmitt tilgangurinn, og lækka með því kaup allra launþega? En þá er ekki hægt að halda því fram samtímis, að þetta sé gert til þess að styrkja útgerðina, þegar allar vörur hækka í verði, sem útgerðarmenn verða að kaupa. Hvaða styrkur er það? Og ríkið leggur jafnframt fram stórfé til styrktar henni. Þetta er fáránleg vitleysa. Sama er að segja um byggingarvörur. Ríkið leggur fram fé til styrktar nýjum byggingum samkvæmt lögum, og svo eru sett ný álög á byggingarvörur. Hvað á slíkt að þýða? Mér sýnist þessi vinnubrögð líkust því, sem maður hefur heyrt talað um á geðveikrahæli, þar sem menn eru látnir moka sand í poka og svo stillt til, að sandurinn komi ávallt niður á sama staðinn, svo að alltaf er mokað sama sandinum.

Hæstv. ráðh. játaði, að þessar ráðstafanir væru engin fullkomin lausn á dýrtíðarmálunum, og að ýmsar aðrar leiðir væru til, en ekki hefði orðið um þær samkomulag, og játaði, að enginn grundvöllur væri til í þjóðfélaginu til samkomulags um það, til hvaða ráðstafana skyldi gripið. Í samningum stjórnarflokkanna er tekið fram, að leita skuli samkomulags við verkalýðsstéttina um úrræði í dýrtíðarmálunum. Hefur það verið gert? Nei, það er svo þvert á móti, að það hefur verið kappkostað að halda þessum ráðstöfunum fullkomlega leyndum fyrir fulltrúum verkalýðssamtakanna. Meira að segja fengu þm. Sósfl. ekkert að vita um þessi mál fyrr, en þau voru komin á dagskrá. Þannig eru nú samráðin við verkalýðssamtökin. Auðvitað vissu menn, að eins og til þessarar ríkisstj. var stofnað, var ekki mikils að vænta frá henni til samvinnu við verkalýðssamtökin, enda tók enginn þessi ummæli alvarlega. Því að ef nokkurn tíma var ástæða til að hafa samráð við verkalýðssamtökin, þá var það um þetta frv., sem snertir svo mjög hag almennings.

Hæstv. ráðh. kom inn á það, að farið hefði verið inn á þá óheillabraut að bæta að fullu og öllu dýrtíðina í landinu og greiða fulla dýrtíðarvísitölu á kaup. Með öðrum orðum, hæstv. ráðh. álítur, að öll stríðsárin hefði kaup átt að fara stighækkandi, því að allir sjá, að ef kaup hækkar ekki eftir hækkandi verðlagi, lækkar það raunverulega. Með öðrum orðum, kaupið fyrir stríð var of hátt, en svo verður að skilja orð hæstv. ráðh., og að kippa þessu í lag virðist vera það, sem hæstv. ríkisstj. hefur í huga. En nú er það svo, að það hefur alls ekki verið greidd full verðlagsuppbót í samræmi við hækkandi verðlag. Það er svo fjarri því, það veit hæstv. ráðh. Væri það gert, væri kaup miklum mun hærra. Allir vita, að vísitalan er fölsuð, og það hafa verið gerðir útreikningar á því, þó að það hafi ekki verið gert af hálfu opinberra aðila. Allir vita, að húsaleigan t.d. er miklu hærri en sú, sem gengur inn í vísitöluna. Það er því svo fjarri því, að laun hækki í samræmi við hækkandi verðlag, blátt áfram af því, að vísitalan er fölsuð.

Þetta frv. mun falsa vísitöluna enn meir, og kemur því fram sem hæstv. ráðh. ber svo mjög fyrir brjósti, að kaup hækki hvergi nærri í samræmi við verðlag í landinu. En hæstv. ráðh. gat ekki um, að álagning hækkar í samræmi við hækkandi verðlag. Við búum hér nefnilega við prósentuálagningu, og um þetta fyrirkomulag sagði einn af forustumönnum Sjálfstfl., að það væri vitlausasta verzlunarfyrirkomulag í heimi, því að áhrif þess væru, að það væri hagkvæmast að gera innkaup með sem hæstu verði. — Þegar hæstv. ráðh. var að bera sakir á stéttirnar, undanskildi hann eina stétt, verzlunarstéttina, heildsalana, og taldi, að þeir hefðu orðið fyrir ómaklegum árásum.

