14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (3884)

49. mál, almannatryggingar

Katrín Thoroddsen:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, vegna þess að ég gat ekki fallizt á þau rök, sem þar eru borin fram. Ég er sammála hv. þm. V-Húnv. í því, að þessum l. eins og öðrum beri að breyta, jafnskjótt og gallar á þeim koma í ljós, og á tryggingarl. eru margir og miklir vankantar. Hins vegar áleit ég þessar till. á þskj. 75 ekki það mikið til bóta, að ég vildi fylgja málinu. Þó vil ég segja það, að ég álít ranglátt, að gerður sé munur á fæðingarstyrkjum eftir því, hvort konur vinna úti eða inni, og vil fylgja honum að málum í því að hækka hvort tveggja.