28.10.1946
Neðri deild: 6. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (4012)

20. mál, vinnumiðlun

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég vildi í þessu sambandi láta þess getið, að ég tel ekki óeðlilegt, að sá háttur sé á, eins og er í gildandi l., að ríkisstj. tilnefni einn mann í stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna, með því að ætlazt er til, að ríkið greiði verulegan hluta af kostnaðinum. Þetta réttlætist af því sama og að ríkið skipar formenn skólanefnda og hefur með því vissa íhlutun um það, hvernig farið er með það fé, sem veitt er til þeirra mála. Ef sá háttur yrði upp tekinn, að ríkisstj. hefði enga hlutdeild í rekstrinum, teldi ég rétt, að bæjarsjóðir bæru allan kostnað af skrifstofunum, en svo er ekki nú. Nú er það svo, að þegar l. um vinnumiðlunarskrifstofur voru sett á Alþ., var það gert í því skyni, að hægt væri að miðla vinnu milli kaupstaða og landsfjórðunga, ef með þarf, og hugsað þannig, að samvinna sé milli viðkomandi bæjarstjórna, atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og ríkisins til þess að reyna að sjá um, að atvinna verði í landinu: Ég hygg, að þessi grundvöllur; sem lagður hefur verið með löggjöfinni um vinnumiðlun, sé bæði skynsamlegur og réttlátur, og sé enga ástæðu til að breyta til í þessu efni, nema. það sé þannig, að bæirnir vilji að öllu leyti taka að sér þær skyldur, sem ríkisvaldið hefur í þessu efni, en það tel ég ekki rétt. Ég sé ekki ástæðu til að slíta því sambandi, sem er milli þessara fjögurra aðila samkvæmt núgildandi vinnulöggjöf, og er þess vegna á móti þessu frv. En verði sá háttur upp tekinn, að ríkið tilnefni framvegis engan mann, mun ég bera fram brtt. á þá leið, að ríkið beri þá engan kostnað.