12.11.1946
Neðri deild: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3944)

62. mál, kirkjubyggingar

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég hef leyft mér að bera hér fram ásamt hv. þm. Snæf. og hv. 1. þm. Árn., um kirkjubyggingar og þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði kirkjuhúsa, hefur í öllum aðalatriðum legið fyrir hæstv. Alþ. áður og var fyrst borið fram árið 1944. Þá fylgdi því allýtarleg grg., eins og líka vísað er til í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Vænti ég þess, að hv. þm. flestir eða allir hafi fyrr eða síðar kynnt sér þá grg., sem fylgdi frv., er það fyrr var fram borið. Sú grg. gefur nokkuð ljóst til kynna, hvers vegna þetta frv. var flutt og af hvílíkri nauðsyn það nú er fram komið á hæstv. Alþ. enn á ný. En síðan það var borið fram 1944, hefur það gerzt að tilhlutun biskupsins yfir Íslandi og í samráði við hlutaðeigendur, að ekki aðeins öllum þjónandi prestum á landinu, heldur einnig öllum söfnuðum hefur þetta frv. verið sent með tilmælum um, að safnaðarfundir væru haldnir um málið og prófastar létu taka málið til athugunar á héraðsfundum, til þess að þessir aðilar létu í ljós álit sitt á því, hvort þeir væru því fylgjandi, sem í frv. er sett fram. Niðurstaðan af þessu er nú höfð til hliðsjónar við flutning þessa máls, en hún er sú, að málið, sem legið. hefur fyrir öllum söfnuðum landsins, eins og ég tók fram, það hefur fengið þær undirtektir, að allir safnaðarfundir, sem málið hafa tekið til meðferðar, hafa gert um það ályktanir og lýst sig málinu fylgjandi og sömuleiðis margir héraðsfundir. Hafa prestastefnan (synodus) 1945 og hinn almenni kirkjufundur sama ár einnig gert um það ályktanir og lýst sig því fylgjandi og óskað þess, að málið nái fram að ganga. Fram hafa komið till., sem eru um ýmsar smávægilegar breyt. á frv. eða til skýringar, þar sem þörf hefur þótt, og er í því frv. um málið sem nú er borið fram, tekið fullkomlega tillit til þess.

Af því, sem ég nú hef tekið fram, má ætla. að hv. þm. geti skilið það nú og við frekari meðferð málsins, að hér er ekki aðeins um áhugamál að ræða, sem á fylgi vítt og breitt um allt landið, heldur líka nauðsynjamál. Og þetta er ekki aðeins nauðsynjamál fyrir héruð landsins, heldur líka hverja einstaka sveit, meira og minna, eða þá söfnuði, sem er þörf á, að kirkjuhús séu byggð upp hjá þeim. Og má fullyrða, að þörfin á þeirri uppbyggingu sé svo mikil, að það sé almenningsmál, eins og komið hefur fram gagnvart einstökum þm., þannig að um það ætti ekki að þurfa að deila. Á síðustu árum hefur það komið hvað skýrast fram, hversu rík nauðsyn rekur hér á eftir, bæði vegna þess, að kirkjuhús eru víða og hafa verið svo úr sér gengin að engin bið var gerleg lengur á því að byggja þau upp. Og geng ég þá út frá því, að almennt sé viðurkennt, að kirkjuhús eigi að standa á þessu landi. Í annan stað hefur þróazt hjá mörgum ráðamönnum fólksins sú tilfinning, að ekki væri tilhlýðilegt, sóma og annars vegna, að þessi hús, guðshúsin, væru þannig úr garði gerð, að að þeim væri frekar smán heldur en hitt. Því að viðkomandi nauðsyn á skýli til þess að hafa guðsþjónustur inni í, þá er nú svo komið, í þessum efnum sem öðrum, að menn sætta sig ekki við það að byggja neina kofa. Þess vegna er viðkomandi þessum byggingum, eins og öðrum, krafa um það, að þær séu þannig gerðar, að mannsæmandi séu og að í þeim sé góður aðbúnaður. En kunnugt er, að mikið hefur skort á af mörgum ástæðum, áð kirkjuhúsin væru þannig. Að nokkru leyti er vikið að þessu í grg., sem ég gat um.

