28.01.1947
Neðri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3962)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins gera hér örlitla aths. og mæli hana til flm. þessa frv.

Hv. flm. hefur látið hér falla nokkur orð varðandi tvö atriði, sem ég sagði í gær, að stöfuðu af ókunnugleika hv. þm. Hv. flm. játaði frjálslega, að hann hefði ekki haft hugmynd um þáltill., sem flutt var hér á þingi varðandi þetta mál. En ég hafði talið, að beinast lægi við að taka tillit til þess, sem fram hefði komið í þessu máli.

Varðandi ákvæði 10. gr. þá stendur þar sem sé ekki neitt um vald eða heimild, heldur að ríkisfyrirtækjum og opinberum stofnunum, sem ákvæði 2. gr. taka ekki til, svo og kaupstöðum, fyrirtækjum og stofnunum þeirra, skuli hlutaðeigandi aðili setja reglugerð, er ráðh. staðfestir. Þetta er gert að skyldu, sem ég tel að ófyrirsynju. Það er ekki hægt að skylda viðkomandi aðila til að gera þetta með einfaldri reglugerð. En hvað um það, þetta atriði hefur ekki mikið að segja. Hv. þm. drap einnig á það, sem ég sagði í gær um reglur, sem gilt hefðu um veitingu sumra embættisflokka. Hv. þm. nefndi læknaembætti, sem vel mátti, þar sem ég tók það dæmi og taldi, að um tug eða tugi ára hefði gilt sú regla að veita eftir till. landlæknis eða Læknafélags Íslands. Hv. þm. nefndi dæmi í stjórnartíð ákveðins þm., þar sem vikið hefði verið frá þessu. Þar sem liðið er nokkuð á annan tug ára, síðan viðkomandi þm. var ráðh., og þar sem allir sættu sig við þetta, þá tel ég þetta geta staðizt, enda undantekningin aðeins til þess að staðfesta regluna. Ég held því, að allt ætti að geta fallið í ljúfa löð okkar á milli.

Ég er því fylgjandi eins og hv. 1. þm. Árn., að n. taki við málinu, sem svo væntanlega rannsakar það og gerir gangskör að því, að það komist heilu og höldnu til réttra hlutaðeigenda.