12.04.1947
Efri deild: 115. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. á fundi. sem hún hélt í fundarhléinu. Tími hefur því miður ekki unnizt til þess að gefa út skriflegt nál., enda mundi slíkt koma að litlu gagni eins og er, vegna þess að ekki er hægt að fá nein álit prentuð vegna þess að prentsmiðjur eru ekki starfandi í dag. Þrír af nm., hv. þm. Dal., hv. 1. þm. Eyf. og ég, höfum lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir. Einn nm., hv. 4. landsk., leggur til að frv. verði fellt, og hefur hann skýrt okkur frá því, að hann muni bera fram brtt. við frv. Einn nm., hv. 1. þm. Reykv., hafði fjarvistarleyfi hæstv. forseta, og tók hann því ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Ég tel mig ekki þurfa — og tel reyndar ekki rétt — að fylgja þessu máli úr hlaði með neinni sérstaklega ýtarlegri framsöguræðu. Málið hefur þegar verið þaulrætt hér við 1. umr. í þessari hv. d. í því formi, sem það liggur fyrir í nú. Það var einnig rætt hér við umr. tekjuaukafrv., sem hæstv. ríkisstj. lagði fram í hv. d., sem þegar er búið að samþ., og má því ætla, að flest það sé fram komið, eins og málið liggur fyrir nú, sem ástæða er til að taka fram. Hv. minni hl. fjhn. á einnig eftir að skýra frá sínum brtt. og gera grein fyrir þeim, og má vera, að frekara tilefni gefist til umr., þegar þær brtt. eru fram komnar.

Ég vil þó aðeins taka fram, að með þessu frv. leggur hæstv. ríkisstj. til, að henni sé fengið vald til þess að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna á árinu 1947, til þess að mæta þeim halla, sem fyrirsjáanlega verður annars á fjárl. Fjhn. er það ljóst, að ef hún hefði átt að fara að standa á móti þessu frv., bar henni að sjálfsögðu skylda til þess að benda á aðrar leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Við því var fjhn. ekki búin og getur þvert á móti, eins og málið liggur fyrir, fallizt á, að þessi leið verði farin, sem hæstv. ríkisstj. hefur stungið upp á. Hitt er svo annað mál. að það er sjálfsagt öllum ljóst, að það verður ekki fært fyrir hæstv. Alþ. eða ríkisstj. að halda áfram á þeirri braut, sem nú er verið inni á að því er varðar rekstur og afkomu hins opinbera. Útgjöld ríkissjóðs og þarfir hins opinbera eru nú, eins og frá fjárl. er gengið, slíkar, að þess er ekki að vænta, að við slíkt verði hægt að ráða í framtíðinni, nema einhverjar róttækar ráðstafanir verði gerðar. Verður þá hvort tveggja að fara saman, bæði sú leið að draga úr útgjöldum ríkisins og eins hitt, að koma atvinnuháttum landsmanna til frambúðar í það horf, að ekki þurfi að hvíla þeir baggar á ríkissjóði, sem nú hvíla á honum beinlínis vegna atvinnuveganna. Það er að sjálfsögðu öllum fullkomlega ljóst – og sjálfsagt engum ljósara en hæstv. ríkisstj., enda hefur það komið mjög ýtarlega fram af hennar hálfu — að brýna nauðsyn ber til þess, að unnið sé að því að koma fjárreiðum hins opinbera og rekstri öllum í fastara og öruggara horf, en verið hefur. Á ég þar ekki aðeins við það, að nauðsynlegt sé að draga saman og reyna að hamla sem mest á móti aukningu á kostnaði við reksturinn á, hinni opinberu starfsemi, heldur einnig draga úr þeim öðrum útgjöldum, sem á ríkissjóði hvíla, ekki hvað sízt þeim útgjöldum, sem ríkissjóður óhjákvæmilega hefur orðið að taka á sig til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Það er löngu orðið ljóst öllum, sem um þessi mál hugsa og eitthvað um þau sýsla, að rekstrargjöld hins opinbera eru komin svo langt fram úr öllu hófi að því er kostnaðinn varðar, að slíkt getur ekki gengið eða blessazt lengur. Það er óhjákvæmilegt, að ríkisstj. taki það mál upp alveg til sérstakrar athugunar og ráðstöfunar, hvað hægt er að gera í þeim efnum. Og við, sem styðjum hæstv. ríkisstj., treystum því fullkomlega, að hún noti þann tíma, sem nú er framundan, til þess að taka þessi mál til gagngerðrar yfirvegunar og endurskoðunar og geri sínar till. þar um eins fljótt og frekast er kostur á.

Þetta vildi ég hafa sagt almennt um málið, eins og það liggur fyrir. Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að fara nánar inn á frv. sjálft. Það er orðið mjög rætt. Auk þess liggja brtt. þær, sem hv. minni hl. fjhn. hefur að gera í málinu, ekki fyrir enn þá, og það er ekki kunnugt, hverjar þær eru.

Að svo mæltu legg ég til fyrir hönd meiri hl. fjhn., að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.