08.05.1947
Efri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3938)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Hv. frsm. sjútvn., þm. Barð., hefur rætt nokkuð um þá dagskrá, sem hv. n. hefur látið frá sér fara í þessu máli. Vildi hann halda fram, að með hinni rökst. dagskrá væri ekki ætlazt til, að rannsókn færi fram á því, hvaða skilyrði væru á Ísafirði fyrir sjávarútveg og fiskiðnað. Ég skil vel, að hann skuli vilja hlaupa frá þessu, en frá því verður ekki hlaupið. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, ef stofnað hefur verið til fiskiðjuvers fiskimálan., án þess að ríkisstj. — öðrum ráðh. en þeim, sem málið heyrði undir, — hafi verið kunnugt um það. Ég skil ekki, hvernig stj. hæstv. fyrrverandi- forsrh. hefur getað stofnað til milljónafyrirtækis, án þess að fjmrh. hefði hugmynd um það, slíkt fyrirtæki hlyti að hafa verið stöðvað, ef það hefði verið skoðun ráðh., að þarna væri um óheimilan verknað að ræða. En hvernig sem þetta hefur gerzt, þá er þarna risið upp ríkisfyrirtæki í Reykjavík, fiskiðjuver, sem kostar 67 millj., hvað sem hver segir um það, á hvern hátt það hafi orðið til. Eitt atriði er það enn, sem hv. þm. Barð. ræddi um, það var, að ábyrgð viðvíkjandi fiskiðjuverinu í Flatey sé óskylt mál. Það er alveg rétt, að það er ekki alveg í sama sniði og þetta mál, sem hér er til umr., en óskylt er það ekki. Þegar hv. þm. Barð. beitir sér fyrir því, að fiskiðjuverinu á Ísafirði sé vísað frá, af því að ýmsir hlutir séu þar órannsakaðir, bæði skilyrði á staðnum og hver kostnaður verður og hvers konar fyrirtæki þetta skuli vera, þá gefur að skilja, að áður en ríkið tekur á sig bagga og ábyrgðir, — því hingað til hefur það þótt kvöð á ríkissjóði og getur, hvenær sem er, komið til þess, að það þýði jafnmikil útgjöld og ábyrgðin hljóðar upp á —, ef það þarf í fyrra tilfellinu að rannsaka öll skilyrði, þá þarf þess líka í hinu síðara.

Þá vil ég víkja nokkuð að því, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við þetta mál. Hann vildi halda því fram, að þetta mál væri á öðrum grundvelli byggt en þau mál, sem hefðu átt að koma til kasta nýbyggingarráðs. Ég vil taka það fram, að málið þótti það skylt starfsemi nýbyggingarráðs, að það þótti sjálfsagt, að það færi strax á byrjunarstigi í nýbyggingarráð og fengi þar staðfestingu á öllum áætlunum og meðmæli þess, og þar kvað ráðið upp þann úrslitadóm, sem því þótti hæfa. Ég hef hér fyrir framan mig l. um nýbyggingarráð, og get þar með fengið úr því skorið, hvort það sé rétt, sem hv. ráðh. heldur fram, að þeir í nýbyggingarráði hafi ekki átt að sinna öðrum en þeim, sem byggja á einstaklingsframtakinu, þeirra verksmiðjum. Mér finnst þetta ekki samrýmast því, hvernig hlutverk nýbyggingarráðs er skilgreint í 2. gr. l. Þar segir svo: „Ríkisstjórnin skipar fjögurra manna nefnd, er nefnist nýbyggingarráð.

Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu fimm ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki, samgöngutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, svo og, hvernig bezt verði fyrir komið innflutningi fáanlegra tækja og efnis á næstu árum, með það fyrir sugum að hagnýta sem bezt vinnuafl þjóðarinnar og suðlindir landsins.“

Ég sé ekki, að atvinnutækin og stofnanir, sem nýbyggingarráð á að beita sér fyrir, séu neitt flokkuð eftir því, hvort einstaklingsframtakið, félagsstofnanir eða ríkið á í hlut. Heildaráætlun gæti ekki verið til, nema ráðið léti sig skipta allar tegundir slíkra fyrirtækja. Í 2. gr. l. segir: „Þá skal nýbyggingarráð gera áætlanir um, hvar tækin skuli staðsett, og till. um byggingar og aðrar framkvæmdir í því sambandi.“ Eftir þessu hlutverki ætti að liggja fyrir, hvort Ísafjörður er staður, sem hefur skilyrði til þess, að þar væri reist fiskiðjuver, því að ráðið átti að athuga, hvaða staðir kæmu til álita, og nýbyggingarráð átti samkv. 2. gr. að „hlutast til um, að slík tæki verði keypt, og hefur milligöngu fyrir þá aðila, sem þau vilja kaupa og óska þess.“