Eins og augljóst má vera, er það ókleift fyrir fátæka og lítils megandi söfnuði að byggja slík mannsæmandi kirkjuhús — auk alls annars, sem hvíli á skattborgurum landsins í heild. Þess vegna þótti tímabært að færa þetta mál á þennan vettvang, sem það nú er á og það var fært inn á fyrr á hæstv. Alþ., vegna þess líka, að fullar upplýsingar liggja til þess, að ríkinu ber skylda til — þar sem hér er ríkiskirkja, þjóðkirkja — að halda við húsum til guðsþjónustu, hjálpa fólkinu til þess að eignast slík hús og að halda þeim í góðu ástandi. Þetta er því fremur óumdeilanleg skylda hins opinbera, að því er ég tel, þar sem rökin fyrir því eru einnig þau, að ríkisvaldið tók af kirkjunni þær eignir, sem hún sem sjálfstæð stofnun átti og eignaðist, áður en ríkið tók að sér umsjá hennar, og þeim eignum hefur ekki verið skilað aftur. Afleiðing af þessari eignatöku, eftir að siðbót komst á, var að sjálfsögðu sú, að ríkið tæki að sér byggingu og viðhald kirkna. Öðruvísi gat með þessu móti það ekki náðst, að kirkjuhúsum væri haldið við. Ábyrgðin á þeim aðila, sem hefur þetta með höndum, fé það, sem kirkjan átti, og rekstur kirkjunnar að miklu leyti sem stofnunar, ábyrgð sú er því þessi, að annast um, að kirkjuhúsin séu til og sómasamlega gerð. En af því að kirkjuhúsin höfðu þá staðið uppi, er hinar arðberandi eignir kirkjunnar voru teknar af henni, og söfnuðunum hafði tekizt að eignast kirkjuhús, var látið svo ganga, að söfnuðirnir héldu kirkjuhúsunum við — sem varð í meira og minna óstandi og ættu að halda því áfram.

Nú leyfi ég mér að vísa til þeirra stjórnlaga, sem gilt hafa og gilda enn, ákvæðanna um, að hér á landi skuli vera ríkiskirkja, og tek þetta fram til stuðnings því máli, að ríkinu ber skylda til að annast þennan hluta kirkjumálanna, að kirkjuhúsin séu í lagi, eins og aðra hluti þeirra mála, sem ríkið hefur tekið að sér að annast.

Nú er hér að vísu ekki um það að tala, að stigið sé þetta spor að fullu með því að samþykkja ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir. En með því mundi það þó stigið að miklu leyti. Eins og tekið er fram í 1. gr. frv., skal það opinbera, ríkið, ef frv. verður samþ., greiða stofnkostnað þessara húsa að 3/4 hlutum. Hitt greiða söfnuðirnir. Og eins og nú er ástatt viðkomandi því að byggja vönduð hús og væntanlega mun verða framvegis um skeið, hvað sem yfir dynur, þá mun jafnvel 1/4 stofnkostnaðar við kirkjuhúsbyggingar verða ærinn til þess, að söfnuðir finni til hans. Þar að auki eiga nú — og það er ekki nein till. í frv. til breyt. á því — söfnuðirnir að halda við kirkjuhúsunum á sinn kostnað með kirkjugjöldunum að undirstöðu, sem þeir sjálfir greiða. Sömuleiðis eru hér í frv. sérákvæði um ýmislegt, sem sumt skuli hvíla eingöngu á söfnuðum og sumt að nokkru leyti á söfnuðunum og að nokkru leyti á hinu opinbera, sem hv. þm. munu kynna sér undir meðferð málsins.

