12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja mál mitt með því að svara hv. 4. landsk. í því, sem hann sagði í lok ræðu sinnar, að hér væri um að ræða freklegasta tollhækkunarfrv., sem borið hafi verið fram á Alþingi. Ég er nú hálfsmeykur um, að hv. þm. taki hér munninn nokkuð fullan, en hitt er rétt, að hér er um töluverða hækkun að ræða, en ef þessar tölur svífa nú svo mjög á hv. 4. landsk., því skyldi ekki svífa á hann, er útgjöld ríkissjóðs nálgast um 200 millj. kr.. en hann var ekki ánægður með það, heldur bar hv. 4. landsk. fram brtt. og flokksbræður hans, sem mundu hafa hækkað útgjöldin alveg geysilega. Það er svo sem ekki furða, þótt þessir menn berji sér svo á brjóst. er reynt er að afla ríkissjóði tekna til þess að standast þessi útgjöld. Hvað á svona framkoma annars að þýða? Kommúnistar eru með öllum útgjöldum á öllum sviðum, en ef reynt er að mæta útgjöldunum, þá er gripið til þess að reikna út, hve stór kjósendahópur komi til með að greiða mismuninn, en ef það snertir alþýðu manna yfirleitt, þá berja þeir sér á brjóst af eintómri umhyggju fyrir fólkinu. Ég býst nú við, að alþýða landsins sjái í gegnum þetta. Uppáhaldsorð hv. 4. landsk. er að koma fram með till., sem kalla mætti kúlissur, en kúlissa er það kallað t.d., ef búið er út leiksvið og máluð eru tjöld, t.d. af sveit, og sett á vegg og svo á hinn vegginn málverk, er sýndi t. d, fjall, og þetta er látið verka á ímyndunaraflið til þess að blekkja, þannig að það sýnist sveit eða fjall, sem þó ekki er. Það er verið að blekkja áhorfendurna. Og þetta eru uppáhaldskúlissur þessa hv. þm. Hann vill, að samþ. séu frv. til bygginga, hafna, skóla, veitt fé til lista og vísindamanna. En er afla á tekna til slíkra framkvæmda eða styrkja, þá lítur hv. þm. til kjósenda flokks síns og ber sér. Það er oft gaman að horfa á grínleiki, en er það sama er leikið ár eftir ár og leikendurnir eru alltaf hinir sömu, þá verður það nú hálfleiðinlegt.

Hv. þm. sagðist furða sig á, hve þessu máli hefði verið hraðað, og átaldi það, að ekki skyldi vera leitað álits verklýðsins um málið, áður en það kom fyrir. Ég veit nú vart dæmi til þess, að það væri venja ríkisstjórna að leita umsagnar félagasamtaka varðandi ákvarðanir sínar, og ekki veit ég til þess, að þessi hv. þm. hafi gert slíkt í sinni stjórnartíð. Ég held nú, að það sé ekki óhagstætt fyrir mig að minna á ummæli hv. þm. Siglf. í gær, er hann fullyrti, að það hefði verið á allra vitorði, að þetta frv. kæmi fram, og að stj. hefði með varúðarleysi komið því til leiðar, að kaupmenn hefðu hamstrað að sér vörum nú síðustu dagana, til þess að okra á þeim seinna, að svo skuli hv. 4. landsk. koma hér með ummæli og fullyrðingar, sem afsanna þennan áburð hv. þm. Siglf. Það er nú svo, að þegar frv. sem þessi eru til athugunar í Stjórnarráðinu, þá er nú ekki svo gott að fyrirbyggja, að mál kvisist út hjá starfsmönnum. en það er nú svo sem ekki nema gott, að þó hafi sú leynd verið á þessu og svo ógurleg, að hv. 4. landsk. kvartar sáran yfir henni. Það stangast á rökin hjá þessum flokksbræðrum, ekkert síður en hjá öðrum.