Í þriðja lagi segir í 2. gr.:

„Innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi til framangreindra ráðstafana á fé samkvæmt 1. gr. skulu veitt samkvæmt till. nýbyggingarráðs.“

Þetta gerir mér torskilið það, sem hæstv. ráðh. fullyrti, að fiskimálan. skuli hafa getað komið upp fiskiðjuveri í Reykjavík án vilja nýbyggingarráðs, sem á að veita öll leyfi. Hvernig gat þetta farið fram hjá nýbyggingarráði? Hæstv. ráðh. afsakaði nýbyggingarráð með því, að það hefði skort vald til þess að koma í veg fyrir byggingu þessa fyrirtækis á vegum fiskimálan. Ég sé ekki annað en það hafi verið á valdi nýbyggingarráðs að veita öll leyfi. Þá fullyrðir hæstv. ráðh., að ósamkomulag hafi verið á Ísafirði í sambandi við fiskiðjuversmálið. Það er rétt, að eftir að sjálfstæðismenn og kommúnistar komust í meiri hl. í bæjarstj. Ísafjarðar, þá hafa þeir bundizt samtökum um það að stofna til félagsskapar um það að koma upp fiskiðjuveri á Ísafirði, án þess að það yrði opið hlutafélag. Þeir vildu byggja upp fyrirtækið á þann veg, að útgerðarfélög einstaklinga hefðu meiri hl. þess hlutafjár, sem leggja ætti fram. Svo langt gengu þeir til þess að reyna að tryggja sem bezt, að útgerðin fái meiri hl., að þeir neituðu að taka á móti framlagi hlutafjár frá Kaupfélagi Ísfirðinga. Eftir að sú neitun kom fram, var það fyrst, að ekki var hægt að fá samkomulag um það, að allir kepptu saman að einu fiskiðjuveri á Ísafirði. Þó vildu þeir leita eftir hlutafé frá auðjöfrum hér í Reykjavík, en neituðu hlutafé frá Kaupfélagi Ísfirðinga. Það er í sambandi við þetta og í sambandi við þau ummæli hæstv. ráðh., að hlutverk nýbyggingarráðs sé fyrst og fremst það að greiða fyrir fyrirtækjum, sem stofnuð séu á vegum einkaframtaksins, að ég vil leyfa mér að lesa nokkur atriði l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem áttu að vera til þess að greiða fyrir nýsköpunarframkvæmdum, sem stofnað yrði til.

Í 1. gr. þeirra l. eru ákvæði um, að stofnuð skuli sérstök bankastarfsemi til þess að tryggja framgang nýsköpunarfyrirtækja, einkanlega í sambandi við sjávarútveginn.

Í 3. gr. segir, að undir lánveitingasvið stofnlánadeildarinnar skuli koma síldarverkunarstöðvar, hraðfrystihús, beitugeymsluhús, niðursuðuverksmiðjur, verksmiðjur, sem vinna úr fiskúrgangi, lifrarbræðslur, skipasmíðastöðvar o.s.frv., o.s.frv., og í sömu gr. segir: „Forgangsrétt til lána samkvæmt 2. málslið 1. málsgr. skulu hafa félög útvegsmanna og fiskimanna, sem stofnuð eru til að reka iðnað í þágu útvegsins og eru opin útvegsmönnum og fiskimönnum, og félög, sem meginþorri útvegsmanna á hverjum stað er þátttakandi í, í þeim tilgangi, er að framan greinir, enda skipti félögin arði af rekstri í hlutfalli við viðskipti félagsmanna.“ M.ö.o., þarna er tekið fram, að forgangsrétt til lána samkvæmt 3. gr. l. eigi að hafa félög sjómanna og útgerðarmanna, sem starfa á samvinnugrundvelli og opin eru nýjum aðilum á hverjum tíma. Þarna er um beinan forgangsrétt að ræða fyrir samvinnufélög, en ekki hlutafélög. Í 8. gr. segir orðrétt: „Út á ný skip má lána allt að 2/3 af virðingar- eða kostnaðarverði, sé það lægra, og út á aðrar eignir allt að 3/5 af virðingar- eða kostnaðarverði, sé það lægra. Þó má lána allt að 3/4 út á ný skip og 2/3 út á aðrar eignir, ef bæjar- eða sveitarfélög eru lántakandi eða ganga í ábyrgð fyrir skilvísri greiðslu afborgana og vaxta, þar til lánið er greitt niður um helming. Enn fremur má lána félögum þeim, sem um ræðir í 2. málsgr. 3. gr. laga þessara, allt að 2/3 út á framkvæmdir þær, sem um ræðir í 2. málslið 1. málsgr. þeirrar greinar.“ Mér skildist á hæstv. ráðh., að opinber fyrirtæki, bæjar- og sveitarfélög hefðu átt að vera jöfn öðrum hjá nýbyggingarráði, en hér stendur, að þau skuli njóta forréttinda, að það skuli veita hærri lán, ef sveitarfélög og það opinbera stendur af þeim. Þessu á ég eftir að koma heim.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að eftir fundinn í nýbyggingarráði hefði komið upp ágreiningur milli aðila heima. En þar voru stofnuð tvö fyrirtæki, annað lokað hlutafélag, sem hafði mestan hluta útgerðarinnar að baki sér, en hitt samlag, opið öllum útvegamönnum á hverjum tíma, með minnstan hluta útgerðarinnar að baki sér. Bæði fyrirtækin sóttu svo um lán til stofnlánadeildarinnar, og stóð á því, að nýbyggingarráð kvæði upp sinn Salómonsdóm um það, hvort fyrirtækið ætti rétt á láni, og nýbyggingarráð sá sér ekki fært að kveða upp dóminn, og næst liggur þá fyrir, að Alþ. láti fara fram á því sérstaka rannsókn, hvort Ísafjörður eigi rétt á sér sem sjávarútvegsbær.

