12.04.1947
Efri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja allt of mikið þessa umr. En mér þykir rétt að gera nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Barð., sem að vísu sagði margt réttilega.

Ég tek undir það, sem hv. þm. sagði, að segja má, að hver króna, er fyrrv. ríkisstj. lagði fram, hafi skilað tveim krónum til ríkissjóðs aftur. En ég óttast, að öfugt fari um þessar álögur núv. stj., að fyrir hverja krónu, sem nú er lögð á, tapist aðrar tvær. Það er ekki sama, hvernig háttað er fjárhags- og atvinnuástandi, þegar koma á saman fjárl., og þetta hefur hv. þm. Barð. skilið. Tekjur ríkisins fara vitanlega eftir því, hvort atvinnuvegirnir blómgast eða þeim hrörnar. Það er því ekki hægt að ræða fjárl. nema í sambandi við rekstur þjóðarbúsins í heild. Ég vil sérstaklega undirstrika þennan kafla í ræðu hv. þm., og þessi sannindi munu eiga eftir að sýna sig.

Svo eru nokkrar aths. út af öðrum atriðum í ræðu hv. þm. Barð. Hann sagði. að eitt af því, er ylli því, að stjórnarsamvinnan rofnaði, hafi verið brigðmæli sósíalista við það loforð, að ekki skyldu gerðar kauphækkanir. En Sósfl. gaf aldrei slíkt loforð og getur það ekki meðan verkalýðsfélögin eru frjáls og hafa samningsfrelsi. Hitt er svo annað mál, að þegar ríkisstj. var stofnuð, stóðu að henni atvinnurekendur og verkamenn. Það var því stefna ríkisstj. að hafa samkomulag um kaupgjaldsmál, og Alþýðusambandið var búið að gera tilboð um heildarsamninga fyrir eitt ár, eða jafnvel tvö, með nauðsynlegum leiðréttingum til samræmingar. En þá voru það atvinnurekendur, sem höfnuðu þessu tilboði um heildarsamninga. Í þessu eru brigðmæli sósíalista fólgin.

Hv. þm. Barð. gekk lengra og ásakaði sósíalista fyrir að hafa komið á hækkun á launum opinberra starfsmanna. Sósíalistar gáfu engin loforð í því efni, heldur kom stj. sér saman um að setja ný launalög, enda var það nauðsynjamál, sem sósíalistar geta verið hreyknir af, þó að þau yrðu að lögum með stuðningi Alþfl. og Sjálfstfl. og raunar stjórnarandstöðunnar líka

Þá ræddi hv. þm. einnig einkasölur og hélt því fram, að opinber rekstur hlyti að vera taprekstur. Hann nefndi Póst og síma, Landssmiðjuna, strandferðaskipin, Fiskiðjuverið, Leiguskip ríkisins og Síldarverksmiðjurnar. Nú er það svo, að þessi fyrirtæki eru yfirleitt ekki rekin til að græða, heldur til þjónustu fyrir almenning. Ég veit ekki, hvort hv. þm. vill hætta að þjóðnýta Póst og síma og útvarp og hafa þar einkarekstur, eins og gert er í Bandaríkjunum. En síminn hefur skilað hér ágóða.

Hann hefur staðið undir miklum framkvæmdum í símamálum landsins. Tapið, sem hv. þm. Barð. talaði um, er af því, að afnotagjöldin voru ekki sambærileg við launahækkun starfsmanna. Hvað snertir Síldarverksmiðjurnar, þá eru þær ekki reknar í gróðaskyni, heldur til að útgerðarmenn geti fengið fullan afrakstur af sinni framleiðslu, en verksmiðjurnar hafa safnað miklu í sjóði, það er rétt, og það getur hafa valdið lægra verði á hráefninu til þeirra, sem að útgerð starfa. Hin fullyrðingin, um það, að einkaverksmiðjum gangi betur, hana er erfitt að sanna, og sneiddi hv. þm. þar nærri flokksbræðrum sínum, sem stjórna ríkisverksmiðjunum. — Þá eru það fiskflutningaskipin. Þau voru tekin til að hækka fiskverðið til útvegsmanna og sjómanna. Og það tókst. Verðið hækkaði um 15%, og það er því ekki lítill arður, sem þau skip skiluðu. — Það er rétt, að það er eitt ríkisfyrirtæki, sem illa hefur verið rekið. Það er Landssmiðjan, þar sem fyrrv. hæstv. atvmrh. skipti um forstjóra. Nú er það svo, að þegar þeir stjórna, sem mótfallnir eru opinberum rekstri, þá er alltaf sú hætta á ferðum, að þeir hafi ekki mikinn áhuga á, að allt gangi sem bezt. Nú segir hv. þm., að stjórn smiðjunnar hafi verið skipuð ágætum mönnum. Hvernig á þá að skýra tapreksturinn? Eru einhver álög á fyrirtækjum, ef þau bara eru í eigu hins opinbera? — Hv. þm. nefndi Viðtækjaverzlunina. Um hana er það að segja, að hún hefur skilað 270 þús. kr. ágóða. Hann nefndi útvarpið, sem nú hefur í hyggju að reisa hús, sem mun kosta allt að 10 millj. kr., og undir þessum kostnaði mun útvarpið standa sjálft. Það var á sínum tíma hamazt á móti Tóbakseinkasölu og talið betra að hafa sölu tóbaksins í höndum einstaklinga. Ég held, að engum detti nú í hug að halda því fram, að tóbakseinkasalan sé ekki mikil tekjulind fyrir ríkissjóð. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur borið fram frv. um innkaupastofnum ríkisins. Vitaskuld er það gert til þess að fá hagkvæmari innkaup, og ef það er nú rétt, að ríkisfyrirtæki séu dæmd til taprekstrar, hvers vegna er þá þetta frv. borið fram?

Og hv. þm. spurði, hvort hægt væri að fá meiri tekjur af ríkisrekstri, en einkarekstri. Það er auðvelt að svara því, og er þá gert ráð fyrir jöfnum dugnaði og hæfni þeirra manna, er veita fyrirtækjunum forstöðu. Í fyrsta lagi er innflutningsverzlunin í höndum fjölda einstaklinga. og gætir þar mikillar óhagsýni, því að rekstrarkostnaðurinn verður gífurlegur, en með því að hafa hann á einni hendi er hægt að lækka þann kostnað gífurlegar, en unnt er að gera sér grein fyrir í fljótu bragði, en ef innflutningurinn er á einni eða fáum höndum, er hægt að draga mjög úr þeim kostnaði og komast af með miklu færra fólk. Við þetta bætist, að stórar verzlanir gera að öðru jöfnu betri innkaup, og í þriðja lagi, og það er aðalatriðið, er þá um það að ræða, að gróðinn renni til hins opinbera, en ekki til einstakra manna. Það er vitaskuld höfuðatriðið.