29.01.1947
Efri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3894)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér kom það nú ekki á óvart, þótt hv. þm. Barð. tæki afstöðu gegn frv. eins og þessu og aðalræða hans snerti ekki efnishlið málsins, heldur eitthvað annað, sem hann sagði nú að vísu aldrei berum orðum, en það skildist fullkomlega.

Ég ætla að víkja að þeim ástæðum, sem hann taldi liggja til frv. frá mínu sjónarmiði. Það er þá fyrst, að kvikmyndarekstur væri svo mikil gróðalind einstaklinga. Þetta er að nokkru leyti rétt. Ég tel ekki rétt, að einstaklingar raki saman fé á kvikmyndasýningum, heldur hafi þjóðfélagið sjálft allan hagnað af þessum rekstri, og ekki aðeins það, heldur yfirráð yfir því, hvernig slíku menningartæki er beitt. Hv. þm. Barð. hélt því fram, að gróðann mætti taka af einstaklingum með sköttum. Það verður aldrei hægt, jafnvel þótt hinn þyngsti skattstigi væri ákveðinn, sem tæki allan hagnað kvikmyndahúsa á Akureyri, Vestmannaeyjum, Ísafirði og slíkum stöðum. Þrátt fyrir það mundu kvikmyndahúsin í Reykjavík græða hundruð þúsunda og jafnvel milljónir renna til einstaklinga, þar eð beita verður sama skattstiganum um allt land. Þetta er því ekki hægt, og það er þessi gróði einstaklinga í Reykjavík, sem hv. þm. Barð. er fyrst og fremst að verja með máli sínu.

Þá skildist hv. þm. Barð., að annar megintilgangur frv. væri sá, að talið væri, að ríkið sjálft þyrfti að ráða vali kvikmyndanna, en í stað þess vildi hann opinbert eftirlit. Það á nú að heita, að slíkt eftirlit sé hér, fulltrúar barnaverndarráðs eiga að sjá kvikmyndir, áður en þær eru sýndar almenningi. Og þær hafa verið margsensúreraðar, en samt veit hv. Alþ., að mikill meiri hl. þeirra kvikmynda, sem hér hafa verið sýndar, hefur ekki haft menningargildi og sumar hafa verið siðspillandi og mannskemmandi, einkum fyrir æskulýð í mótun. Settu marki verður því ekki náð í þessu efni með eftirliti. Ábyrgur aðili verður að ráða því, hvaða myndir eru fluttar inn í landið. Þær kvikmyndir, sem einu sinni eru komnar til landsins, eru ekki látnar ósýndar, enda er það aðeins á valdi skoðunarn. að banna þær fyrir börn. En ekki eiga þær margar hverjar erindi fyrir íslenzk sugu almennt. Ég hef þá svarað þeim fullyrðingum hv. þm. Barð., að kvikmyndagróðinn verði tekinn með sköttum og að eftirlit með kvikmyndasýningum sé nægilegt. Reynslan hefur skorið úr.

Ég gat búizt við, að hv. þm. Barð. og ef til vill fleiri rækju augun í 3. gr., þar sem talað er um skattaundanþágu stofnunarinnar. Ég sé nú raunar ekkert, sem útiloki það, að stofnunin væri skattlögð, ef það væri talið til ávinnings. En það mundi óhjákvæmilega draga úr því hlutverki, sem henni er ætlað að gegna samkv. frv. Rekstur hennar hlyti að verða fjárfrekur í fyrstu, meðan verið er að kaupa kvikmyndahúsin og koma starfseminni allri í sem bezt horf, svo að það mundi draga úr hlutverki kvikmyndastofnunarinnar, ef hún væri þegar skattlögð. Ég veit ekki, hve gífurlegan skattstofn bæjarfélögin misstu, þótt þetta væri ekki gert. Það væri þá helzt Reykjavík. Ég hygg, að skattar af kvikmyndahúsum í Reykjavík séu eitthvað á annað hundrað þúsund krónur eða nálægt því. En í öðrum kaupstöðum er þetta sáralítill peningur, þrjú, fjögur, fimm þúsund krónur eða svo. Því síður mundi þetta skattfrelsi skipta ríkissjóð, því að ríkið á samkv. þessu frv. að fá til sinna umráða allan rekstrarhagnað stofnunarinnar, og honum á að verja til menningarstarfsemi, en nú rennur hann í vasa stórauðugra einstaklinga, sem hv. þm. Barð. er hér umboðsmaður fyrir. Ríkið fengi því til sinna afnota allan kvikmyndagróðann, sem nú rennur til einstaklinga.

