29.01.1947
Efri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (3896)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson.):

Herra forseti. Ég vil þakka þm. Barð. fyrir það, að hann sá ástæðu til þess að hafa ræðu sína í afsökunarformi.

Ég tel allmiklar fjarstæður í ræðu hv. þm., þegar hann líkir saman togaraútgerð annars vegar en kvikmynda- og útvarpsrekstri hins vegar. Það sjá allir, að hér er um tvennt gerólíkt að ræða, og verður því ekki saman líkt með neinni sanngirni. En vegna ummæla þessa hv. þm. um till. mína um skattfrelsi stofnunar þeirrar, sem hér um ræðir, vil ég spyrja hann: Hvers vegna þótti nokkurn tíma tiltækilegt að hafa útvarpið skattfrjálst? Ekki var það mín sök. Það græðir stórfé á hverju ári, sem notað er til menningarstarfsemi, án þess að við það séu gerðar nokkrar aths. Á sama hátt tel ég ástæðulaust að telja það nokkra fjarstæðu, að umrædd kvikmyndastofnun yrði skattfrjáls, því að hér er um hliðstæðar stofnanir að ræða.

Rekstur háskólabíósins sýnir vel, hversu arðvænleg kvikmyndahúsin eru, þar sem það hefur grætt 6 til 7 hundruð þúsund á síðustu þremur árum, en er þó langminnst allra kvikmyndahúsanna. Ég teldi enga fjarstæðu að ætla, að eftir því væri gróði hinna ef til vill milljónir. Ég hef ekki athugað, hvað þau greiða í skatt, en þau fá þó alltaf 1/5 tekna sinna í varasjóð.

Vegna fullyrðinga hv. þm. Barð. um bíóreksturinn á Ísafirði vil ég geta þess, að á meðan á því var einkarekstur, greiddi það aldrei yfir 900 kr. í skatt, og komst meira að segja niður í 357 kr. En nú er rekstrinum hagað þannig, að greitt er 10% af fyrstu 30 þús. kr., en 15% af því, sem fram yfir er.

Þá fullyrti þm. Barð., að hvergi væru sýndar aðrar eins ruslkvikmyndir og á Ísafirði, og eftir því sem mér skildist á orðum hans, þá væru eiginlega hvergi ruslkvikmyndir nema þar. Þessar staðhæfingar verða dálítið broslegar, þegar sú staðreynd kemur í ljós, að allar þær kvikmyndir, sem sýndar eru á Ísafirði, eru fengnar frá kvikmyndahúsunum hér í Reykjavík. Á þessu sést vel, hvernig málareksturinn er hjá þessum hv. þm:

En sannleikurinn er sá, að þær kvikmyndir, sem hér eru sýndar, eru að miklum meiri hluta ruslkvikmyndir, ekki af því að þær versni við að flytjast til Ísafjarðar, heldur vegna þess, að þær eru fluttar inn í landið fyrst og fremst með gróðahagsmuni fyrir augum, án þess að nokkurt tillit sé tekið til, hvaða menningargildi þær hafa. En það er einmitt ætlunin með þessari stofnun að koma í veg fyrir slíkt.