Það hefur þegar verið rætt mikið um þetta frv. í sambandi við þau frv., sem hér hafa verið til umr. undanfarið og eru þáttur í þeim lagabálki, sem stj. hefur lagt fyrir Alþ. til tekjuöflunar. En þetta frv. er aðalfrv., og það bar á góma í sambandi við hin frv. og var þá rætt almennt. og er ekki ástæða til að endurtaka það. Í þessu frv. felast sem sé till. hæstv. ríkisstj. og úrræði í fjármálum og baráttu gegn dýrtíðinni, og leiðin, sem hæstv. stjórn ætlar að fara, hefur verið vegsömuð og hennar krafizt af afturhaldinu í landinu í síðustu 5 ár, sem sé að ráðast á kjör verkalýðsins, en hlífa þeim ríku og láta þá sleppa. Í þessum frv. eru tekjurnar áætlaðar í heilt ár um 45 millj., en 42 millj. eftir þessu eina frv. En alls hefur verið bætt við röskum 45 millj. miðað við heilt ár. Samkv. frv. hækka flestar nauðsynjar að sama skapi, ekki aðeins þær vörur, sem eru að nokkru leyti óþarfar og hægt er að draga úr neyzlu á, heldur líka bráðnauðsynlegar vörur, svo sem byggingarvörur, vefnaðarvörur, útgerðarvörur, matvörur. — nema þær, sem mest ganga inn í vísitöluna. Að meðaltali eru þetta aukin útgjöld um 350 kr. á hvert mannsbarn á landinu. eða um 1.750 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu, en það jafngildir því, að ef slík fjölskylda hefði 20 þúsund kr. árstekjur, að launin væru lækkuð um 8–9% og þó nær 9. Auðvitað er þetta aðeins meðaltal, hjá sumum er þetta meira, sumum minna. Nú verður þetta til að hækka vísitöluna, eins og hæstv. fjmrh. sagði, en samkv. yfirlýsingu ríkisstj. verður hún greidd niður, og kemur þá nokkur frádráttur frá launalækkuninni með þeirri niðurgreiðslu. En það fé, sem vísitalan er greidd niður með, verður að sækja í vasa almennings og svo koll af kolli.

Allir vita, að verzlunarstéttin eða innflytjendurnir hafa rakað saman óhemju gróða undanfarin ár, og það er engin árás á stéttina að segja það, en viðkvæmni að þjóta upp til handa og fóta, ef slíkt er nefnt. Þessi óhemjugróði hefur fært atvinnulífið úr skorðum undanfarin ár, og það er hæstv. fjmrh. flestum betur kunnugt af starfi sínu í nýbyggingarráði, og þetta er eitt mesta vandamálið í atvinnu- og fjárhagsmálum Íslendinga. Fjármagnið hefur streymt inn í verzlunina, en nú er svo komið, að nauðsynlegt er að grípa til róttækra ráðstafana, og þær hlutu að koma við pyngju heildsalanna, ef haldið hefði verið áfram að framkvæma stefnu fyrrv. ríkisstj. En hér var svo ástatt, að stjórnarsamstarfið rofnaði, m.a. vegna þess, að Sjálfstfl. var í þjónustu heildsalastéttarinnar — og einnig menn í Alþfl. og Framsfl. Hér á Alþ. eru hrópuð slagorð, slagorð, þegar minnzt er á ofsagróða heildsalanna. Alþýðuflokksmennirnir og hv. 7. landsk. verða uppnæmir, ef minnzt er á þetta.

Með þessu frv. er ekki nóg, að innflutningsverzlunin sleppi, heldur er verið að auka gróðaveg hennar. Með þessu frv. eru að vísu í 6. gr. þess fyrirmæli um það, að ekki megi leggja á tollaukninguna. En nú upplýsir hv. form. fjhn., að þessi gr. sé í raun og framkvæmd þýðingarlaus, því að álagningin verði bara þess ríflegri á hinn hluta vöruverðsins. (PM: Ég hef ekkert sagt í þessa átt.). Mér skildist þetta á orðum hv. þm., en hann getur auðvitað dementerað þetta. Vegna þeirra umræðna, sem út af þessu hafa spunnizt í Nd., hefur orðalagi þessarar gr. verið breytt, en ég fæ ekki séð, að það breyti nú verulega, og ef gr. er sett af hagkvæmniástæðum, þá er það af sömu hagkvæmniástæðu að 6. gr. er í frv., enda sagði hæstv. ráðh., að orðalagið bindi ekki um of, enda sé það á valdi verðlagseftirlitsins um verðlagningu í hvert skipti. Nú, þetta atriði fer ég ekki fleiri orðum um, en það er annað atriði, sem snertir afstöðu heildsalanna til málsins. Það mun vera ókleift að hafa eftirlit með því, að þeir skjóti ekki undan vörum, þar til þeir hafa fengið nýjar birgðir, sem tollhækkunin leggst á, svo að það er lagt upp í hendurnar á þeim að selja vörubirgðir sínar með hærra verði nú, og eru þá hér stórupphæðir. sem er fundið fé fyrir innflytjendur. Fulltrúar Alþfl. og Framsfl., sem talað hafa hér, virðast hafa undrazt á því, að því hefur verið haldið fram að verkalýðurinn mundi að sjálfsögðu mótmæla þessu frv. og gera gagnráðstafanir í mót þessum álögum, sem átti að berja í gegn á einni nóttu, en eru hærri en nokkur tollalöggjöf í þingsögunni, enda þótt verkalýðnum sé ætlað að greiða hér 45 millj. kr. á ári auk annarra skatta og þótt kaup hinna vinnandi stétta sé lækkað með lagaboði um 8–9% á sama tíma sem auðmennirnir fá nýja gróðamöguleika.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um hrun í þessu sambandi. Við höfum svo sem heyrt þennan söng áður hér á Alþ. Ég kannast við hann síðustu fimm árin: Ef kaup verkalýðsins yrði ekki lækkað, þá mundi hrun skella yfir allt athafnalíf þjóðarinnar. Ég heyrði, að hæstv. fjmrh. var með svipaðar hugleiðingar, og ég rengi nú ekki, að núv. hæstv. ríkisstj. sé með þessu frv. og lagabálki sínum, ásamt fleiru, á góðum vegi með það að koma þessu margumtalaða hruni á. Hún hefur nú þegar unnið það afrek að stöðva byggingarframkvæmdir og þá atvinnu, sem þær hafa skapað, og nokkurn hluta iðnaðarins á sama tíma og núv. hæstv. forsrh. endurtekur ummæli fyrrv. forsrh. um það, að glæstar horfur væru með sölu á framleiðsluvörum okkar. Og nú er spáð hruni, og má segja, að hér sé vel að verið.

