03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3990)

28. mál, iðnfræðsla

Hannibal Valdimarsson:

Ég er andvígur því, að það sé alveg fast og bundið, að hversu hæfir sem menn eru í ákveðna iðn, þá megi þeir ekki fá réttindi, nema því aðeins að þeir hafi stundað nám hjá meistara. Ég tel, að iðnlöggjöfin eigi að sjá um, að engir óhæfir menn fái iðnréttindi, en ég tel, að iðnlöggjöfin megi því síður standa í vegi fyrir því, að menn, sem hafa fullnægjandi kunnáttu, fái réttindi. Þess vegna er ég samþykkur þessari till. og tel, að það sé ekki gengið á rétt neinna með henni. Að útiloka menn, sem hafa fullnægjandi verklega kunnáttu og geta gengið undir próf, tel ég ranglátt. Ég tel, að þeir menn, sem eru að stimpast gegn því, að þessir menn fái réttindi, sem þessi próf veita, séu fyrst og fremst að stuðla að því að tryggja meisturum ódýran vinnukraft, og það álít ég alveg óþarft að viðhalda slíku þrælahaldi hér í þessum efnum og segi því já.