Það er vitanlega svo, að allar kirkjur á landinu samanlagt eiga allverulegar og enda miklar eignir, en þær skiptast mjög misjafnt niður á kirkjuhúsin, eins og vitanlegt er, sem sumpart fer eftir megni safnaðanna. Sumpart hafa þessar eignir myndazt af því, að kirkjur hafa verið tekjumiklar og söfnuðir þar þá ekki lagt í mikinn kostnað við kirkjuhúsin, og hefur því safnazt fyrir fé í sjóðum kirkjunnar um landið í heild, sem eru sameinaðir í einum sjóði, hinum almenna kirkjusjóði. Sá sjóður eða þessir sjóðir, sem eru til nota kirkjuhúsanna, eru að sjálfsögðu, eftir ákvæðum frv. einnig, til þess ætlaðir, að kostnaður, sem verður af kirkjuhúsum, hvort sem er stofnkostnaður við byggingu eða viðgerðir, greiðist fyrst og fremst úr þeim. Þessu er ekki breytt hér. Við ætlumst til þess, að þetta fé renni í fyrstu röð til byggingar kirknanna, og síðan komi það af stofnkostnaðinum, sem þar er fram yfir, til skipta á milli ríkis og safnaða að greiða, sbr. ákvæði 1. gr. frv., þannig að ríkið greiði 3/4, en söfnuðir 1/4 hluta af þessum hluta stofnkostnaðarins. Þetta er því opinbera og söfnuðunum falið að sjá um, og þess vegna er biskupinn sjálfkjörinn yfirmaður þessa og einnig starfsmenn ríkisins, svo sem húsameistari ríkisins, sem eiga að sjá um, að framkvæmdir á þessum byggingamálum gangi eðlilega og reglulega, eftir því sem þörfin kallar að, og eiga þeir að sjá um, að þar sé fyrst unnið að framkvæmdum í þessum málum, sem þörfin fyrir það er brýnust. En þó að ég nefni í þessu sambandi húsameistara ríkisins, þá eru ákvæði í frv. um það, að aðrir húsameistarar geti komið þar til greina til þess að gera teikningar að kirkjuhúsum og áætlanir um byggingu þeirra, og þarf ekki til þess annað en að samþykkja það af þeim, sem þarna standa að. Má vera, að ýmsum mönnum þyki þetta frjálslegra, og þykir mér það að sjálfsögðu, því að söfnuðir geta haft þann vilja, þó að þeir vilji byggja kirkjuhús, að vilja ekki láta byggja eftir einni snúru, en óska heldur t.d. að hafa samkeppni um þessar byggingar eins og ýmsar aðrar, og eftir frv. á það þá að vera gerlegt.

Í frv. er greint, hvernig skuli ákveða, í hvaða röð kirkjubyggingar eigi að framkvæmast. Þar er til tekið, að á fyrsta ári, eftir að l. þessi eru komin í gildi, skuli biskupinn láta fram fara undir umsjón húsameistara ríkisins rannsókn á því, hverjar kirkjur muni þurfa að byggja upp á næstu fimm árum, og að að þeim tíma liðnum skuli fara fram sams konar rannsókn til fimm ára og þannig áfram, þó svo, að skipt sé á milli landsfjórðunga þannig, að ekki sé ójöfnuður í frammi hafður. Og þegar þess er gætt, að nú er þegar töluvert upp byggt af kirkjuhúsum, sem mega endast lengi, þá sjá menn, að þar sem svo sterkir aðilar eiga að vinna að þessu, sem eru ríkið annars vegar og söfnuðir hins vegar, þá ætti þetta ekki að vera verulega þungbært, heldur mjög létt, einkum þegar fyrir fram er búið að gera áætlun um þetta. En þetta atriði verður þó að beygjast undir það, eins og aðrar framkvæmdir, að ef ógerlegt er að koma einhverju fram, þá verður það að þoka til hliðar um stund, þar til kleift er að framkvæma það.

Ég vil aðeins drepa á það, að hér er svo til tekið í frv., að þau kirkjuhús, sem eru í smíðum, þegar þetta frv. — væntanlega bráðlega — öðlast lagagildi, þau hús geti fallið undir ákvæði þessara l., því að dæmi eru til þess á þessum síðustu árum, að fátækir og fámennir söfnuðir hafa brotizt í að byggja ný kirkjuhús. Ef viðkomandi stjórnarvöld samþykkja það, geta þessi hús komizt undir ákvæði þessara l., og er þessa þörf, því að menn hafa búizt við, að þetta mál gengi hraðar hjá löggjafarvaldinu en raun er á. En ég sakast ekki um það. Aðalatriðið er, að málið hljóti nú afgreiðslu á sómasamlegan hátt.

Þetta mál var til meðferðar hjá menntmn. þessarar hv. d. síðast og fer væntanlega þangað aftur. En þeim hv. nm., sem þar unnu að, vannst ekki tími til þess að senda málið frá sér þegar það var flutt fyrr. Nú er þetta mál flutt svo tímanlega á þinginu, að takast mundi mega að afgreiða málið á þessu þingi.

Ég hef talið mér skylt að taka inn í þetta frv. ákvæði um það, að kleift sé að stofna fríkirkjusöfnuði í landinu, ef vilji er nægur fyrir því. Og ég vil ganga það langt, að þeir söfnuðir, sem að tilteknum meiri hluta samþykkja það, eigi kost á að fá kirkjuhúsin, sem þar er um að ræða, til eignar eða umráða, því að það er að sjálfsögðu þannig, að hvert kirkjuhús, á hvaða stað sem er, er byggt fyrir allan þorra safnaðarins, sem þar er, en ekki þá fyrst og fremst, sem eftir vildu vera í þjóðkirkjunni, ef meiri hluti safnaðarins óskar að hafa fríkirkju.

Að svo mæltu óska ég, að málið verði látið ganga til 2. umr. og menntmn.