Þá veik þm. Barð. að því, að þetta frv. þrengdi mjög að frelsi og frjálsræði manna, og í sama streng tók einn blaðamaður í morgun, sem talaði um, að nú mundu kvikmyndavélar jafnvel verða teknar: af þeim, sem ættu þær. Og þm. Barð. talaði um bann á bókum og blöðum í þessu sambandi, og ég játa, að þá væri nokkuð langt gengið út frá hans sjónarmiði, ef farið væri að banna Morgunblaðið og slíkar bókmenntir. En þetta eru hugarórar og ekkert annað. Hverjum einstakling er vitanlega frjálst að eiga sína kvikmyndavél, og aðstaða kvikmyndastofnunar ríkisins til að ráða innflutningi kvikmynda og rekstri kvikmyndahúsanna leiðir til hagnaðar, sem m.a. á að verja til að styrkja innlenda kvikmyndagerð, svo að hér er málinu einmitt snúið alveg við.

Hv. þm. Barð. fann vel, að útvarpsrekstur ríkisins er hliðstæður meginhugsuninni í þessu frv. En við það hafði hann það að athuga, að útvarpið hefði nú gefizt svona og svona, það hefði verið talið brjóta hlutleysið og þess vegna, skildist manni, mundi það betur komið í einkarekstri. En það er áreiðanlegt, þótt fyrir kunni að hafa komið, áð hlutleysi útvarpsins væri brotið við og við — það er áreiðanlegt, að sárafáir mundu taka undir það,. sem hann gaf í skyn, að útvarpið væri betur komið í höndum einstaklinga. Væri hv. þm. hins vegar með því að ríkið ræki útvarpið þrátt fyrir hlutleysisbrotin, yrði að álykta, að hann væri efnislega samþykkur þessu frv., því að hér er um hliðstæður að ræða.

En þegar hér var komið ræðu hv. þm., sagðist hann nú fyrst vera kominn að aðalatriðinu, og það. var að víta ósiðlætið í grg. minni, eins og hann sagði. Það færi ekki nema vel á því, að hann sem eldri þm. gerðist siðameistari minn hér, ef umvandanir hans væru þá á rökum reistar. Hann fullyrti hér í annað sinn, að ég hefði óvirt Alþ. og treyst í því sambandi á sómatilfinningu Helga Hjörvars. — Ég mundi nú reyndar mega ætla, að það væri hvorugum okkar háskalegt að treysta nokkuð á sómatilfinningu og háttvísi hans. En í þessu tilfelli var annars ekkert, sem orkað gat tvímælis. Ég ber því vel brigzl og ásakanir hv. þm. Barð. í sambandi við frv. mitt og grg. En þetta eru hugarórar. Hins vegar get ég ekki ábyrgzt, að öll mín hegðun verði eftir höfði hv. þm., að mínar siðgæðishugmyndir séu hinar sömu og hans, og ég gef ekkert vilyrði fyrir því, að ég beri mín frv. og grg. undir hann og spyrji, hvort hans hátign þóknist að hafa þetta svona. Hann getur verið hér yfirþm. í eigin vitund, en ekki með mínu umboði eða annarra.

Hv. þm. sagði, að strangari reglur þyrfti að setja um það, hvað prenta mætti í þskj. og segja hér, og yrði þá að samþykkja frv. um það. Þetta er leið einræðisins. Hann leyfir sér að brydda á því, að farið verði að skerða skoðanafrelsi, málfrelsi og prentfrelsi, og það fyrst innan veggja Alþ., fyrst á að svipta alþm. þessum réttindum. Hér er það kolgrár nazisminn, sem skýtur upp kollinum, slíkir menn ættu ekki að tala um siðgæði í ræðum sínum og þykjast vera siðapostular.

Fullyrðingar hans um, að ég hafi verið hér með ódrengilegar dylgjur í garð Petersens, er átti Gamla bíó, lýsi ég helber ósannindi. Í grg. minni deili ég aðeins á það ástand, að hægt skuli vera að reka slíkan einstaklingsgróðarekstur og hlaupast síðan. á brott með gróðann. Ég skýri þarna aðeins frá staðreynd, en er ekki með nein persónuleg svigurmæli í garð Petersens. Frv. mitt miðar einmitt að skipulagi, sem útilokar, að slíkir atburðir geti gerzt.

