02.12.1946
Efri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (3926)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. — Ég vil aðeins vegna ummæla hv. þm. Barð. geta þess, að ég sagði ekkert um það, að þessir vegir væru ónauðsynlegir, þegar þeir eru komnir og hægt er að nota þá. En við vitum það allir, að það eru iðulega lagðir vegir, sem árum saman eru ekki fullgerðir, og meðan aðeins eru lagðir nokkur hundruð metra vegspottar, koma þeir fáum eða engum að gagni. Það var aðeins þetta, sem ég átti við, en ekki, að vegirnir væru í sjálfu sér ekki nauðsynlegir og gætu komið að fullu gagni, þegar þeir eru komnir svo langt að vera komnir í samband við aðalvegakerfi landsins og þau byggðarlög, sem við þá eiga að búa, eru komin í samband sín á milli. En þetta vitum við allir, að hefur komið fyrir vegna þess, að mönnum er nauðsynlegt að fá vegina, en vegaféð er takmarkað, og þess vegna er ekki hægt að fullgera vegina fyrr en eftir mörg ár.