14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (3886)

49. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Mér þótti gott að heyra, að hv. 2. landsk. telur þó, að það geti komið til greina að breyta þessum l. að einhverju leyti á þann hátt, sem ég hef lagt til, þó að það sé illt, að hv. þm. skuli ekki vilja leggja því máli lið nú þegar. Hv. frsm. n., hv. 1. þm. Rang. sagði, að tryggingarráð hefði nú þegar, skildist mér, sent eitthvert erindi til fjmrh. og félmn. um það, að ekki yrðu innheimt að öllu leyti þau iðgjöld, sem greiða á samkv. 112. gr. l. Ég vil benda á það, að samkv. l., eins og þau eru, er engin heimild til þess að veita tilslökun á þessum gjöldum, nema þegar um er að ræða börn eða fósturbörn, sem vinna fyrir lítið eða ekkert kaup hjá foreldrum sínum. Það er sú eina undanþága, sem l. gera ráð fyrir, að komi til greina. Það er t.d. engin undanþága veitt frá gjöldum af foreldrum atvinnurekanda. Ef aldraðir foreldrar eru hjá honum, sem þó hafa ekki náð þeim aldri að hafa náð ellilífeyri, þá verður barnið, sem í þessu tilfelli er atvinnurekandinn, að greiða fullt iðgjald samkv. 112. gr. vegna vinnu foreldranna, eins fyrir því, þó að þeir hafi ekkert kaup umfram fæði og húsnæði fyrir vinnu sína. T.d. um það, hvað þessi lagasetning í fyrra var fráleit samkv. ákvæðum 112.–113. gr., er það, að ef krakki héðan úr Reykjavík fer upp í sveit um sumarið og vinnur þar fyrir fæði, en fær kannske lítils háttar kaup fyrir snúninga, þá verður bóndinn að borga 6 kr. á viku í tryggingarsjóð fyrir það að taka þennan ungling til vika á heimilinu.

En það er engin heimild til þess í l. fyrir ríkisstj. að veita undanþágu frá þessu. Það er ekki hægt að víkja frá því nema með lagaboði. Ég skal viðurkenna, að þó að mitt frv. væri samþ., þá stendur þetta eftir sem áður, vegna þess að ég fór ekki lengra út í það í till. minni að gera breyt. á 112. gr. en það að undanþiggja þessu gjaldi fósturbörn og foreldra atvinnurekenda. Þetta dæmi, sem ég nefndi, sýnir, hversu fráleitt þetta ákvæði er í l. Það er hins vegar enginn möguleiki fyrir ráðuneytið að gera neinar breyt. á þessu aðrar en þær að slaka til á iðgjöldum fyrir vinnu barna.