12.04.1947
Efri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það eru aðeins örfá orð. Sá hv. ræðumaður, er talaði síðast, fann, að málstaðurinn var ekki góður hjá sér, þar sem jafngreindur maður og hann er varð að fá sér aðra vitibornari menn til að vitna í, og leitaði hann í því augnamiði til afstöðu nokkurra sjálfstæðismanna til þessa máls. Væri það betur, ef hann gerði það sem oftast, því að þá mundi honum betur farnast, en raun hefur á orðið. En þótt skilningur hv. þm. sé glöggur, þá er þó ljóst, að hann hefur ekki skilið afstöðu þessara manna eða ummæli Morgunblaðsins, er hann vitnaði í. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þau upp. Þar stendur svo:

„Afleiðing þessa hlaut svo að verða annað tveggja: Stórfelldur hallarekstur á ríkisbúskapnum eða stórauknar nýjar álögur. Ríkisstj. valdi síðari kostinn. og verður að viðurkenna, að annars var ekki völ, úr því að þingið fékkst ekki til að gera það, sem allir aðhyllast í orði, en flestir neita á borði, þegar til þeirra kasta kemur, þ.e. að hefja raunhæfa baráttu gegn dýrtíðinni.“

Í þessu kemur fram, að blaðið sér, að þær skattatill., sem hér liggja fyrir eru óumflýjanlegar. Og það segir áfram: „Morgunblaðið telur fyrir sitt leyti, að hér sé stefnt út á svo háskalega braut, að nálgist fullkomið brjálæði. Hvaða vit er í að vera með um eða yfir 200 millj. kr. fjárlög, meðan allt er í óvissu um sölu aðal útflutningsvöru landsmanna?“ Það var þetta, sem Morgunblaðið sagði, að nálgaðist brjálæði. Það er ekkert launungarmál og hægt að lýsa yfir því fyrir hönd okkar ráðh. Sjálfstfl., að við höfum lagt á það mikla áherzlu í gegnum fjvn. og ríkisstj., að útgjöldum fjárl. væri haldið niðri meira, en raun hefur orðið á. Ástandið í þinginu er þannig, að ekki er til fylgi við þá skoðun okkar, að þessu bæri að halda niðri. Og þeir, sem ganga lengst gegn þessari skoðun, eru þm. Sósfl. Þeir hafa lagt til, eins og hæstv. fjmrh. benti á, að fjárl. væru ekki í kringum 200 millj., heldur yfir 220 millj. Þannig ganga þeir miklu lengra í því, sem Morgunblaðið kallar, að nálgist brjálæði, heldur en meiri hl. þingsins hefur nú gert.

Hv. þm. var að tala hér um stefnuyfirlýsingar tveggja hv. þm. Sjálfstfl. í Nd.. og naut til þess aðstoðar fyrrv. ráðh., hv. þm. Siglf. Ég býst við, að afstaða þessara hv. þm. hafi komið fram við atkvgr. um málið. Og ég vil benda á, að annar þessara þm., Sigurður Kristjánsson, er manna einarðastur á þeirri skoðun, sem kemur fram hjá Morgunblaðinu um, að fjárl. séu allt of há, að þingið hafi gengið lengra, en góðu hófi gegnir, þótt það hafi ekki gengið líkt því eins langt og Sósfl. hafði gert. Það er eðlilegt, að þessir menn bendi á, að ef þeirra stefnu hefði verið fylgt, þá hefði ekki þurft að leggja þessa skatta á. Hins vegar hafa þeir eðlilega tekið þá afstöðu, þegar þeirra stefna náði ekki fram að ganga, þ.e. að halda fjárl. niðri, að greiða atkv. með sköttunum, vegna þess að þeir vilja heldur láta ríkissjóð standa undir sér, en láta hann safna stórfelldum skuldum á þessum tímum. Þessi afstaða er skynsamleg og rökrétt og í einu og öllu í samræmt við stefnu Sjálfstfl. og okkar umboðsmanna hans í ríkisstj. Stefna Sósfl. aftur á móti er fjarri því að vera rökrétt eða fá staðizt, þar sem flokkurinn heimtar gjöldin upp og ber fram 10 millj. kr. hærri brtt. en allur þingheimur annar gerir við 2. umr. fjárl., en svíkst svo undan merkjum við að láta ríkissjóð fá þær tekjur, sem nægja til að standa undir þeim böggum, sem leggja skal á hann. En það kemur bara engum á óvart, þótt flokkurinn hagi sér svona, því að stefna hans er að koma öllu í glundroða og upplausn. Flokkurinn væri að svíkja stefnu sína, ef hann færi ekki svona að. Þetta kemur heim við reynslu mína og annarra manna, er höfum haft samstarf við hann. Þessir menn geta ekki komið öðruvísi fram, nema svíkja stefnu sína. Þeir verða að svíkja þá stefnu, er þeir koma með fyrir framan kjósendur. Enda eru það aðeins blekkingar að vonast eftir úrræðum frá þessum mönnum. Meðan þeir voru í ríkisstj., hugsuðu þeir svo vel um velgengni atvinnuveganna, að þeir fengust ekki á ríkisstjórnarfundi í allt fyrra sumar til þess að ræða aðkallandi vandamál varðandi hækkun vísitölunnar og örðugleika, sem fyrirsjáanlegir voru á þessum vetri varðandi útveginn. Þessir menn neituðu að ræða þessi mál fyrr en komið væri á daginn, hvað gert yrði við Keflavíkurflugvöllinn. Áhugi þeirra í ríkisstj. virtist eingöngu sá að koma í veg fyrir, að þjóðin næði hagkvæmum samningi varðandi þennan flugvöll. Og á meðan ekki var séð, hvernig það mál yrði leyst, fengust þessir menn ekki til að ræða önnur mál. En þegar svo búið var að leysa þetta mál, þá var umhyggjan fyrir atvinnuvegunum ekki meiri en það, að þeir hlupu úr ríkisstj. og hafa þar með borið ábyrgð á aðgerðaleysi Alþ. frá októberbyrjun til febrúarmánaðar, eða þangað til tókst að mynda þessa stjórn. Svo eru þessir menn að tala um skilyrði, er þeir hafi sett. Það er vitað, að þessir menn settu fram nokkur skilyrði, en voru búnir að fallast á málefnasamning mjög svipaðan þeim og núv. ríkisstj. hefur gengið inn á. En ástæðan til þess, að ekki gekk saman, var sú, að þeir settu fram lítillækkandi skilyrði fyrir Sjálfstfl., sem hann vildi ekki fallast á. En skilyrðin, sem þessi flokkur setti þar fyrir utan, voru t.d. þau að fá bankastjóra í Landsbankann og form. nýja seðlabankans og fleira þess háttar til þess að tylla sínum mönnum upp í vellaunaðar stöður. Og þeir voru þá reiðubúnir til að ganga inn á það, sem þeir nú kalla kúgun við almenning og ofsóknir á vinnandi stéttir þjóðarinnar. Ef þeir fengju bankastjóra í Landsbankann, að koma upp seðlabanka og sýna Sjálfstfl. óvirðingu, þá voru þeir ánægðir. Og almenningur var gleymdur í bili. En þegar kom á daginn, að aðrir flokkar voru að ná saman um stjórnarmyndun, þá komu þessir sömu menn og voru reiðubúnir til að falla frá öllum sínum skilyrðum og báðu menn um að fá að vera með í að mynda stjórn. En ástæðan til þess, að menn vildu ekki ganga inn á slíkt, var sú, að þeir voru búnir að fá nóg af svikum þessara manna.