29.01.1947
Efri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (3897)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég segja nokkur orð. Annars gerist ekki þörf að svara því, sem hér hefur verið sagt, enda gagnslaust að reyna að rökræða við þennan hv. þm.

Hann var að spyrja að því, hvers vegna ég samþykkti, að útvarpið væri skattfrjálst. Ég get frætt þennan þm. á því, að útvarpið er miklu meira en skattfrjálst. Það hefur t.d. 500 þús. kr. styrk frá ríkinu, auk þess sem það hefur svo allar tekjur af viðtækjaverzlun ríkisins. En hér er allt annað viðhorf, því að stofnun þessi hefur byggt sig upp sjálf, en ríkið ekki lagt henni til annað en þetta. Annars var mjög um það deilt í fyrra, hvort hækka skyldi gjöld til útvarpsins, og sömuleiðis hefur það komið til umræðu, að ríkið fengi endurgreitt eitthvað af þessu.

Ég vil að endingu taka það fram, að það getur orðið mjög hæpin leið að hafa allar ríkisstofnanir skattfrjálsar, vegna þess hvað það dregur úr tekjum ríkisins.