02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (3903)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til umr. í janúar s.l., fóru nokkur orðaskipti fram á milli mín og hv. flm., 3. landsk. Ef athugaðar eru þær umr., sem fóru fram þá, og það, sem stendur á þskj. 325, þá sést; að oft verður lítið úr því högginu, sem hátt er reitt, og það er dálítið einkennilegt og á sér vafalaust fá dæmi í þingsögunni, að flm. gangist undir að vísa máli sínu frá með rökst. dagskrá. En það, sem fyrst og fremst gaf mér tilefni til að standa upp, var það, að mér virtist, að hv. frsm. og hv. 3. landsk. væru á gagnstæðri skoðun. Í rökst. dagskránni segir aðeins, að hún sé lögð fram í trausti þess, að ríkisstj. taki til rækilegrar athugunar, á hvern hátt menningarleg not þjóðarheildarinnar af kvikmyndasýningum verði tryggð, og að ríkisstj. hraði þeirri áætlun. Þetta sagði svo hæstv. ráðh. að mundi verða gert og segir í grg. dagskrártill., að þetta sé aðaltilgangur flm. En í vetur var aðaltilgangurinn að koma í veg fyrir, að kvikmyndirnar yrðu til gróða fyrir einstaklinga. Hv. 3. landsk. sagði að það fælist í dagskrártill., að ríkisstj. undirbyggi málið fyrir næsta þing. En þetta er alls ekki svo. Í dagskrártill. er ekkert um að undirbúa löggjöf um kvikmyndastofnun, og með þeim skilningi, að hér sé bent á að láta athuga málið greiði ég atkv. með dagskrártill. Mér þykir vænt um, að n. hefur orðið sammála um, að kostnaðaráætlun væri nauðsynleg, og hefur þar með fallizt á það, sem ég hélt fram við 1. umr., að kostnaðaráætlun þyrfti að liggja fyrir, áður en flanað væri í þetta. Ég mun greiða atkv. með dagskrártill., eins og ég skil hana, og ég er ánægður yfir því, að n. hefur fallizt á mín rök og að hv. flm. hefur nú rennt niður öllum stóryrðum og samþykkir nú að láta þetta mál, sem hann í vetur taldi mikilvægasta mál þingsins, sofna værum blundi hjá ríkisstj.