02.12.1946
Efri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (3930)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. spyr, hvernig þetta mál muni líta út frá sjónarmiði smærri kaupstaða á Vestfjörðum. Ég skal nú leitast við að svara þeirri spurningu. Það hafa verið reist hraðfrystihús í kauptúnunum á Vestfjörðum og mynduð í því skyni hlutafélög, samlagsfélög o.s.frv., eins og hv. þm. sagði, og þessi mannvirki eru orðin nægileg fyrir bátaútveginn þar. En þrátt fyrir það, að reist hafa verið þrjú hraðfrystihús á Ísafirði, nægja þau ekki nema að mjög litlu leyti til að vinna úr aflamagninu, sem þangað berst, og verður aflinn þá að liggja þar í höfn, og engin trygging er fyrir því, að hægt sé að verka hann á annan hátt en í hraðfrystihúsunum, saltfiskmarkaðurinn er mjög takmarkaður, eins og kunnugt er. Það skiptir því meira máli á Ísafirði en annars staðar, að hinn mikla bátafloti þar þurfi ekki að liggja bundinn í höfn lengur eða skemur vegna skorts á verkunarstöðvum, og það er staðreynd, að á Ísafirði er ekki nægilegt fjármagn til að hrinda því mikla nauðsynjamáli í framkvæmd, sem hér um ræðir.

En spurningu hv. þm. Vestm. mætti einnig svara með annarri spurningu. Hvernig lítur það út frá sjónarmiði Norðlendinga t.d., að flestum síldarverksmiðjum ríkisins skuli vera valinn staður á Siglufirði, í stað þess að peðra þeim út um allt Norðurland? Þetta mun nú ekki þykja nema eðlilegt, þar sem Siglufjörður er langmesta síldarverstöðin og liggur bezt við síldarmiðunum. Hér er um beinar hliðstæður að ræða. Siglufjörður er mesta síldarmiðstöðin norðanlands, og Ísafjörður mesta þorskveiðamiðstöðin á Vestfjörðum. Þar eiga framkvæmdir ríkisins og aðstoð fyrst að koma til, að sínu leyti eins og síldarverksmiðjurnar voru fyrst reistar á Siglufirði, en engin ástæða er til að gera sjónarmið smáþorpanna að yfirgnæfandi aðalsjónarmiði í þessu máli.