14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (3885)

49. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Hv. þm. V-Húnv. er ekki ánægður með það, hvernig n. hefur farið með þetta frv. hans, en ég held, að ef hann vill líta á þetta með sanngirni, þá sjái hann, að n. hefur fundið beztu leiðina, að vinna að endurskoðun l. Hv. 2. landsk. (KTh) er óánægð með l., en bara ekki þetta, heldur annað. Það er svo, að þm. eru óánægðir með l., en það hefur ekki komið fram heildarálit á þeim, og er vafasamt, hverju á að breyta og hverju ekki. Ég get verið sammála hv. þm. V-Húnv. í þessu máli. Við viljum báðir fallast á þær breyt., sem koma fram í þessu frv., en svo koma aðrir þm. og óska eftir, að það komist annað fram. Þess vegna verður að taka málið til rækilegrar endurskoðunar og fá þeim ákvæðum breytt, sem eru ranglátust og fjarstæðukenndust. Hv. þm. V-Húnv. talaði um það, hvað réttur húsbænda væri skertur. Ég veit, að þetta er rétt að nokkru leyti, en við höfum aðra löggjöf, hjúalög, og samkv. þeim l. eru skyldur atvinnurekenda gagnvart vinnufólki sínu ekki svo litlar. En þessi réttur er, bæði hvað snertir sjúkrakostnað, uppihald og annað, felldur niður hér í tryggingarl., og þetta eru líka hlunnindi fyrir atvinnurekendur frá því, sem áður var.

Það er margt, sem þarf athugunar við í þessum l., og ég er þess fullviss, að það verður að breyta þeim á næstu árum. En þótt við hér á Alþ. færum nú að taka nokkrar gr. úr l. og breyta þeim, þá er það lítil bót. Það verður aldrei til frambúðar. Það verður að taka l. öll í heild til endurskoðunar og sníða af þeim þá agnúa, sem mest óánægja er út af, bæði hjá atvinnurekendum og öðrum. Ég get sagt hv. flm. það, að tryggingarráð hefur nýskeð farið fram á það við félmn. og fjmrh., að ákvæðum 112. og 113. gr. tryggingarl. verði breytt þannig, að atvinnurekendagjaldið verði ekki innheimt nema að 1/4 og vinnuvikurnar á ári verði ekki taldar nema 13 og af því fólki, sem vinnur fyrir litlu kaupi, verði vinnuvikurnar ekki reiknaðar nema 1/4 , og ef það eru teknir krakkar í sveit yfir sumarmánuðina, þá sé ekki borgað nema 1/4 af gjaldinu. Þetta er aðeins lagfæring til bráðabirgða, þangað til l. verða endurskoðuð, og ég held, að allir hljóti að fallast á endurskoðun l. á næstu árum. Ég teldi heppilegra, að hægt væri að fá samkomulag innan þingsins um slíka endurskoðun, heldur en að taka nú inn ákvæði, sem vafasamt er, hvort ná samþykki þingsins.