Nú er um garð gengin fyrsta vertíðin, síðan stofnuð voru þessi tvö félög, hlutafélag íhaldsmanna og samvinnufélag Alþýðuflokksmanna. Þá kemur í ljós, að skipastóll þessara fyrirtækja, sem áttu að standa undir þessu fiskiðjuversfyrirtæki, eru skip Samvinnufélags Ísfirðinga, sem öfluðu nú á vetrarvertíðinni 3847 tonn, og allt skip af þeirri stærð, sem geta stundað veiðiskap sinn heima og hefðu því orðið viðskiptaskip við væntanlegt fiskiðjuver. Hlutafélagið á 3 báta, sem hafa fiskað 678 tonn. Þetta sýnir betur en allt annað, hvers vegna nýbyggingarráð treysti sér ekki til að kveða upp dóm um það, hvort félagið kæmi til greina með lán úr stofnlánadeildinni.

Þá véku þeir að því, hæstv. fjmrh. og hv. þm. Barð., að ekki væri rétt að gera hér einum aðila kleift að víkja undan þeim vanda að skapa slík fyrirtæki sem þetta og láta ríkið framkvæma og kosta allt saman. Í þessu sambandi get ég fullyrt og lýst því yfir, að það er fullur vilji á Ísafirði fyrir því að leggja mikið á sig í þessu efni og engu síðri vilji en finnst annars staðar, og það var fullur vilji að koma upp fiskiðjuveri á Ísafirði, en er síldarvertíð brást í þriðja sinn, þá gátu menn þar ekki komið upp fiskiðjuveri, sem mundi kosta 5–6 milljónir króna, en hefði ríkið nú komið til hjálpar, þá hefðu allir útgerðarmenn og fyrirtæki, sem standa að útgerð, lagt sinn skerf til þess að koma þessu fyrirtæki upp. Hæstv. ráðh. sagði, að ef ríkið kæmi upp fiskiðjuveri á Ísafirði, þá mundi áhugi einstaklinganna dvína, sem hefðu lagt svo mikið á sig að koma upp hraðfrystihúsum og öðrum fyrirtækjum sjávarútvegsins. Ég held, að þetta sé ekki rétt; en það eru aðrar leiðir, sem drepa áhuga og stórhug; en það er, ef Alþ. neitar um aðstoð til handa stórri útgerðarstöð, sem er það lífsspursmál að nýta afla sinn sem, bezt, og. þm. sjá enga smugu til þess að koma þessu fyrirtæki upp.

Þá vék ráðh. að því, að hv. þm. Ísaf. hefði komið því inn í 22. gr. fjárlaganna, heimildargreinina, að heimila ríkisstj. að styrkja fiskiðjuver á Ísafirði, en það er aðeins. heimild, og er þar með ekki sagt, að Ísafjörður fái styrk til þessa, en það var ekki grundvöllurinn fyrir því, að sjútvn. leggur til að vísa málinu frá með rökst. dagskrá. Ég held því, að hér sé verið að leggjast í mót góðu máli, og ég hefði nú búizt við því, að sá ráðh., sem hv. flm. var staðgengill fyrir, hefði nú lagt þessu máli lið. Það er rétt, að skiptar skoðanir hafa verið á milli sjálfstæðismanna og Alþfl. um það, hvort þjóðnýta ætti fiskiðjuverin, en þetta mál er nú skylt síldarbræðslunum, og með fiskiðjuveri því, er sjútvn. lét reisa hér í Reykjavík, er prinsipið brotið.

Að lokum vil ég segja, að ég uni því hið versta, að þessu máli skuli vera vikið frá með mjög fjarstæðum rökum.