Það er alrangt að halda því fram, að þessi frv. mæti eðlilegum útgjöldum á fjárl. Það vantar 35 millj. til þess að greiða niður vísitöluna, og tekjurnar af þessu frv. til áramóta eiga að nægja til þess. Enda tók hæstv. fjmrh. það skýrt fram, að þetta væru dýrtíðarráðstafanir. Það eru furðulegar dýrtíðarráðstafanir. Hér er verið að gera ráðstafanir til þess að hækka vöruverð, minnka kaupmátt krónunnar og í einu orði sagt verið að gera ráðstafanir til þess að hækka vísitöluna, en ekki að lækka hana. Og svo fullkomin fjarstæða er þetta, að aðalmálgagn stjórnarinnar segir í leiðara, að þessi hækkun á innflutningsgjöldum nálgist brjálæði. Nálgist brjálæði. eins og Morgunblaðið orðar það. Ekki eru þetta stoðir til styrktar útgerðinni, er heildarverð á útgerðarvörum öllum hækkar vegna tolla á nauðsynlegustu vörtum til útgerðar. En mér er spurn út af þessum ummælum Morgunblaðsins, er aðalmálgagn Sjálfstfl. snýst gegn máli, sem allur þingflokkur sjálfstæðismanna stendur að, fylgir fram og ber ábyrgð á, — hvernig á að skilja þetta? Eða er þetta aðeins takmarkalaus tvískinnungur og hræsni, sem flokkurinn leikur hér? Þá er smán þessa flokks því meiri. Eða hefur Sjálfstfl. hér verið til neyddur og látið Alþfl. neyða sig inn á þá braut að vaða svona hastarlega ofan í pyngju fólksins? Það væri fróðlegt, ef fulltrúar þeir hér á þingi fyrir Alþfl. vildu svara hér til saka. Mér hefur fundizt framkoma Alþfl. alveg furðuleg í þessum málum. Samkvæmt stefnuskrá flokksins er flokkurinn á móti öllum tollum á neyzluvörur, og á flokksþingi Alþfl. í haust var lögð áherzla á það, að Alþfl. vildi ekki hækka skatta á almenningi, heldur leggja áherzlu á stighækkandi skatta, og fyrir alþingiskosningar barðist flokkurinn, eða lét það í veðri vaka við kjósendur, að flokkurinn mundi berjast fyrir lækkun tolla á almennum neyzluvörum. En nú styður flokkurinn freklegustu tollhækkunarfrv., sem komið hefur fram á Alþingi Íslendinga, og hv. 7. landsk. lýsir yfir því um leið, að þetta sé réttlátasta tekjuöflunarleiðin. Þetta minnir helzt á heimspekinginn. sem hélt því fram, að þessi heimur væri beztur allra hugsanlegra veralda. Að til séu aðrar og betri leiðir til þess að afla tekna, svo sem t.d. ríkiseinkasölur, ríkisrekstur arðbærra fyrirtækja eða ráðstafanir til að ná til skattsvikins fjár, er samkvæmt kenningu þessa flokks eða formælenda hans annaðhvort helber vitleysa eða ranglæti. Nú má ekki hrófla við hátekjumönnunum. Og ég vil nú spyrja: Getur flokkur unnið sér öllu meira til óhelgi í stjórnmálum?