03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (3987)

28. mál, iðnfræðsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N–M. hafa fært hér rök fyrir till. sínum og andmælt mínum till. Ég skal nú fara fljótt yfir sögu, en ég vil enn vitna í löggjöf Dana, en hún skiptir nú ef til vill ekki máli fyrir okkur, en ég held, að mþn., sem hafði þetta mál til meðferðar, hafi haft hliðsjón af þeim reglum, sem Norðurlöndin hafa í iðnlöggjöf sinni. Út af því, sem hv. þm. sagði um mikið vald iðnráðsins, þá verð ég að játa, að ég hef ekki stúderað þetta alveg ofan í kjölinn, en þetta virðist mér vera líkt og í löggjöf Dana. Annað er í þeirra löggjöf, að gert er ráð fyrir, að iðnstéttirnar hafi fjögurra manna ráð úr sveinastétt og meistarastétt, og svipað var rætt um í mþn. Ég hef vitnað í það, hvernig erlenda reynslan hefur verið byggð í meistarafræðslunni, en hana mætti taka upp fyrr eða seinna, en það liggur ekki fyrir nú, og hygg ég, að það þyrfti allverulegan undirbúning. Nú hefur mér skilizt á hv. þm. Barð., að hann muni sætta sig við frv., þótt brtt. hans verði ekki samþykkt nú, og mætti breyta l. síðar að fenginni reynslu. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm., en varðandi 22. gr. frv. þá las hv. þm. upp úr erindi, sem barst nú alveg inn á fundinn. Ég játa, að ég er persónulega ekki kunnugur núverandi ástandi í þessum málum, sem gr. fjallar um, en hv. þm. vitnaði í ástæðuna til að gera hér breytingar á, og með því sannaði hann mitt mál. Hins vegar varðandi námstímann, þá verður það hlutverk iðnfræðsluráðs að setja skilyrði í því efni með reglugerðarákvæði. Varðandi það, sem hv. þm. Barð. sagði um próf, þá eru próf ekki alger mælikvarði á kunnáttu og leikni í öllum skólum, og sérkunnáttan er nú í hávegum höfð, og er rétt að tryggja menntunina, svo að hinir ungu menn verði sem bezt undir það búnir að leysa vandaverkin af höndum. Ekki er ástæða til þess að ræða frekar um þetta við hv. þm., en hann vitnaði í bréf hinna ungu manna, iðnnemanna, og vitnaði í það, sem kæmi honum í hag, og er þá rétt, að ég lesi hér kafla úr sama bréfi, sem kemur mínum málstað í hag, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir: „Stjórnin er eindregið á móti öllum brtt. Gísla Jónssonar. Í fyrsta lagi er stjórnin mótfallin því, að alþingi kjósi í iðnfræðsluráð, vegna þess að hún telur meiri hættu á, að þar verði menn fremur valdir eftir stjórnmálaskoðun heldur en iðnfræðilegri þekkingu. 2. brtt. Gísla er stjórnin mótfallin vegna þess, að hún telur 18. gr. frv. í alla staði heppilegri, hvað viðkemur fjarveru nemanda vegna veikinda. 3. brtt. a.-lið getur stjórnin með engu móti fallizt á, vegna þess að hún telur, að nemendum beri kaup, meðan þeim er skylt að mæta til æfinga og meðferðar véla og verkfæra, sem á vinnustaðnum eru, því að slíkt tilheyrir óhjákvæmilega sjálfu iðnnáminu, enda geta iðnnemar engu ráðið um vinnustöðvanir. Hvað b.-lið viðkemur, telur stjórnin aðra málsgr. í 22. gr. frv. í alla staði heppilegri og breytingu á henni algerlega óþarfa.“ Þetta segja nú iðnnemar.

Það er stórt atriði í þessu máli, að allir þeir fulltrúar, sem mættu í n. úr iðnstéttum, voru á móti, að ákvæði, sem felast í brtt. á þskj. 320, 2. tölul., væru tekin í frv. Og þó að hv. Alþ. sé hér yfirhúsbóndi í þjóðmálum um löggjöf og annað, þá vil ég ekki að gengið sé alveg í berhögg bæði við iðnsveina og iðnmeistara í þessu efni. Ég tel, að þeir hafi það mikil rök fram að færa í þessu máli, að ég treysti mér ekki að ganga þar beint á móti, sem mundi ef til vill hafa þær afleiðingar að koma þessu frv. fyrir kattarnef. En ég tel, að nauðsyn sé að koma þessari löggjöf á nú þegar. Hún stendur að sjálfsögðu til bóta, og það er fyrsta skilyrðið að koma málinu í höfn nú með væntanlegum umbótum síðar, eftir því sem reynslan sýnir og nauðsynlegt er.