02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (3911)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Það er rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að með brtt. minni er ákveðin stefna tekin í málinu, en ég held nú, að þetta mál liggi svo vel fyrir, að menn geti nú þegar ákveðið, hvaða stefnu þeir taka til málsins. Og ef ríkið á nokkuð að skipta sér af þessum málum, þá er ekki um aðra stefnu að ræða en að þjóðnýta þessa starfsemi, og ég álít, að með þessari dagskrártill. sé gert ráð fyrir, að ríkisstjórnin athugi væntanlegan rekstur á þessari atvinnugrein. Ég held því, að dagskráin tapi ekki gildi sínu, þótt þessi brtt. verði samþ., en ef það þykir varhugavert, að dagskrártill. verði ákveðnari að orðalagi, þá sýnir það aðeins, að ekki liggur alvara á bak við þessa framkvæmd, og ég tel, að málið liggi nú svo vel fyrir, að þm. geti tekið fullkomna afstöðu til þess.