14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (3869)

126. mál, verbúðir

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem prentað er á þskj. 275, er borið fram í hv. Nd., og fer frv. fram á það að heimila ríkisstj. að reisa verbúðir við Faxaflóa og enn fremur að veita ríkisstj. heimild til þess að taka leigunámi húsnæði til þess, ef þurfa þykir. Sjútvn. hefur rætt þetta mál, og hefur hún ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. n. hefur gefið út sérstakt álit, en meiri hl. hefur lagt til, að málinu verði vísað frá með rökst. dagskrá. Grg. okkar er á þá leið, að með l. nr. 29 23. apríl 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur, er svo ákveðið, að ríkið greiði ákveðinn hluta lendingar- og hafnarbóta, og að ríkið ábyrgist þann hluta kostnaðarins, sem ekki er greiddur úr ríkissjóði. Enn fremur er þar um að ræða verbúðir í viðleguhöfnum, og heyrir það mál því líka hér undir, og njóta þær sams konar réttar og önnur hafnarmannvirki. Ef koma á nú upp verbúðum í höfnum, þá er horfið frá þessari skipan málanna, og mætti þá eins setja í l., að ríkið kæmi upp hafnargörðum eða máske upp heilum höfnum eða léti moka upp úr höfnum. Ég held nú, að ríkið hafi ekki þurft hingað til að ýta undir þessar framkvæmdir, en framkvæmdum við hafnargerðir hraðað svo, að ríkið hefur haft erfitt með að fullnægja með styrki til framkvæmda þessara, eins og segir í l. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. N-Þ. á það, áð ég held, að það sé meira að segja ein höfn í hans héraði, sem beið árum saman eftir fyrirgreiðslu af ríkisins hálfu, og ég held, að réttara hefði verið fyrir hv. þm. að fylgja meiri hl. n. en minni hl.

Minni hl. n. segir, að nauðsynlegt sé, að ríkið beiti sér frekar fyrir slíkum framkvæmdum sem þessum, en ég held nú, að það mundi aðeins verka öfugt, og væri einkennilegt, ef á að fara að íþyngja ríkinu enn, og ég held nú, að það væri nær, að hafnarstjórnin tæki lánin og krefði svo ríkissjóð til ábyrgðar fyrir því, sem á vantaði.

Meiri hl. leggur til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá og ríkið veiti nú þegar til verbúða samkv. fyrri heimild og málið verði tekið af dagskrá. Sé miðað við sett lagaákvæði, þá raskar þetta settum grundvelli, sem þessi mál hafa verið byggð á, raskar öllu því, sem hafnarframkvæmdir hafa verið byggðar á með tilliti til fyrri l. Ég vænti þess, að rökst. dagskráin verði samþ. Og ég vil mjög aðvara um það að fara inn á þá braut til þess að raska ekki því kerfi.