Þá var hv. 4. landsk. að véfengja álagningarákvæðið, sem sett var inn í frv. er það var til meðferðar í Nd. Þar hefur hv. þm. haldið því bókstaflega fram, að hvítt væri svart, eða svart hvítt, eftir ummælum hans að dæma. Hann er búinn að drekka það inn í sig, að enginn geti haldið neinu fram nema af óheilindum, vegna vinnubragða hans sjálfs, og heldur svo, að aðrir hljóti að gera slíkt hið sama. Orðalag það, sem ákveðið var með breyt. Nd. á frv., var til þess að skýra gr., en hv. þm. vill fara lengra. Hann vill ráðfæra, hvaða orðalag sé hreinast í framkvæmd.

Hv. þm. bar hér fram ákaflega miklar fullyrðingar í sambandi við viðskilnað sinn frá fyrrv. ríkisstj. Nú á að hafa verið ein af ástæðunum fyrir því, að hann og flokksbræður hans rufu samstarfið í fyrrv. ríkisstj. — eitt af fleirum, segir hv. þm. - ágreiningur um verzlunarmálin og afstaða flokksins til þeirra mála, að mér skilst gagnvart verzlunarstéttinni. Ja, svo? Var það nú það? Vita ekki allir, — ég held, að ekki þurfi að spyrja þennan hv. þm., — að þegar hæstv. fyrrv. forsrh. vildi hefja umr. við meðrh. sína um ýmis vandasöm mál, sem fyrir hendi voru, t.d. dýrtíðarmálin og önnur, svo sem afurðasölumálin, sem þá var mjög aðkallandi, þá höfðu ráðh. Sósfl. eitt svar á takteinum við fyrrv. hæstv. forsrh., að þeir ræddu ekki nein vandamál þjóðarinnar í þeirri stj. vegna herstöðvarsamningsins við Ameríkana. Þetta eru staðreyndir. Svo að það hefur mjög lítið að segja, þó að þessi hæstv. fyrrv. ráðh. komi hér mörgum mánuðum seinna og segi í dag: Já, þetta var eitt af aðalatriðum fyrir því, að við fórum úr ríkisstj. — Og þegar næsta mál kemur til umr., verður sagt það sama. Nei, það var ekki þetta sem gerði það að verkum, að svona fór með stjórnarsamstarfið og þeir hlupu frá öllu saman og neituðu að ræða þessi vandamál, heldur af því, að þeir móðguðust svo fyrir hönd erlends stórveldis, af því að flugvallarsamningurinn var gerður.

Hv. þm. sagði. að ég hefði viljað undanskilja verzlunarstéttina, þegar ég hefði borið aðrar stéttir sökum. Ég er hissa á hv. 4. landsk., að hann skuli beita svona málfærslu. Það væri miklu líkara hv. flokksbróður hans úr hv. Nd., sem stendur hér upp við vegg. Ég sagði einmitt, að það væri rangt að taka nokkra stétt undan og beita ásökunum einvörðungu í hennar garð. Ég skýrði frá því í þessu sambandi, að það er ekki rétt að taka eina stétt út úr, verzlunarstéttina, en þeim hv. þm. varð það á í þetta sinn.

Hv. þm. taldi sig hafa reiknað út, hvað þessi tollur, ef samþ. verður, mundi kosta venjulegt heimili, og svo reiknaði hann það út í prósentum. Ég geri ráð fyrir, að þar ætti að vera vel í lagt. Það vill nú vera svo. Og því hefur verið haldið fram af honum og flokksbræðrum hans, að það er alveg miðað við tollálagninguna eins og hún yrði fyrir heilt ár. En tollálagningin á ekki að vera nema fyrir þetta ár, og er bráðum búinn 1/3 hluti ársins. En þessi tekjuaukning verður notuð til þess að reyna að stemma stigu við óhæfilegri hækkun vísitölu. og það getur verið, að þessi skattur komi að einhverju leyti við hvern einasta mann í landinu. Hve mikið, skal ég ekki segja fyrir víst, en ég býst við, að hann verði ekki svo hár sem hv. þm. segir. En veit hv. þm., hvaða prósentutölu það mundi kosta hvert heimili eða hvern mann í landinu? Hitt er náttúrlega auðvelt að sjá, að ef vísitalan hefði verið látin vaxa úr 310 stigum og í 320 eða 330 stig og verðlag á vörum hækkað í sambandi við það, — hefur hv. þm. gert sér það ljóst, að þar mundu hafa komið fram einhverjar álögur í því formi á hvern einasta mánuð? Þess vegna er það ekki rétt málfærsla að tala hér um þessa hækkun án þess að taka það með í reikninginn, að hve miklu leyti þetta verkar þá til þess að lækka framfærslukostnað þessa sama mánaðar.

