02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (3904)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Það er alltaf á dálítið sérstakan og einkennilegan hátt, sem hv. þm. Barð. ræðir þingmál. Annars hef ég á fundum menntmn., sem fjallað hefur um málið, aldrei heyrt minnzt á. rök hjá hv. þm. Barð. En það er með hann eins og karlinn. Það er fyrst ég sjálfur, svo ég sjálfur, svo ég sjálfur og svo ég sjálfur. Það var aldrei minnzt á rök frá þessum. hv. þm. í þessu máli,. og raunar ekki í öðrum málum, því að það er sjaldan, að þessi hv. þm. hafi rök að mæla. En hitt skil ég mæta vel, að umboðsmenn kvikmyndahringanna og hringarnir sjálfir fagni því vel, að málið fái ekki afgreiðslu og nái ekki fram að ganga. Hins vegar vona ég, eftir ummælum hæstv. menntmrh., að er málið kemur ti1 athugunar í ríkisstj:, verði það vel undirbúið af hennar hálfu fyrir næsta Alþ. Og ég lýsi því yfir, að ef ríkisstj. sér sér ekki fært að flytja þetta frv. á næsta þingi, eftir að hafa athugað þetta mál, þá mun ég flytja þetta frv. hér á nýjan leik. Frv. hefur komið nokkuð við hjarta eigenda kvikmyndahúsanna, en þótt nú verði spyrnt við fæti, þá hafa þeir þó nú þegar nægan suð, en það er menningarleg nauðsyn að taka kvikmyndahúsin í þjónustu menningar, svo að þau séu ekki fyrst og fremst féþjónn. En meðan þetta er ekki framkvæmt, að taka þau eignarnámi, þá vildi ég ekki fella málið, en kaus heldur að fá vilyrði hæstv. menntmrh. um meðferð málsins á milli þinga. Það er glæpur, að hin 7 kvikmyndahús, sem verið er að reisa í þessum bæ, skuli vera í einkaeign, í eigu stórkostlegra fésýslumanna, og mér er kunnugt um, að einn af kvikmyndahúsaeigendunum hefur keypt einkarétt á uppfinningu, sem breytir lesmálsköflum í kvikmyndum, og mér er kunnugt um, að eigendur Gamla bíó og Nýja bíó eiga flest þau nýju kvikmyndahús, sem nú er verið að byggja, og þessir menn hafa myndað með sér hring í því augnamiði að koma upp kvikmyndarekstri á öllum þeim stöðum úti um land, þar sem má telja, að einhvers gróða sé að vænta. Og ég hélt nú, að hv. þm. Barð. væri nú yfir það hafinn að mæla með þessu fyrirtæki.

Í stuttu máli byggist þetta frv. á: 1. að tryggja menningarleg afnot kvikmyndarekstursins. 2. að fjárplógi einstaklinga linni í þessari starfsemi.

Svo leyfi ég mér að gera mér góðar vonir með það, að hæstv. ráðh. láti búa þetta frv. þannig úr garði eftir rannsókn, að það geti náð samþykki á næsta þingi. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hlýtur að verða jákvæð, því að þetta er svo mikils vert mál, að það á skilið að ná samþykki og afgreiðslu.