27.01.1947
Neðri deild: 59. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3958)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég vil ekki á þessu stigi málsins ræða ákvæði þau, sem frv. gerir ráð fyrir, að sett verði, en benda á nokkur atriði, sem rétt er að komi fram nú þegar við 1. umr.

Í frv. gætir nokkurs ókunnugleika, svo og í rökstuðningnum, bæði framsöguræðu og grg. Gert er ráð fyrir, að ákvæði þessa frv. taki til þeirra starfa, sem ráðh. veitir, það er þeirra embætta, sem forseti Íslands hefur í höndum, og annarra embætta, sem ráðh. veita. Það er ekki rétt, að löggjöf fjalli um fleiri embætti, en í 10. gr. er vikið að öðrum störfum, svo sem forstjórum fyrir stofnunum o.fl. Það er ekki eðlilegt, að löggjöfin nái lengra en til þeirra embætta, er ráðh. veita, því að það mundi trufla umráð stofnananna yfir sínum mönnum. Ég tel því, að það sé ekki réttmætt, þegar hv. flm. tekur þetta inn í 10. gr. og virðist ætlast til, að ráðh. ákveði með reglugerð, hversu með skuli fara. Það er enn fráleitara, því að til hennar skortir alla heimild, t.d. um kaupstaði, sem ekki lúta ríkisvaldinu, og væri því slík reglugerð ólögmæt, þrátt fyrir það að þetta frv. yrði að l.

Það er mjög athugandi, hvort það er eðlilegt, að einstakir þm. ráðist í að bera fram slík frv. Er ekki réttara að ríkisstj. sé falið það? Ég tel, að undirbúningur slíkra frv. þurfi að vera mjög góður og ríkisstj. ætti að hafa hann með höndum og þm. svo að taka afstöðu að þeim undirbúningi loknum.

Sú leið var farin 1945 í sambandi við veitingu embætta héraðsdómara að fela ríkisstj. að leggja frv. um það efni fyrir Alþ., en það hefur ekki komið til framkvæmda enn. Það náði þá ekki lengra en til héraðsdómara, en þegar til þings kom, vildu ýmsir þm. bæta fleiri embættum við, t.d. læknum, og það mætti segja, að heildarfrv. ætti að bera fram, og væri hægt enn, því að árangur er ekki enn kominn í ljós. Það var lagt til 1945, að um veitingu héraðsdómaraembætta gilti sú regla, að leitað yrði umsagnar 3 manna nefndar og væri einn tilnefndur af félagi héraðsdómara, sem er eðlilegt, þar sem það er þeirra stofnun, annar tilnefndur af hæstarétti og sá þriðji af lagadeild háskólans, sem nú útskrifar alla þá, sem til greina koma, og veit því vel um hæfileika hvers og eins.

Ég vil taka það fram, að með þessu er ég ekki og mótmæla því, að allsherjarlagasetning komi um embættaveitingar. Um lækna hefur þegar myndazt föst regla, og þótti því ekki ástæða til að taka þá með 1945. Þau embætti eru veitt samkv. till. frá landlækni og Læknafélagi Íslands, og hefur varla verið frá því vikið um tugi ára. Hvaða ástæða er til að lögfesta þetta, skal ég ekki segja að svo stöddu. Um presta gilda föst ákvæði, þeir eru kjörnir í hverju prestakalli, og eftir því fer veiting þeirra. Ef kosning er ekki lögmæt, sem er algengt, leggur biskup venjulegast til, að sá fái embættið, sem fær flest atkv. Frá þessu hefur svo lítið verið vikið, að ekki er ástæða til að gera rellu út af því. En það er athugandi, hvort ekki ætti að breyta þessu svo, að fella kosninguna niður, en ríkisvaldið veiti prestsembættin, en um það skal ég ekki segja að sinni, en kosningarfyrirkomulagið er gallað. Nú eru aðrir embættismenn á ríkisins vegum, svo sem við háskólann og t.d. við útvarpið. Hv. flm. veit, að aðrar reglur gilda þar um ráðningar, þótt að vísu hafi verið vikið þar frá, en ekki vil ég fara út í það. Aðalreglan er þessi, og svona mætti lengi rekja. Það er hæpið að fara of langt, en ef ríkisvaldið er ekki bundið, þá skapast meiri óánægja með það en ef ekkert væri um aðhald, en verr væri af stað farið en heima setið, ef setja ætti upp ráðuneytis. bákn. Ég tel æskilegast að setja í lögin ákveðin skilyrði í þessu efni um það, hverjir kæmu til greina í slík embætti, og þá yrðu mestar líkur fyrir því, að menn gerðu grein fyrir lærdómi og hæfni. Eins og þetta frv. liggur fyrir, tel ég það merkt mál, en ég tel varhugavert að flana hér að neinu. Nú fer málið í n., og mun hún að sjálfsögðu athuga, hvort ekki sé rétt að breyta einhverju og koma ýmsu meir á hreint en nú felst í frv.