Ég geri ráð fyrir, að þessi hv. þm., jafngreindur og hann er, sjái það, að ef við missum vísitöluna út úr höndum okkar, þá er það áreiðanlegt, að það verður íþynging — og hún mikil — fyrir svo mikinn fjölda fólks í landinu, og ég tel víst, að megi segja fyrir alla þjóðina, og þá hvern einstakling. Þetta er sjónarmið, sem ég óska, að hv. þm. taki fullt tillit til og viðurkenni, að tilgangur þess sem tekjuöflunarleiðar er að reyna að koma í veg fyrir frekari hækkun dýrtíðarinnar, en ella mundi.

Þetta er ekki gert fyrir útgerðina, sagði hv. þm. — og hann sagði, að hér legðist aukinn tollur meðal annars á ýmsar útgerðarvörur. Og þess vegna segir hv. þm.. að það sé ekkert vit fyrir útgerðina að vera með þessu. Já, einmitt, en ég hugsa nú samt, að útgerðarmenn kannist mjög vel við, að vísitöluhækkunin skellur beint á þeim strax og hún kæmi. Svo að það er alls ekki rétt hjá hv. þm., að þetta sé ekki líka gert fyrir útgerðina að reyna að stemma stigu fyrir vísitöluhækkuninni. Það er sannarlega gert fyrir útgerðina eins og það er gert fyrir alla aðra í landinu. Þetta er viðleitni í þessa átt, kannske lítil, en viðleitni þó til þess að allt fari ekki í öngþveiti.

Það var einhvern tíma, ég held í næstsíðasta ófriði, að það var verið að ræða um á erlendum vettvangi kjörin, sem hin sigraða þjóð ætti að sæta. Þar voru margir vísir menn og velviljaðir sumir hverjir, sem unnu að Versalasamningnum. En út af till., sem fram kom um það að láta þetta sigraða ríki og óvin greiða stórar skaðabætur og taka af honum öll framleiðslutæki, þá var það haft, að mig minnir, eftir Lloyd George: „Þið getið ekki gert hvort tveggja, að heimta háar skaðabætur og taka framleiðslutækin af hinni sigruðu þjóð.“ Og mér komu í hug einmitt þessi orð, þegar menn tala um þessi mál eða þá möguleika til þess að hækka öll framlög úr ríkissjóði til þess að styrkja þetta og styrkja hitt, byggja þetta og byggja hitt og eru allra manna fúsastir til þess að hækka útgjöld úr ríkissjóði. En svo aftur það sama yfirvarp, sem þessir sömu menn brúka gagnvart tekjuöflun til þess að mæta þessum fjáraustri, sem þeir vilja hafa. Ef hér væri — sem ég veit, að er — um viti borna menn að ræða, sem vilja beita sínu viti til þess að hugsa um þetta mál, þá hljóta þeir að skilja, að það á við þá þetta, sem sagt var: „Þið getið ekki gert hvort tveggja: Þið getið ekki krafizt þess. að ríkisútgjöldin fari — ekki upp í 200 millj. kr., heldur 220 millj. kr., eins og flokkur þessa hv. þm. leggur til á þessu þingi, á meðan þið berjizt á móti því af öllum mætti, að aflað verði tekna til ríkissjóðs til þess að standa straum af þeim mikla kostnaði.