Þá var það annað í grg. sem hv. þm. Barð. þótti ósæmilegt, og vil ég lesa það, með leyfi hv. forseta: „Það er að vísu rétt, að af því að bæði kvikmyndagerð og kvikmyndarekstur hafa fallið í ræningja hendur og orðið að einhverju mesta auðsöfnunartæki, sem heimurinn þekkir, þá er reynslan sú, að oft er þessi dásamlega uppfinning, sem helzt mætti þó líkja við sjálfa prentlistina og útvarpið, notuð í menningarfjandsamlegum tilgangi. Fer því þó fjarri, að þetta þurfi svo að vera.“ Þarna er verið að tala um það, að framleiðsla kvikmynda í heiminum og kvikmyndasýningar hafi verið misnotaðar svo, að kvikmyndir séu orðnar að menningarfjandsamlegu tæki oft og tíðum. Þessa skoðun stend ég áreiðanlega ekki einn uppi með. Kvikmyndagerð, sem rekin er út frá blindum einkasjónarmiðum fjár. brallsins, er ekki til menningarauka. Kvikmyndir frá Hollywood hafa það álit á sér um alla veröld, að þær séu gerðar til að græða á þeim, og þegar þær eru eingöngu gerðar út frá því sjónarmiði, höfða þær oft til lægstu hvata fólksins. Og úrval þess lakasta, sem þar er framleitt, sjáum við næstum daglega hér. Ég held, að mér væri alveg óhætt að segja þetta í blaði mínu, Skutli, og hvar sem væri, án þess að eiga á hættu að vera dæmdur fyrir meiðyrði. Það yrði þá helzt að höfða málið fyrir hönd kvikmyndafélaganna í Hollywood, sem hv. þm. Barð. er ef til vill umboðsmaður fyrir. Það er fjarstæða, að þessi ummæli séu meiðandi eða móðgandi fyrir nokkurn hér á landi. Þau eru ekki mannskemmandi fyrir einn eða neinn. Ég hygg, að ég fari hér aðeins með satt mál og rétt um kvikmyndaframleiðsluna í heiminum.

Ég skrifaði áðan upp hjá mér ummæli umboðsmanns siðgæðisins á Alþ. í sambandi við skólastjórastarf mitt. Það ætti hann að reyna að segja utan þinghelginnar. Það héti atvinnurógur utan Alþ. Ég skora á hann að prenta þessi ummæli sín á morgun og vita þá, hvort hann yrði ekki dæmdur fyrir meiðyrði.

Kvikmyndin „Glötuð helgi“ átti að dómi hv. þm. að sýna, að hér væri ekki sýnt neitt rusl. Það er rétt, að þetta er dágóð kvikmynd, sem er undantekning, því að hún er áróður gegn ofdrykkju. En nálega allar kvikmyndir eru hins vegar áróður fyrir drykkjuskap fína fólksins í veröldinni, og það er ef til vill einna mest spillandi í þeim. En jafnvel í þessari mynd, sem er þó undantekning, var skotið inn þessari setningu: „Svona urðu drykkjumenn á bannárunum.“ Þannig er þó þessi mynd látin vinna gegn banni, sem menn hafa þó einna helzt sameinazt um í baráttunni gegn áfengisbölinu. En gott væri, ef Ameríka væri laus við það böl, eins og hún hefur losað sig við bannið: Við eigum ennþá slíkar myndir hér, þótt banninu hafi verið komið fyrir kattarnef.

Eitt af því, sem hv. þm. Barð. taldi gífuryrði í ræðu minni, var það, að halda þyrfti börnum frá þeim kvikmyndum, sem nú eru á boðstólum. En ég er sannfærður um, að flestir foreldrar mundu taka undir þessi ummæli mín, og ég þori að fullyrða, að margar kvikmyndir eru eins hættulegar börnum eins og vín og tóbak. Það er þetta ástand, sem nauðsynlegt er að fyrirbyggja.

Ég vil svo að endingu fagna því, að þessi hv. þm., sem talað hefur á móti frv., hefur ekki komið með neina gagnrýni á efnishlið þess, og vænti, að fleiri verði rakafátt í andstöðu gegn frv.